Göngum saman til mikilvægra verka

Kerlingarfjöll eru einstök náttúruperla sem okkur ber að vernda, landvernd.is
Um 85% félagsmanna Landverndar segjast vera ánægð eða mjög ánægð með þær áherslur sem koma fram í starfi samtakanna um þessar mundir. Það er gott til þess að vita, ekki síst þegar stór og umdeild mál bíða okkar, t.d. virkjanahugmyndir á Reykjanesskaga og fyrirhugaðar raflínur yfir miðhálendið. Snúum nú bökum saman og vinnum íslenskri náttúru gagn.

Pistill formanns

Í fámenninu á Íslandi er mikilvægt að áhugafólk um náttúruvernd gangi ekki tvístrað til þeirra mikilvægu verka sem þarf að vinna. Á því starfsári sem nú er að ljúka hefur Landvernd lagt ríka áherslu á náið samstarf við önnur félög sem skipa íslensku náttúruverndarhreyfinguna. Þannig átti Landvernd frumkvæði að því að þrettán náttúruverndarfélög sameinuðust um umsögn um drög að tillögu að þingsályktun um verndun og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun). Maður með mikla reynslu á sviði náttúruverndar sagði að sú umsögn hefði markað mikilvæg tímamót hvað þetta varðar og að draumsýn hans um nána samstöðu og samvinnu umhverfis- og náttúruverndarsamtaka hefði ræst. Þetta samstarf hélt svo áfram nú á vordögum þegar náttúruverndarhreyfingin efndi til Náttúruverndarþings 2012 sem var afar vel sótt og skilaði sér í mikilvægum ályktunum um Rammaáætlun og fleira.

Að auki átti Landvernd samstarf við ýmis félög og samtök um ferðir, ályktanir og fundi. Má þar t.d. nefna Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Fuglavernd, Náttúruverndarsamtök Íslands, Ferðafélag Íslands, Græna netið, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Hraunavini, Jöklarannsóknafélagið, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, Félag náttúrufræðikennara, Vini Þjórsárvera, Félag umhverfisfræðinga, Eldvötn, Gaia, Framtíðarlandið og Náttúruvaktina.

Samkvæmt könnun sem stjórn Landverndar gerði meðal félagsmanna samtakanna er mikill áhugi á að auka þetta samstarf enn frekar, en níu af hverjum tíu segjast því fylgjandi. Landvernd mun því áfram hvetja til þess að íslensk náttúruverndarfélög starfi saman sem ein hreyfing.

Í sömu könnun voru félagsmenn spurðir um skoðun þeirra á sameiginlegri umsögn náttúruverndarhreyfingarinnar um tillögu að þingsályktun um verndun og orkunýtingu landsvæða (Rammaáætlun). Helmingur hafði kynnt sér efni umsagnarinnar og af þeim reyndust 78% sammála eða mjög sammála þeim áherslum sem þar komu fram. Það er mikið fagnaðarefni í ljósi þess að í umsögninni tók náttúruverndarhreyfingin mjög ein- dregna afstöðu gegn frekari uppbyggingu virkjana fyrir stóriðju. Sú afstaða var rökstudd með veigamiklum rökum, t.d. upplýsingum um ósjálfbæra nýtingu jarðvarma, neikvæð áhrif á ferðaþjónustu og óeðlilega hátt hlutfall álvera á raforkumarkaði. Þau þrettán félög sem sameinuðust um umsögnina ákváðu strax í upphafi þeirrar vinnu að umsögnin ætti að vera málsvörn íslenskrar náttúru, en ekki samningstilboð til orkufyrirtækja um skiptingu landsvæða. Sú afstaða hefur átt stóran þátt í því að nokkur fjöldi svæða hefur verið færður úr virkjanaflokki í biðflokk samkvæmt þeim tillögum sem nú liggja fyrir Alþingi. Sannaðist þar að í góðum málstað eru falin mikil völd.

Um 85% félagsmanna Landverndar segjast vera ánægð eða mjög ánægð með þær áherslur sem koma fram í starfi samtakanna um þessar mundir. Það er gott til þess að vita, ekki síst þegar stór og umdeild mál bíða okkar, t.d. virkjanahugmyndir á Reykjanesskaga og fyrirhugaðar raflínur yfir miðhálendið. Snúum nú bökum saman og vinnum íslenskri náttúru gagn.

Guðmundur Hörður Guðmundsson,

formaður Landverndar

 

Lesa ársskýrslu Landverndar 2011-2012

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd