Græn skref og grænfáninn

Græn skref og grænfáninn. landvernd.is
Hvernig vinna græn skref í ríkisrekstri og grænfáninn saman? Kynntu þér málið.

Skólar á grænni grein eru góður grunnur fyrir skóla sem vinna að Grænum skrefum í ríkisrekstri.

Stefnt er á að ríkisstofnanir ljúki skrefunum fimm fyrir lok ársins 2021.

Græn skref varða rekstur

Verkefnin tvö vinna afar vel saman og taka á ólíkum þáttum umhverfismála og sjálfbærni. Í Grænu skrefunum er lögð áhersla á grænt bókhald og grænan rekstur stofnanna og að öll innkaup og neysla séu sem umhverfisvænust. Þó þetta sé einnig mikilvægt hjá Skólum á grænni grein er megináherslan þar á þátt nemenda í allri vinnu í átt að aukinni sjálfbærni.

Grænfáninn snýst um menntun og að virkja nemendur í ákvarðanatöku

Mikilvægt er að nemendur myndi umhverfisnefnd, meti stöðu umhverfismála innan skólans, setji skólanum markmið og fylgi þeim eftir. Einnig er mikilvægt að allir nemendur vinni verkefni sem tengjast áherslum í umhverfismálum, að áhrifin nái út fyrir veggi skólans og að nemendur setji sér umhverfissáttmála eða umhverfisstefnu.


Græn skref í ríkisrekstri. landvernd.is
Smelltu á myndina og kynntu þér græn skref í ríkisrekstri.

Tilvalið er að flétta þessi verkefni saman og virkja nemendur í grænu skrefunum

Þegar skólar vinna að Grænum skrefum í ríkisrekstri er tilvalið að flétta þessi tvö vekrefni saman þannig að nemendur nýti gögn og áherslur grænna skrefa í vinnu við verkefnið Skólar á grænni grein. Þannig geta nemendur metið stöðu umhverfismála með gátlistum frá grænum skrefum og sett sér markmið um að ná þeim atriðum sem uppá vantar. Í grænum skrefum er lögð áhersla á upplýsingagjöf til allra starfsmanna stofnanna. Nemendur í umhverfisnefnd geta fundið bestu leiðina til að ná til annarra nemenda og uppfylla þannig kröfur beggja verkefna. Í báðum verkefnum er einnig gerð krafa um að gerð sé umhverfisstefna. Verkefnin vega þannig hvort annað upp þar sem þau taka á ólíkum þáttum í tengslum við umhverfismál og sjálfbærni.

Hér segja Þorbjörg Sandra Bakke, sérfræðingur við Græn skref í ríkisrekstri hjá Umhverfisstofnun og Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein frá því hvernig vinna má að þessum tveimur verkefnum saman. Unnur Hafstað, kennari við Menntaskólann við Tröllaskaga deildi jafnframt reynslu skólans en hann hefur nú þegar lokið fimmta skrefinu í Grænu skrefunum og er auk þess þátttakandi í Skólum á grænni grein.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd