Háskóli Íslands fékk sinn fyrsta grænfána afhentan við hátíðlega athöfn þann 4. mars 2020.
Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning til skóla á grænni grein sem sinna umhverfismennt og innleiða menntun til sjálfbærni í skólastarfið.
Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education. Landvernd hefur umsjón með verkefninu á Íslandi.
Skólinn skráði sig til leiks í verkefnið á vordögum 2019 og hefur Umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands, í samvinnu við aðila innan og utan skólans, unnið hörðum höndum að því að uppfylla kröfur verkefnisins. Skólinn er þar með kominn í hóp 125 háskóla um allan heim sem eru með í verkefninu og meðal 44 háskóla sem hafa fengið grænfánaviðurkenninguna afhenta á heimsvísu.
Nefndin setti sér metnaðarfulla aðgerðaráætlun. Markmiðin voru meðal annars að;
- auka fræðslu innan skólans um umhverfismál,
- gera mötuneyti Háskólans loftslagsvænni með auknu framboði á grænkerafæði og minni matarsóun ,
- minnka umhverfisáhrif samgangna nemenda og starfsmanna.
Umhverfismálin fengu einnig aukið vægi á net- og samfélagsmiðlum Háskólans og viðburðir sem tengjast málefninu voru haldnir. Hér má lesa nánar má lesa um markmið og aðgerðir Háskóla Íslands í verkefninu.
Á meðfylgjandi myndum veitir Aðalbjörg Egilsdóttir, forseti umhverfis- og samgöngunefndar fánanum viðtöku ásamt fleiri fulltrúum nefndarinnar auk Þorbjörgu Söndru Bakke, verkefnisstjóra sjálfbærni- og umhverfismála og Guðbjörgu Lindu Rafnsdóttur, aðstoðarrektor.