Nægjusamur nóvember
Til að stuðla að sjálfbærri þróun og minnka losun gróðurhúsalofttegunda er nægjusemi eitt það öflugasta sem einstaklingar geta gert.

Í nóvember ætlum við að tileinka okkur nægjusemi og hvetjum sem flest að vera með
Nægjusemi
Á árum áður var nægjusemi oft talin til dyggða, nægjusemi er í dag hins vegar oft misskilin sem níska. Níska táknar m.a. eigingirni, að gefa ekki af sér, að deila ekki, skipta ekki með sér. Nægjusemi er af allt öðrum toga og táknar að vera ánægður með það sem maður hefur og þurfa ekki sífellt meira. Með nægjusemi göngum við minna á náttúruna og á rétt núverandi og komandi kynslóða á góðu lifi. Líf okkar í dag sem einkennist af ofneyslu og sóun er í raun níska, því við tökum frá fátækara fólki til að auka á eigin lúxus auk þess sem við minnkum lífsgæði komandi kynslóða.
Við lifum langt umfram þolmörk náttúrunnar og köllum þannig yfir okkur loftslagshamfarir og hrun vistkerfa sem eru lífsgrundvöllur mannsins. Við getum ekki leyft okkur að lifa á kostnað náttúrunnar, komandi kynslóða og annarra landa, þeirra náttúru og íbúum, eins og hinn vestræni heimur gerir í dag og hefur lengi gert.
Nægjusemi er því siðferðisleg skylda okkar og forsenda fyrir sjálfbærri þróun og árangri í loftslagsmálum. Án nægjusemi getum við ekki minnkað vist- og kolefnissporið okkar nægilega mikið og varanlega.
Að temja sér nægjusemi ætti að vera sjálfsagt mál fyrir okkur sem tilheyrum forréttindahópi sem fær nóg að borða, föt, húsaskjól og búum við heilbrigðisþjónustu og menntunarmöguleika.
Þau sem lifa nægjusömu lífi fá sjaldan þá tilfinningu að þau skorti eitthvað. Þau hafa þannig hugarfar að vilja ekki eiga meira, hafa einfaldlega ekki þannig þarfir. Nægjusemi er því hugsunarháttur allsnægta öfugt við neysluhyggjuna sem er hugsunarháttur skorts: nýir möguleikar til neyslu eru handan við hornið og því skortir eitthvað núna sem væntanleg neysla getur bætt úr tímabundið.
Nægjusemi frelsar okkur frá óþarfa byrði og álagi. Minni tími og peningar fara í lífsgæðakapphlaupið, þ.e. í eigur, auð og álit annarra. Þannig er hægt að öðlast ýmislegt dýrmætt eins og frelsi, frítíma og orku til að verja í það sem er mikilvægt og veitir hamingju t.d. að eyða tíma með fjölskyldu og vinum, hreyfa sig, vera úti í náttúrunni, upplifa, gefa af sér, vera skapandi og framkvæma jafnvel eitthvað sem stuðlar að velferð mannkyns og Jarðarinnar. Nægjusamur einstaklingur finnur að styrkur og hamingja kemur innan frá en ekki frá hlutum eða eignarhaldi. Nægjusemi getur hjálpað til við að verða ríkur í sál og hjarta. Minna er oft meira. Nægjusemi er ákveðið form af virðingu og af núvitund.
Nægjusemi vinnur á móti óánægju. Án nægjusemi erum við eirðarlaus, aldrei sátt við það sem við höfum áorkað, við viljum sífellt meira, komumst aldrei á leiðarenda og áttum okkur ekki á raunverulegum auði okkar. Án nægjusemi verðum við fangar ytri viðmiða og þörfnumst stöðugt einhvers sem við vitum samt ekki alveg hvað er. Jafnvel þótt við náum ákveðnu markmiði, þá fáum við aldrei nóg og erum föst í lífsgæðakapphlaupinu.
Látum ekki öfluga markaðssetningu segja okkur um hvað við þurfum. Með nægjusemi getum við verið meira við sjálf og fylgt eigin draumum og væntingum. Lífshamingjan byggir m.a. á hugarfari okkar sem verður ekki keypt.
Nægjusemi er eftirsóknarverð og stuðlar að frelsi, ánægju, þakklæti, hamingju og tilfinningu um að eiga og vera nóg.
Það er einfalt að tileinka sér nægjusemi og hér eru nokkur ráð:
- Leggjum áherslu á það sem við höfum en ekki á það sem vantar eða því sem okkur er talið trú um að okkur vanti. Forðumst auglýsingar sem vekja oft hjá manni nýjar þarfir.
- Temjum okkur þakklæti og virðingu fyrir því sem við höfum.
- Hættum að bera okkur saman við aðra, einbeitum okkur að því lífi sem við viljum lifa og sækjumst eftir.
- Njótum lífsins núna og eyðum ekki orku í að hugsa um að allt verði betra þegar við náum að eignast ákveðna hluti í framtíðinni. Með nægjusemi setur maður sér markmið sem tengjast framförum á andlegum sviðum en ekki efnislegum.
Skilgreining á nægjusemi getur verið misjöfn t.d. út frá efnahag, búsetu, lífsstíl og fleira. Það sem sumum finnst vera nægjusemi getur verið lúxus hjá öðrum. Mikilvægt er að hver og einn finni sinn takt og áherslur, með það að markmiði að draga úr neyslu sinni og þannig stórminnka álag á náttúruna og annað fólk.
Til að stuðla að sjálfbærri þróun og minnka losun gróðurhúsalofttegunda, er nægjusemi eitt af því öflugasta sem við sem einstaklingar getum gert. Einstaklingsaðgerðir verða samt aldrei nægilegar einar og sér til að afstýra verstu sviðsmyndum loftslagshamfara. Stjórnvöld verða að breyta hagkerfinu, framleiðslu- og viðskiptaháttum og setja ýmis lög og reglur.
