Undanfarin sumur hefur Landvernd ferðast um jarðhitasvæði, ásamt fríðu föruneyti ferðafélaga og sérfróðra leiðsögumanna. Í sumar ætla samtökin að bjóða aftur upp á ferðir í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Fyrsta ferðin verður farin um Reykjanes undir traustri leiðsögn Kristjáns Jónassonar sviðsstjóra jarðfræðideildar Náttúrufræðistofnunar.
Dagskráin hefst á því að hópurinn hittist kl. 10.00 í sal FÍ að Mörkinni 6. Áður en lagt verður af stað kynnir Kristján það svæði sem farið verður um og gerum við ráð fyrir að leggja af stað þaðan kl. 10.30 og og er áætluð heimkoma kl. 17.00.
Skráning í ferðina er hjá Ferðafélaginu í síma 568 2533.
Leiðarlýsing er sem hér segir: Ekið á Reykjanes um Hafnir. Litast um við Reykjanesvirkjun. Gengið frá bílastæði við Reykjanesvita vestur að gossprungunni frá 1226 og skoðuð ummerki eftir gosið, en gossprungan var bæði á landi og í sjó. Gengið á Valahnúk og horft yfir brimurðina og Reykjanestá. Gengið að hverasvæðinu og litið á Gunnuhver og Reykjanes-Geysi. Skoðaðar skjálftasprungur. Ekið til baka um Grindavík. Nokkur ganga en ekki erfið.
Tilgangur ferðarinnar er að fræðast um jarðfræði Reykjaness og njóta um leið útivistar í einkar sérstæðri náttúru og góðum félagsskap. Allar ferðir Landverndar eru skipulagðar með það í huga að skoða svæðin sem farið er um út frá verndargildi þeirra. Þess má geta að Kristján hafði ásamt Sigmundi Einarssyni jarðfræðingi með höndum að rannsaka verndargildi háhitasvæða í tengslum við gerð Rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða.
Hugmyndir um að stofna eldfjallagarð á Reykjanesi hafa lengi verið við lýði og má lesa sig til um það efni á vef Landverndar.
Við minnum farþega á að taka með sér nesti. Verð kr. 3000 fyrir félaga í Landvernd og/eða Ferðafélagi Íslands; kr. 3900 fyrir ferðafélaga utan félaga.
Helgina 8.-10. júlí verður farið í Kerlingarfjöll með Sigmundi Einarssyni og 12.-14. ágúst í Vonarskarð með Kristjáni Jónassyni.
Sjá nánar Ferðir á www.fi.is
Sími Landverndar er 552 5242.
Reykjanes – Reykjanestá – Gunnuhver
Tími: Sunnudagur 29.5.2011 kl. 10.00-17.00
Brottfararstaður: Mörkin 6