Fyrirlestraröð Landverndar og Norræna Hússins, Frá Vitund til Verka, fer kröftuglega af stað á nýju ári með tveimur fyrirlestrum fimmtudaginn 3.janúar. Viðfangsefnin að þessu sinni verða veraldarvefurinn og félagsmiðlar. Bjarki Valtýsson, lektor við menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla flytur fyrirlestur um félagsmiðla og Guðrún Arndís Tryggvadóttir, framkvæmdastýra og Einar Bergmundur Arnbjörnsson, tæknistjóri náttúran.is, flytja saman fyrirlestur um náttúruna og upplýsingamiðlun. Fyrirlestrarnir hefjast kl 16 í Norræna Húsinu og eru allir velkomnir.
Bjarki Valtýsson er doktor í boðskipta- og menningarfræðum og lektor við menningarfræðideild Kaupmannahafnarháskóla. Í fyrirlestri sínum, Allt online? Félagsmiðlar og umhverfisvernd, mun hann greina hvers konar boðskiptamynstri samfélagsmiðlar stuðla að og hver staða einstaklinga, og stofnana og samtaka á sviði umhverfisverndar er innan þess umhverfis.
Guðrún Arndís Tryggvadóttir er myndlistamaður og upphafsmaður vefsins náttúran.is en á þeim vef er leitað nýrra leiða til að gera almenningi kleift að taka þátt í sjálfbærri þróun með neysluákvörðunum sínum og vali á lífsstíl. Vefurinn stuðlar að því að þróa tæknilegar lausnir að samskiptaveröld sem tengir á milli þátta sem annars hafa aðeins huglæga eða óbeina tengingu.
Einar Bergmundur Arnbjörnsson vann við kvikmyndagerð og síðar vefþróun og hugbúnaðarhönnun, en hann er tæknistjóri náttúran.is. Tækniþróun og hönnun smáforrita á vefinn eru meðal viðfangsefna Einars.
Í sameiginlegum fyrirlestri sínum, Náttúran á Umbrotatímum, munu þau fjalla um upplýsingamiðlun til náttúruunnenda sem vilja gera sitt til að stuðla að sjálfbæru samfélagi í sátt við náttúru og menn.