Okkar vestræna samfélag og hagkerfi byggist að hluta til á þeirri hugmynd að velferð og hamingja komi með auknum kaupmætti og aukinni neyslu. Slíkt eykur eftirspurn sem aftur eykur framboð og svo framvegis. Þetta ferli virðist viðhalda sjálfu sér. Framboð er réttlætt vegna eftirspurnar sem myndast einmitt vegna aukins framboðs. Er ekki kominn tími til að við grípum í taumana á þessari sjálfsstýringu á þessari manngerðu vítisvél endalauss hagvaxtar? Leiðir almennings til þess að brjóta upp þessa sístækkandi tímasprengju um framboð og eftirspurn er m.a. að stórminnka eftirspurnina og ýta á stjórnvöld að setja lög og reglur um framleiðslu- og viðskiptahætti og breytingum á hagkerfinu. Nægjusemi er hér mikilvægt vopn okkar.
Látum utanaðkomandi öfl ekki hafa áhrif á þarfir okkar og óskir. Við viljum nægjusamt líf, en ekki vera strengjabrúður núverandi hagkerfis. Byrjum strax núna í nóvember og höldum ótrauð áfram á þeirri braut.
„Hamingjan snýst ekki um það að fá allt sem þú vilt heldur snýst það um að njóta þess sem þú hefur.“ (höfundur ókunnur)
„Sönn hamingja felst í nægjusemi.“ (Johann Wolfgang von Goethe)
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd.
Verkefni - nægjusamur nóvember
Vikulega í nóvember munu hér birtast verkefni sem við hvetjum alla til þess að prófa, vinnustaðir, nemendahópar, einstaklingar.
Öðruvísi jólaóskir
Í þessu verkefni hugleiða þátttakendur hvað væru stærstu óskir þeirra fyrir Jörðina, lífríkið og mannkynið og skoða hvað þyrfti að gera til þess að þessir óskir gætu orðið að veruleika. Verkefni fyrir 8-100 ára
Áhrif markaðssetningar
Þetta verkefni opnar augu þátttakenda fyrir þeim áhrifum sem þeir verða fyrir dags daglega frá markaðssetningu og auglýsingum. Verkefni fyrir 14-100 ára
Nægjusamur nóvember – dagatal
Nægjusemi frelsar okkur frá óþarfa byrði og álagi. Minni tími og peningar fara í lífsgæðakapphlaupið, þ.e. í eigur, auð og álit annarra. Þannig er hægt að öðlast ýmislegt dýrmætt eins og frelsi, frítíma og orku til að verja í það sem er mikilvægt og veitir hamingju.
Lífsgildin okkar
Þetta er stutt verkefni sem vekur okkur til umhugsunar og hvetur til umræðna um þau lífsgildi sem hver og einn vill að standa fyrir og rækta. Verkefnið fyrir 12-100 ára
Hamingja og neysla
Léttur leikur til að kveikja til umhugsunar og umræðna um tengsl milli neyslu og hamingju. Markmiðið er að þátttakendur velti fyrir sér að hvaða leyt hamingja þeirra tengist neysluvörum. Verkefni fyrir 8-100 ára
eldri verkefni tengd nægjusemi
Hlutverkaleikur um víðtæk áhrif hnattvæðingar
Hlutverkaleikur sem opnar augu nemenda á þeim áhrifum sem aukin hnattvæðing kann að hafa á matvælaframleiðslu. Nemendur eiga að átta sig á mismunandi hagsmunum og ígrunda hvernig núverandi hagkerfi ýtir undir núverandi framleiðsluhætti. Nemendur ræða síðan hvaða lög og reglur þurfi til þess að breyta slíkum framleiðsluháttum með umhverfið, dýravelferð og hnattrænt réttlæti í huga. Verkefni fyrir 16 – 100 ára.
Hröð og hæg tíska
Tíska er okkur afar hugleikinn, tísku er gjarnan skipt upp í tvo flokka hröð tíska e. fast fashion og hæg tíska e. slow fashion. En hvað þýðir þetta? Nemendur kynna sér málið og fræða aðra. Verkefnið hentar 14-20 ára
Hvernig eru græn jól?
Nemendur velta því fyrir sér hvernig við getum unnið með neysluþríhyrninginn í tengslum við jólahátíðina og stuðlað að grænum umhverfisvænum jólum. Verkefnið hentar nemendum á öllum aldri.
Hugleiðingar um hluti
Í þessu verkefni skoða nemendur hluti með kennara og velta fyrir sér hvaðan þeir koma, úr hverju þeir eru og ræða uppruna þeirra. Jörðin veitir okkur allt sem við þurfum. Verkefni fyrir 3-10 ára.
Hvað þyrftum við margar jarðir ef allir væru eins og þú? Reiknaðu þitt vistspor?
Hversu margar jarðir kallar lífsstíll þinn á? Hve margar jarðir þyrftum við ef allir væru eins og þú? Kynntu þér málið og reiknaðu út þitt vistspor.
Tískusóun bitnar á fólki og umhverfi
Hvað er eiginlega tískusóun? Jú það er einmitt þetta, að kaupa trekk í trekk föt og aðrar tískuvörur sem maður notar sjaldan eða aldrei. Fötin eru orðin einnota, alveg eins og einnota pappadiskar og plasthnífapör.
Menntaverkefni Landverndar

GRÆNFÁNINN
Nemendur og starfsfólk í grænfánaskólum nota skrefin sjö til að breyta skólastarfinu í átt að sjálfbærni. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning sem veitt er skólum sem innleiða menntun til sjálfbærni á þennan hátt.