Grænfáninn í Fálkaborg

Fálkaborg var fyrsti skólinn á þessu ári til að fá Grænfánann.

Grænfáni í Fálkaborg
Nokkrir skólar hafa sótt um að fá Grænfána í vor og stýrihópur verkefnisins er í óða önn að heimsækja skóla, tala við fólk og meta starf skólanna. Fyrsti fáni vorsins var dreginn að húni við mikinn fögnuð viðstaddra í Fálkaborg í Breiðholti föstudaginn 7. apríl.

Í tilefni fánaafhendingar skrifaði Jónína Lárusdóttir skólastjóri Fálkaborgar grein sem hún sendi fjölmiðlum. Greinin fer hér á eftir:

Leikskólinn Fálkaborg fær Grænfánann
Leikskólinn Fálkaborg er um þessar mundir að ljúka merkum áfanga í alþjóðlegu umhverfisverkefni „Skóli á grænni grein.“ Verkefninu er stýrt hér á landi af Landvernd og er ætlað að auka umhverfismennt og styrkja skólana við mótun umhverfisstefnu.
Leikskólinn fær af þessu tilefni umhverfismerki, Grænfánann, sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Verkefninu er ætlað að efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál, auka þekkingu þeirra og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla.
Leikskólinn fær Grænfánann til tveggja ára í senn. Til að halda Grænfánanum þarf áfram að vinna markvisst að umhverfismálum í leikskólanum og fá staðfestingu Landverndar á að það starf fullnægi kröfum sem gerðar eru til handhafa Grænfánans. Áþreifanlegasti þáttur verkefnisins í Fálkaborg er flokkun á rusli og jarðgerð á lífrænum úrgangi sem fellur til á leikskólanum. Auk bættrar umhverfisverndar sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri

Lýðræði
Mikilvægur þáttur í verkefninu „Skóli á grænni grein“ snýr að þátttöku nemenda í að móta umhverfi sitt. Börn á leikskólaaldri hafa getu og vilja til að hafa áhrif, þau koma oft með lausnir sem fullorðnum hefur ekki hugkvæmst. Til að virkja börn og starfsmenn sem mest eru starfræktar 2 umhverfisnefndir í leikskólanum. Umhverfisnefnd barna hefur tekist á við verkefni eins og að ákveða hvernig og hvað er flokkað. Börnin hafa fundið leiðir til að endurnýta hluti betur í leikskólanum og þau hafa verið drifkraftur verkefnisins. Þeim finnst skemmtilegt að flokka og búa til moltu. Umhverfisnefnd fullorðinna tekur ákvarðanir um hvernig virkja á alla starfsmenn, heldur utan um kostnað við verkefnið og skipuleggur næstu skref varðandi stefnumótun.

Jákvæð sýn á umhverfismál
Fálkaborg er fjórði leikskólinn í Reykjavík sem fær leyfi til að flagga Grænfánanum. Árangur af þátttöku í verkefninu er umtalsverður. Verkefnið hefur aukið vitund barna og fullorðinna á umhverfismálum og hefur einnig bætt daglegan rekstur leikskólans. Börnunum finnst gaman að ræða umhverfismál og þau hafa fengið jákvæða sýn á umhverfisvernd. Börnunum er ljóst að það skiptir máli hvernig við göngum um landið okkar og náttúruna og þeim verður ljóst að þeirra framlag skiptir máli við að bæta umhverfið. Umhverfismennt er sérstaklega vænleg leið til þess að efla samstarf og samvinnu barna og kenna þeim að kljást við raunveruleg langtímaverkefni sem skipta máli. Börn sem eru þátttakendur í þessu verkefni vita að þau geta haft áhrif. Það eitt og sér hefur ómetanlegt uppeldislegt gildi.

Jónína Lárusdóttir, skólastjóri í Fálkaborg

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top