Landvernd og Ferðafélag Íslands efna til gönguferðar á Hengilssvæðinu laugardaginn 29. september n.k. Farið verður í Köldulaugagil, Hagavíkurlaugar og um Stangarháls og sagt frá jarðfræði og líffræði þessara einstöku svæða. Lagt verður af stað kl. 13:00 frá Mörkinni 6 í rútu. Ferðin tekur u.þ.b. 3-4 klst og hentar öllum aldurshópum. Ferðin er hluti af fræðsluverkefni Landverndar um Sjálfbæra ferðamennsku og náttúruvernd á jarðhitasvæðum.
Skráning er á fi@fi.is og verð er krónur 3.000,- (innifalið er rúta og leiðsögn). Nánari lýsing á ferðinni er hér að neðan.
Köldulaugagil – Hagavíkurlaugar – Stangarháls
Laugardagur 29. september
Brottför: Mörkin 6 kl. 13:00
Ekið verður frá Mörkinni 6 að Nesjavöllum og gengið upp í Köldulaugagil. Svæðið þar einkennist af mikilli ummyndun og fjölda vatns- og leirhvera. Gufuvirkni er þar rík og hitar gufan upp lækinn sem rennur um gilið, en sjálfur á hann upptök sín í uppsprettum ofar í hlíðinni. Frá Köldulaugagili verður gengið yfir að Hagavíkurlaugum þar sem fallegar kolsýrulaugar eða ölkeldur einkenna landslag ásamt sígjósandi vatnshverum. Kolsýrulaugarnar hafa myndað kalkútfellingar þar sem grænir og rauðlitir þörungar mynda litadýrð í frárennslinu. Frá Hagavíkurlaugum er gengið norður Stangarháls og niður undir stöðvarhús Nesjavallavirkjunar þar sem rútan tekur farþega vestur til Reykjavíkur. Rætt verður um sérstöðu svæðisins bæði jarðfræðilega og líffræðilega.
Leiðsögumenn eru Einar Gunnlaugsson og Jón S. ólafsson. Fararstjóri er Helena óladóttir.
Ferðin tekur u.þ.b. 3-4 klst. Gangan er auðveld og hentar öllum aldurshópum.
„