Laugardaginn 12. maí sl. fékk leikskólinn Heklukot á Hellu Grænfánan afhentan í fyrsta sinn við hátíðlega athöfn. Vorið 2011 sótti leikskólinn um að verða skóli á „grænni grein„ sem er verefni á vegum Landverndar. Þá er tekin meðvituð ákvörðun um að auka umhverfismennt og sjálfbærni í námi og starfi leikskólans. Stofnuð voru umhverfisráð kennara og barna, og er Sigdís Oddsdóttir verkefnastjóri verkefnisins. Hafa þau öll unnið mjög gott starf þar sem átthagarnir eru aðal þema verkefnisins. Fellur það vel að þróunarverkefni sem leikskólinn vinnur að í samstarfi við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Lund. Þangað hafa börnin farið einu sinni í viku í litlum hópum, borðað hádegismat, kynnst heimilisfólki og starfsfólki. Þar hafa þau tekið þátt í umræðum, söng, handavinnu, leikfimi og notið þess sem þar er. Gönguferðirnar að Lundi hafa verið nýttar til að upplifa átthagana og læra um umhverfi, menningu og samfélag hér á Hellu. Samfélagið hefur stutt vel við verkefnið og hafa allir tekið vel á móti okkur þegar við heimsækjum stofnanir og einstaklinga. Við afhendingu Grænfánans afhenti Foreldrafélag leikskólans peningagjöf fyrir útileiktækjum en foreldrafélagið hefur staðið fyrir söfnun og gengið mjög vel. Það er dýrmætt að hafa góðan stuðning og skilning á því námi og starfi sem fram fer í leikskólanum fyrir það erum við þakklát.
Þegar fulltrúar frá Landvernd gerðu úttekt á leikskólanum vegna Grænfánans var leitað til barnanna eftir upplýsingum, viðhorfi og þekkingu um verkefnið. Þar sáu þau börn sem bjuggu yfir sjálfstrausti, þekkingu, gleði og umhyggju. Þetta er upplifun sem veitti sanna starfsánægju meðal kennara og mun lifa með okkur og hvetja til dáða.
Fyrir hönd leikskólans þakka ég öllum s.s. foreldrafélagi leikskólans, Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi sem og öllum öðrum fyrir góðan stuðning við skólastarfið.
“