„Maðurinn lifir af náttúrunni. Einmitt þess vegna þarf hann að virða náttúruna og gæta þess að ganga ekki á verðmætar auðlindir hennar svo af hljótist skaði, hvorki fyrir okkur sem nú lifum eða fyrir komandi kynslóðir,“ segir Þorgerður María Þorbjarnardóttir sem á dögunum var kjörin nýr formaður Landverndar.
„Að verðmæta- og atvinnusköpun sé byggð á sérstöðu fólksins sjálfs og svæðanna hefur verið áherslumál Landverndar. Það er mjög kunnulegt stef í íslensku atvinnulífi að stór utanaðkomandi aðili komi inn á svæði sem eru rík af náttúrulegum verðmætum og nýti þau, en skili litlu öðru en að skapa atvinnu á svæðinu. Arðurinn fyrir þau náttúrulegu verðmæti sem við gefum eftir er þá fluttur úr landi og skilar sér seint til almennings.“
Ástríða fyrir náttúruvernd
Landvernd lætur til sín taka í mörgum verkefnum á sviði umhverfis- og náttúruverndar. Þorgerður María var til skamms tíma í forystu samtakanna Ungir umhverfissinnar en ákvað síðan að taka næsta skref og var kjörin formaður Landverndar.
„Ég fann að hjarta mitt er algjörlega í málaflokki náttúruverndar og ég vil leggja mig alla fram á þeim vettvangi. Þá ákvað ég að bjóða mig fram til formanns hjá Landvernd og ég sé ekki eftir því. Hvað varð kveikjan að ástríðu minni fyrir náttúrunni og náttúruvernd er flókin spurning. Og þó. Ég ferðaðist mikið um landið sem barn og ólst upp í miklum tengslum við náttúruna. Ég held að Kárahnjúkavirkjun hafi þarna leikið stórt hlutverk en málið klauf samfélagið algjörlega í tvennt. Umræðan var þannig að annaðhvort værir þú fylgjandi byggð á Austurlandi og þá með virkjun eða með náttúrunni í liði og þá á móti byggð í leiðinni,” segir Þorgerður.
„Það svíður rosalega þegar flókin nálefni eru máluð upp svört og hvít svo fólk sitt á hvorum pólnum talar jafnvel ekki saman. Ég var á þeim aldri að þetta voru mikil mótunarár fyrir mig og ég finn það hjá mér og öðrum að þetta mál er engan veginn uppgert. Ef eitthvað er, þá er sagan að endurtaka sig.”
Samfélagið sýni hugrekki
Á heimasíðu Landverndar eru birtar ýmsar ályktanir og umsagnir samtakanna um auðlindanýtingu og framkvæmdir. Þar má nefna andstöðu við fiskeldi í sjókvíum, vegagerð á hálendinu og efnistka á hafsborni við Landeyjahöfn er sögð óraunhæf. Landvernd hefur líka sínar efasemdir um vindorkuver. Fleira mætti nefna. Allt er þetta rökstutt en í því ljósi vakna spurningar um hvort ekki þurfi að fórna einhverju í umhverfinu til að skapa atvinnu og verðmæti.
„Landvernd hefur bent á að gríðarlegur vöxtur sem hefur verið í fyrirrúmi í okkar hagkerfi gerir ekki ráð fyrir því að náttúruleg verðmæti séu takmörkuð. Slíkt er stór galli. Við þurfum að gera náttúrulegum verðmætum og mannlegum verðmætum svo sem menntun heilsu og vellíðan jafn hátt eða jafnvel hærra undir höfði heldur en hagvextinum einum og sér. Nýfrjálshyggjan er ekki nema um 70-80 ára. Að mínu mati verðum við sem samfélag að sýna hugrekki, ráðast á annmarka þessarar frjálshyggju og halda áfram inn í hagkerfi sem haldið sé í jafnvægi við náttúruna.”
Í nafni náttúrunnar
Nú eru umhverfismál áberandi í stefnu margra fyrirtækja, félagasamtaka, stjórnmálahreyfinga og fleiri slíkra. Þorgerður María segist viss um að flestir á þessu sviði séu efalaust að gera sitt besta. Í sínum huga hafi hugtök á borð við „sjálfbærni” og „grænt” misst merkingu.
„Ég hef heyrt þessi hugtök toguð og teygð eftir hentisemi þeirra sem nota þau. Allir eru orðnir umhverfissinnar en hvert og eitt farið að skilgreina hvað það merkir. Í mínum huga er þetta mjög skýrt; við erum að ganga mjög hratt á náttúruleg verðmæti heimsins. Allar lausnir sem ganga út á það að ganga frekar á náttúruleg verðmæti, jafnvel þótt það sé gert í nafni náttúrunnar sjálfrar og loftslags, eru ekki sjálfbærar eða grænar í mínum huga. Íslensk stjórnvöld verða líka að setja sér markmið um fjölda ferðamanna sem landið getur tekið við og gæta þess að innviðir séu til staðar til þess að viðkvæm svæði verði ekki undir í troðningi. Til þess eru margar leiðir sem viðhafðar eru í öðrum löndum. Aðgangsstýring og komugjöld og annað, svo fátt eitt sé nefnt.”
Með margar hugmyndir
Náttúran er ekki vél eða tæki sem við getum reiknað og skilið til fullnustu. Verðmæti hennar er ómetanlegt en allt líf byggist á því að til staðar sé heilnæmt umhverfi og heilbrigð vistkerfi. Allt í lífi okkar og samfélagi skal miða að því að ná samræmi við náttúruna en ekki ganga sífellt á hana, segir í ályktunum Náttúruverndarþings sem haldið var á dögunum. Um þetta segir Þorgerður Magía að ljóst sé í skýrslum alþjóðlegra stofnana um loftslagsmál, vistkerfin og umhverfið að gengið sé hratt á höfuðstól náttúrunnar og að framtíðarmyndin sé í raun mjög svört.
„Hlutverk náttúruverndarsamtaka er að halda okkur sem samfélagi á jörðinni og veita stjórnvöldum aðhald. Fræðsluhluterkið er þar mikilvægt og ég hlakka til að starfa með samtökunum, þó að ég fái bara að framkvæma brot af þeim hugmyndum sem ég hef í kollinum, en þær eru ansi margar.”
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2023.
———–
Þorgerður María Þorbjarnardóttir er frá Egilsstöðum, fædd árið 1995. Hún lærði jarðfræði í sínu grunnnámi og lauk meistaranámi í leiðtogafræðum tengdum náttúruvernd í Bretlandi haustið 2022. Þorgerður var formaður Ungra umhverfissinna 2020-2021 og hefur nýverið tekið við sem formaður Landverndar.
Þorgerður hefur verið landvörður hjá Vatnajökulsþjóðgarði.