Gallupkönnun sýnir sterka stöðu Landverndar

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Nýleg Gallupkönnun sýnir sterka stöðu Landverndar í samfélaginu. Tæplega 43% svarenda sögðust hafa mikinn áhuga á umhverfis- og náttúruvernd og rúmlega 42% hafa nokkurn áhuga. Um 80% svarenda telja mikla þörf fyrir samtök eins og Landvernd og tæplega 74% svarenda voru mjög jákvæð (30%) eða frekar jákvæð (43,7%) gagnvart Landvernd. Hnattræn umhverfisvandamál eru ofarlega í huga Íslendinga.

Landvernd lét nýlega kanna viðhorf Íslendinga til umhverfis- og náttúruverndarsamtaka. Spurt var um áhuga á umhverfis- og náttúruvernd og hvort fólk teldi þörf á samtökum sem veita fræðslu og halda uppi umræðu um málaflokkinn. Þá var einnig spurt sérstaklega um viðhorf til Landverndar, hversu mikið fólk vissi um starfsemi samtakanna og hvort það gæti hugsað sér að vera félagi í slíkum samtökum. Að síðustu voru svarendur beðnir að nefnda hvaða umhverfismálefni þeir teldu mikilvægust.

Áhugi á umhverfismálum og þörf fyrir samtök
Tæplega 43% svarenda sögðust hafa mikinn áuga á umhverfis- og náttúruvernd og rúmlega 42% hafa nokkurn áhuga.

Um 63% svarenda telja mikla þörf fyrir samtök sem bæði eiga að veita fræðslu um náttúruvernd og umhverfismál og halda uppi umræðu um þau mála. Til viðbótar telja 11% mikla þörf á aðeins fræðslu og 6% aðeins umræðu. Um 20% telja hvorki mikla þörf á fræðslu né umræðu.

Jákvæð ímynd Landverndar
Tæplega 74% svarenda voru mjög jákvæð (30%) eða frekar jákvæð (43,7%) gagnvart Landvernd. Hinsvegar voru aðeins 4% sem sögðust þekkja mikið til starfseminnar og 36% sögðust þekkja nokkuð til. Rúmlega 28% svöruðu því til að þeir gætu hugsað sér að gerast félagar.

Hnattræn viðfangsefni mikilvægust
Fólk var beðið að nefna tvö verkefni af fimm sem talin voru upp sem mikilvægust í umhverfismálum. Flestir nefndu hnattræn vandamál (gróðurhúsaáhrif, mengun hafsins og eyðing ósonlagsins), eða um 50,8%. Uppgræðsla landsins var næst á blaði (44,1%), að draga úr mengun var númer þrjú (43,7%), þá verndun náttúru Íslands (35,8%) og fræðsla um umhverfið (21%).

Áhugi eykst með aldri og menntun
Í könnuninni kemur fram að að áhugi fólks á umhverfismálum eykst með hærri aldri og meiri menntun. Fleiri í þessum hópi telja einnig þörf fyrir samtök um náttúruvernd og umhverfismál og þessir hópar þekkja betur til starfsemi Landverndar en þeir sem eru yngri og með minni menntun.

Þá var einnig marktækur munur á kynjum að því leyti að konur telja meiri þörf fyrir svona samtök en karlar, auk þess sem þær eru jákvæðari gagnvart Landvernd en karlar.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd