
Við virtum fyrir okkur Garpsdalsfjall þar sem skammsýnir menn vilja reisa vindorkuver og breyta sveitinni í iðnaðarsvæði. Á leiðinni að Garpsdal sveimuðu ungir hafernir meðfram háreistum fjallgarðinum og svifu þöndum vængjum okkur gönguferðafólki til mikillar ánægju. Óumdeilanlegt er því að hafernir halda sig á þessu svæði og ósannindi að halda öðru fram. Ferðin var í alla staði frábær og upplýsandi með leiðsögn heimamanna.
Allt umhverfi Gilsfjarðar, Krókfjarðarness og Reykhólasveitar er ein samfelld náttúruperla við Breiðafjörðinn þar sem eyjarnar liggja eins og perlufesti á haffletinum.
Útsýni frá Króksfjarðarnesi einstaklega fallegt þar sem göngugarpar stoppuðu í handverksbúð með því skemmtilega heiti ASSA. Nafnið ASSA vitnar í einkennisfugl Vestfjarða sem lokkar til sín umtalsverðan fjölda ferðamanna sem koma gagngert til að skoða haförninn.




