Landvernd krefst þess að bæjaryfirvöld í Garðabæ stöðvi án tafar framkvæmdir á svæðinu vestan Urriðavatns þar sem þær hafa ekki tilskilin leyfi. Umtalsverðar óafturkræfar jarðvegsframkvæmdir eru hafnar undir því yfirskyni að verið sé að kanna jarðveg. Svæðið býr yfir náttúrufari sem nýtur verndar í náttúruverndarlögum. Enn hefur ekki verið úrskurðað í álitamálum sem tengjast breytingum á skipulagi svæðisins.
Garðabær hefur upplýst veitt hafi verið munnleg heimild til landeigenda til að kanna jarðveg á tilteknum reiti á svæðinu vestan Urriðavatns.
Þegar fulltrúar Landverndar kynntu sér framkvæmdir á svæðinu kom ljós að þær eiga ekkert skylt við jarðvegsrannsóknir. Um umtalsverðar framkvæmdir er að ræða þar sem fjöldi jarðýta, vélgrafa og vörubíla eru að umturna hrauni og votlendi. Um er að ræða umfangsmiklar óafturkræfar framkvæmdir á stóru svæði. Hér er um beinar jarðvegsframkvæmdir að ræða sem ekki eru heimilar nema að byggingarleyfi hafi verið gefið út að uppfylltum lagaskilyrðum. Slíkt leyfi hefur ekki verið gefið út. Því er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar.
Framkvæmdirnar fara fram á votlendi og í hrauni frá nútíma sem eru verndað skv. 37. gr. náttúruverndarlaga. Svæðið er á náttúruminjaskrá og hefur hátt náttúruverndargildi skv. þeim umsögum sem fram hafa komið frá fagaðilum. Aðalskipulagi á svæðinu var nýlega breytt úr verndarsvæði í þjónustusvæði. Stjórn Landverndar hefur kært þá ákvörðun til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Niðurstaða kærunnar liggur ekki fyrir. Það er því í hæsta máta óeðlilegt að óafturkræfar framkvæmdir skuli vera hafnar á svæðinu. Þá er nú ljóst að um ólöglega framkvæmd er að ræða sem styðjast við munnlega heimild um jarðvegsrannsóknir og því ber yfirvöldum í Garðabæ að stöðva hana.
Um forsendur kæru stjórnar Landverndar til Úrskurðarnefndar
Svæðið sem um ræðir er votlendi og hraunbrún vestan við Urriðavatn. Svæðið hefur fram til þessa notið bæjarverndar sem afnumin var með breyttu skipulagi s.l. vor. Þá ákvörðun hefur stjórn Landverndar kært til Úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
Ákvörðun stjórnar Landverndar að kæra breytingar á aðalskipulag fyrir svæðið byggir á tveimur megin forsendum:
Í fyrsta lagi telur stjórn Landverndar nauðsynlegt að leitað verði að annarri staðsetningu fyrir þjónustu- og verslunarsvæði en á hraunjaðrinum vesta Urriðavatns þar sem hann hefur mikið náttúruverndargildi. Stjórnin telur að skv. náttúruverndarlögum verði að útiloka að ekki séu til aðrir kostir fyrir þjónustu- og verslunarsvæði þannig að ekki þurfi að raska þessu verðmæta svæði. Það er ljóst að mannvirkjagerð á þessu svæði mun óhjákvæmilega valda umtalsverðum skaða á náttúruverðmætum og því nauðsynlegt að allir valkostir séu vel skoðaðir. Það hefur enn ekki verið gert með fullnægjandi hætti.
Í öðru lagi telur stjórn Landverndar að hugsanlega megi draga úr áhrifum mannvirkja og minnka athafnasvæðið með því að byggja bílastæðakjallara eða bílastæðahús. Skv. núverandi skipulagi fara um 70% af mannvirkjasvæðinu undir bílastæði. Með byggingu bílastæðahúsa og -kjallara mætti minnka neikvæð áhrif mannvirkja til muna. Þannig mætti líklega vernda meira af hraunbrúninni og votlendinu og bjarga umtalsverðum verðmætum.