jardhiti

Fundur um verndun og orkunýtingu landssvæða

Kynningarfundur um umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka um drög að tillögu að þingsályktun um verndun og orkunýtingu landssvæða verður haldinn í Þjóðminjasafninu miðvikudag 8. febrúar kl. 12-13:30.

Kynningarfundur um umsögn þrettán náttúruverndarsamtaka um drög að tillögu að þingsályktun um verndun og orkunýtingu landssvæða verður haldinn í Þjóðminjasafninu miðvikudag 8. febrúar kl. 12-13:30. Landvernd stóð að þessari umsögn. Framsöguerindi flytur Rannveig Magnúsdóttir sem ritstýrði umsögn samtakanna. Almennar umræður í lokin.

Á næstu dögum má vænta endanlegrar þingsályktunartillögu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra um verndun og orkunýtingu landssvæða. Í nóvember síðastliðnum skiluðu þrettán náttúruverndarsamtök á Íslandi sameiginlegri umsögn um drög að þessari tillögu. Samtökin þrettán lögðu til að mun hægar verði farið í frekari orkuuppbyggingu í jarðvarma og vatnsafli og fleiri svæðum hlíft en tillögudrögin gera ráð fyrir. Samtökin setja fram skýra sýn sem byggir á náttúruvernd og leggja m.a. til stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands og eldfjallaþjóðgarðs á Reykjanesskaga, auk verndunar Jökulsánna í Skagafirði og svæða í Skaftárhreppi svo eitthvað sé nefnt. Samtökin þrettán styðja þá aðferðafræði að skipta svæðum í verndar-, bið- og nýtingarflokka og fagna því sérstaklega að dýrmæt náttúruverndarsvæði fari í verndarflokk, t.d. Þjórsárver, Jökulsá á Fjöllum, Kerlingarfjöll, Bitra og Grændalur, Geysir og Gjástykki.

Yfirgnæfandi meirihluti erlendra gesta sem sækir okkur heim lítur á náttúru Íslands sem helsta aðdráttarafl landsins. Náttúra Íslands einkennist af einstöku samspili elds og ísa, stórbrotnu landslagi og stórum lítt snortnum víðernum, sem þó hefur verið gengið freklega á síðustu áratugina. Virkjanahugmyndir lenda gjarnan inn á svæðum með afar hátt verndargildi. Því fara verndun og orkunýting víða illa saman. Nú þegar er búið að raska um helmingi af virkjanlegum háhitasvæðum á landinu og fjöldinn allur af vatnsaflsvirkjunum hefur verið reistur eða er í byggingu, ekki síst á hálendinu eða í jaðri þess. Þá ríkir mikil óvissa um endingu og sjálfbærni jarðvarmaauðlindarinnar og heilsufarsleg áhrif jarðvarmavirkjana. Auk þessa fæst ekki séð að mikil þörf sé fyrir stóraukna raforkuframleiðslu á næstu árum. Samtökin þrettán undirstrika mikilvægi þess að iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra og Alþingi taki mið af þessum þáttum við gerð og þinglega meðferð tillögunnar.

Share on facebook
Facebook
Share on twitter
Twitter
Share on email
Email
Scroll to Top