Gæðaár hjá Græðum Ísland/CARE-Rewilding Iceland

Endurheimt skaddaðra vistkerfa bindur jarðveg og kemur í veg fyrir að hann fjúki út á haf, landvernd.is
Græðum Ísland notar eingöngu innlendar tegundir til gróðursetningar: birki, baunagras, grávíði og melgresi. Áburði er dreift á næringarsnautt land.

Mikið og gott starf var unnið í verkefninu Græðum Ísland sumarið 2018. Rúmlega 300 sjálfboðaliðar settu niður 25.171 birkiplöntu á örfokalandi við Þjófafoss í Hekluskógum og við Sauðafell á Norður- landi. Einnig var fjórum tonnum af áburði dreift á svæðið, bæði á nýju svæðin og á landsvæði sem gróðursett var á árin 2016 og 2017. Þetta var töluverð aukning frá árinu á undan. Þessi mikla aukning er árangur af samstarfi og stuðningi margra aðila s.s. Landgræðslu ríkisins, Hekluskógaverkefninu og ekki síst stjórnarmeðlimum Landverndar.

Fræðsla um landeyðingu og landgræðslu

Samtals voru farnar 19 ferðir í Hekluskóga og að Sauðafelli á Norðurlandi. Markmið ferðanna var tvíþætt. Annars vegar að fræða sjálfboðaliða um sögu landeyðingar og landgræðslu á Íslandi og mikilvægi þess að vernda birkiskóga. Hins vegar að gróðursetja innlendar tegundir en Græðum Ísland notar eingöngu innlendar tegundir til gróðursetningar: birki, baunagras, grávíði og melgresi. Áburði er dreift á næringarsnautt land. Sjálfboðaliðarnir komu víða að, aðallega voru það ferðamannahópar og nemendahópar í námsferðum til landsins en einnig heimamenn sem fréttu af verkefninu í gegnum samfélagsmiðla.

Eingöngu innlendar tegundir notaðar til landgræðslu

Verkefnið var styrkt af sendiráði Bandaríkjanna, umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Ferðafélagi Íslands og með frjálsum framlögum frá þátttakendum. Einnig gáfu allir sjálfboðaliðarnir, Daði Lange Friðriksson og Sigríður Þorvaldsdóttir hjá Landgræðslu ríkisins fyrir norðan, Hrönn Guðmundsdóttir verkefnisstjóri Hekluskóga og Lovísa Ásbjörnsdóttir og Pétur Halldórsson, stjórnarmeðlimir Landverndar, vinnu sína í að vernda og græða upp yfir 40 hektara af gróðursnauðu landi. Verkefnisstjóri Græðum Ísland er Caitlin Wilson.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd