Fulltrúi Landverndar á hafráðstefnunni í Nice

vistkerfum hafsins hefur hrakað gríðarlega á undanförnum áratugum og í ofanálag hitnar hafið hratt

Af hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nice er þetta helst.

Fulltrúi Landverndar er staddur á Hafráðstefnu Sameinuðu Þjóðanna 2025 í Nice. Þar eru samankomnar þúsundir og aftur þúsundir fulltrúa flestra ríkja heims sem hafa einhverja hagsmuni af því að hafið okkar sé heilbrigt. Og það er vissulega áhyggjuefni hjá mörgum, og ekki að ástæðulausu, að vistkerfum hafsins hefur hrakað gríðarlega á undanförnum áratugum og í ofanálag hitnar hafið hratt vegna þess hvernig hlýnun jarðar heldur áfram að aukast af völdum útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Þetta hefur ýmis slæm áhrif og þarf ekki að orðlengja að sinni.

Hér má til dæmis finna upplýsingar um ráðstefnuna

Hvað er að frétta af Ráðstefnunni?

Mig langar að segja ykkur frá því sem hæst ber af því sem hefur snúið að íslensku sendinefndinni hér. Ég nýt þess heiðurs að vera fulltrúi Landverndar og þakka fyrir það með mórölskum stuðningi frá Náttúruverndarsamtökunum og Aldin. Hér var og er mikil umræða um það sem við höfum fengið að heyra í vaxandi mæli um verndarsvæði í hafi. Menn telja að þau séu nauðsyn til þess að stöðva þá þróun á vistkerfum hafsins sem hrakar mjög og endurheimta mörg aftur. Friðun og vernd af ýmsum toga mun hjálpa til. Það er mikilvægt að við áttum okkur á því þegar við tölum um verndarsvæði í hafi að það er ekki bara einn flokkur friðunar eða verndunar. Þeir eru nokkrir ólíkir og hafa hver sinn tilgang miðað við það lífríki sem á að vernda í hverju tilviki. Og leyfa einnig sjálfbæra nýtingu í sumum tilfellum. Það eru því nokkrir flokkar verndarsvæða sem við þurfum að hafa í huga og vinna með þegar við krefjumst þess að fá fleiri verndarsvæði í hafi. En hér eru margir sem telja einmitt að þau hafi sannað gildi sitt nú þegar, þó svo að aðeins átta prósent af hafinu í heild sé innan verndarmarka og þar af þrjú prósent um það bil sæmilega vel viðhaldið og stjórnað.

Hér má sjá áskorun 9 náttúruverndarsamtaka sem var gefin út á dögunum.

Á Íslandi er talan jafnvel lægri, milli eitt og tvö prósent. En hér lýsti umhverfisráðherra Íslands því yfir að hann vildi setja þessi mál á oddinn á næstu árum og taka undir þá kröfu sem kom fram í Kunming-Montreal samkomulaginu um líffræðilegan fjölbreytileika fyrir þremur árum að stefna ætti að vernd þrjátíu prósenta hafs og lands fyrir 2030, þessi fræga klásúla um þrjátíu /þrjátíu. Þar talaði umhverfisráðherra mjög skýrt. Hér var líka mikið talað fyrir að þyrfti að stöðva að minnsta kosti tímabundið allan námugröft á hafsbotni. Það tókst ekki að ná samkomulagi um það. Ekki tókst heldur að fá nægan fjölda ríkja til að staðfesta samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika utan efnahagslögsögu, svokallaðan BBNJ-samning, en það mun nást síðar á þessu ári. Tala fullgildinga er langleiðina komin upp í sextíu. Ísland á eftir að fullgilda samninginn, gerir það síðar á árinu væntanlega, og svo munu fleiri bætast við. Hins vegar er ekki útlit fyrir að náist samkomulag um alþjóðlegan plastsamning eða rammasamkomulag um plastmengun og notkun á plasti á hnattræna vísu á næstunni. Það er lengri og þyngri leið heldur en margir bjuggust við.

Undirtónn ráðstefnunnar á réttri leið

Mig langar að geta þess að hér er undir forystu Jóns Erlings Jónassonar frá utanríkisráðuneytinu svokallað Bláfæðubandalag. Aquatic Blue Food Coalition frá sem stendur fyrir nokkrum viðburðum, Ég naut þess heiðurs á sínum tíma að vera formaður þess í þrjú ár. Jón Erlingur Jónasson hefur tekið við formennsku þar og eru saman í forystu Ísland, Stanford-háskóli og Environmental Defense Fund í Bandaríkjunum. 40 ríki og samtök eru sameinuð um það markmið að koma mikilvægi fæðu úr höfum og vötnum á framfæri á ráðstefnu eins og þessari. Því hafið er fæðukista fyrir stóran hluta mannkyns, því má ekki gleyma og þess vegna er til mikils að vinna að vernda hafið sem fæðugjafa. Bláfæðubandalagið stóð fyrir viðburðum af þessum toga. Síðan vil ég geta þess að lokum að það er ánægjuvert að heyra undirtón á ráðstefnunni þess efnis að varúðarregla náttúruverndar sé ekki nóg. Varúðarreglan, sem hefur verið í gildi frá Ríó 1991 og menn hafa sett í samhengi við að vernda líffræðilegan fjölbreytileika, vistkerfi og svo framvegis, sé bara einfaldlega ekki nóg og það þurfi að taka upp verndarreglu sem á við um allt náttúrulegt líf þannig að sönnunarbyrðinni er snúið við. Verndarreglan segir: Ef þið getið ekki sannað að það sem þið gerið sé skaðlaust, þá gildir vernd. Það verður áhugavert að sjá hvernig menn taka undir kröfur af þessu tagi. Þetta er umræðuefni sem mun örugglega ekki víkja úr huga okkar á næstunni, en við látum þetta duga frá Nice að sinni.

Stefán Jón Hafstein

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd