Íslensk vatnsorka ehf. sækist eftir því að reisa 20 MW virkjun við Hagavatn í jaðri suðurhluta Langjökuls.
Hagavatnsvirkjun myndi valda því að hinn tilkomumikli Nýifoss í Farinu sem rennur úr vatninu myndi hverfa.
Með virkjun yrði gripið inn í stórbrotið landmótunarferli við Langjökul sem kennt getur okkur margt um slík ferli á tímum örra loftslagsbreytinga. Gert er ráð fyrir 5 m vatnsborðssveiflum, sem er mjög mikið á hinu marflata landi, þar sem sandflæmi yrðu ýmist á þurru eða undir vatni. Uppfok getur verið afar mikið við slíkar aðstæður og jafnvel mun meira en nú er til staðar á svæðinu. Víðernisásýnd svæðisins eykur gildi þess fyrir ferðamennsku en svæðið er vinsælt útivistarsvæði.
Ferðafélag Íslands rekur fjallaskála við Jarlhettur, einstaka móbergshryggi, á fyrirhuguðu áhrifasvæði virkjunarinnar. Svæðið laðar til sín göngufólk sem vill njóta stórbrotinnar náttúru, jarðsögu, útiveru og ævintýra í lítt snortinni náttúru. Efnahagslegt gildi svæðisins án virkjunar er því mikið. Hagavatnsvirkjun er í kostnaðarflokki 4 af 5 sem þýðir að ekki er sérlega hagkvæmt að ráðast í virkjunina miðað við aðrar virkjanir.