Landsvirkjun hefur uppi áform um að virkja jarðvarma við Hágöngur suðvestan við Vonarskarð í Vatnajökulsþjóðgarði, í hjarta hálendisins. Stíflumannvirki voru byggð á Hágöngusvæðinu árið 1998 til að mynda miðlunarlón fyrir virkjanir á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu. Við það fór víðáttumikið og lítt snortið land undir vatn, þar á meðal háhitasvæði. Áframhaldandi uppbygging mannvirkja á svæðinu með tilheyrandi virkjanabyggingum, uppbyggðum heilsársvegum og línulögnum myndi stórauka rask á svæðinu og brjóta enn frekar upp landslagsheildir á víðernum vestan Vatnajökuls, í jaðri Vatnajökulsþjóðgarðs og Vonarskarðs. Gildi þjóðgarðsins myndi rýrna við þetta.
Áætlað er að byggja Hágönguvirkjun í þremur 50 MW áföngum, alls 150 MW. Hágönguvirkjun myndi hafa í för með sér óafturkræf umhverfisáhrif á svæðinu og eyðileggja það um ókomna tíð. Hágöngusvæðið er á einu virkasta eldsumbrotabelti Jarðar í nánasta umhverfi heita reitsins undir Íslandi. Verndargildi þess er því mikið. Hágönguvirkjun er í kostnaðarflokki 4 af 5 og því ekki sérlega hagkvæm í samburði við aðrar virkjanahugmyndir.
Landsvirkjun hyggst reisa nýja 45 MW virkjun við Skrokköldu á Sprengisandi og nýta þannig fallhæð milli Hágöngulóns og Kvíslaveitu austan Þjórsárvera. Stærsti hluti mannvirkja verður neðanjarðar, en þó verða einhver ofanjarðar, m.a. frárennslisskurður. Leggja þarf háspennulínu um 60 km leið, en gert er ráð fyrir að það verði jarðstrengur. Áhrif Skrokkölduvirkjunar eru fyrst og fremst sem mannvirki í hjarta hálendisins þar sem helsta ferðaleið fólks um hálendið liggur. Áhrifin eru því neikvæð á hálendið sem heild og ímynd þess fyrir ferðaþjónustu og útivist í landinu. Skrokkölduvirkjun er í kostnaðarflokki 3 af 5.