Hellisheiðarvirkjun ásættanlegur kostur

Stöndum vörð um náttúru Íslands Landvernd eru frjáls félagasamtök sem starfa að umhverfismálum til að vernda og bæta lífsgæðin í landinu. Landvernd virðir íslenska náttúru og styður sjálfbæra nýtingu hennar. Taktu afstöðu og vertu með! landvernd.is
Stjórn Landverndar hefur kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar. Það er mat stjórnar að það sé mögulegt að afla orku með Hellisheiðarvirkjun án þess að valda umtalsverðum áhrifum á umhverfið. Framlögð skýrsla um mat á umhverfisáhrifum veitir þó ekki nægjanlega skýr svör við nokkrum mikilvægum spurningum.

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Hellisheiðarvirkjunar. Það er mat stjórnar að það sé mögulegt að afla orku með Hellisheiðarvirkjun án þess að valda umtalsverðum áhrifum á umhverfið. Framlögð skýrsla um mat á umhverfisáhrifum veitir þó ekki nægjanlega skýr svör við nokkrum mikilvægum spurningum. Það gæti því verið ástæða til að skoða betur nokkra þætti framkvæmdarinnar í þeim tilgangi að vega og meta valkosti og finna leiðir sem draga sem allra mest úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum. M.a. telur stjórnin að skoða þurfi betur niðurdælingu á menguðu skiljuvatni og meta og bera saman valkosti við hönnun safnæða og mannvirkja við borholur austan Hellisskarðs. Að mati stjórnar verður að seta skýrar reglur, merkja vegi og bílastæði og set upp leiðbeiningar til að komið í veg fyrir frekari óþarfa eyðileggingu á gróðri og jarðvegi í aðliggjandi dölum sem búa yfir mikill náttúrufegurð og eru vinsæl útvistarsvæði.

Athugasemdir og ábendingar stjórnar Landverndar eru eftirfarandi:

1. Við matið er haft í huga að svæðið er mikið raskað vegna línulagna, vegagerðar og efnistök. Einnig er litið til niðurstöðu rammaáætlunar. Niðurstöður faghóps I benda ekki til þess að mikil verðmæti séu í húfi á svæðinu, að undanskildum menningarminjum. Áhrif eru einnig lítil fyrir öll viðmið að undanskildum menningarminjum. Niðurstöður mats faghóps II gefi ekki heldur ástæðu til að ætla að mikil útvistar-, veiða- eða hlunninda- hagsmunir séu í húfi við þessa tilteknu framkvæmd.

2. Myndræn framsetning í skýrslunni þar sem landsvæði eru borin saman fyrir og eftir að mannvirki hafa verið reist, er óskýr (sjá m.a. bls. 90-93). Því er erfitt að átta sig á sjónrænum áhrifum framkvæmda. Þetta á t.d. við þar sem safnæðar koma niður Hellisskarð. Það má reikna með að safnæðarnar geti orðið mjög áberandi á þessum stað og því mikilvægt að sjá útfærsluna með myndrænum hætti, m.a. til að leggja mat á litval á leiðslunum.

3. Í kosti II er gert ráð fyrir tveimur stöðvarhúsum, við Kolviðarhól og í jaðrinum á óröskuðu hrauni á Hellisheiði. Í kosti I er aðeins eitt stöðvarhús við Kolviðarhól. Rask ætti því að geta orðið minna í kosti I og því virðist sá kostur vera betri frá umhverfissjónarmiðum.

4. Gert er ráð fyrir 11 borteigum. Það eru mun fleiri borteigar en gert var ráð fyrir í ,,viðmiðunar jarðvarmavirkjun sem stuðst var við í mati rammaáætlunar (þar var gert ráð fyrir 4 til 5 borteigum til að anna 120 MW jarðvarmavirkjun). Þetta vekur upp spurningar um það hvort forsendur við mat á áhrifum jarðvarmavirkjana í rammaáætlun hafi verið raunhæfar eða hvort framkvæmdaaðili ætli að leggja undir sig meira landrými undir borteiga en nauðsynlegt er.

5. Losun gróðurhúsaloftegunda eykst vegna framkvæmda og nemur aukningin um 25.000 tonnum á ári. Eðlilegt að gera kröfu um að framkvæmdaaðili standi að ræktunaraðgerðum sem sýni samsvarandi bindingu (mótvægisaðgerðir). Ræktunarstarf framkvæmdaaðila er þegar mjög viðamikið og þetta gæti fallið vel að því.

6. Í skýrslunni er að finna lýsingu á efnistökustöðum fyrir framkvæmdina og myndir (bls. 56-57). Efnistöku á nýjum stöðum fylgja óhjákvæmilega rask og breytt landslag. Þá er mikilvægt að gera sér ljóst hvernig ganga má frá námu þegar efnistöku lýkur. Það væri til bóta fyrir framkvæmdir ef gerð yrðu hæðarlegukort og myndir sem sýndu endanlegan frágang og útlit á námum að verki loknu (hér er sérstaklega vísað til námu A6 og haugstæðis A7).

7. Það er jákvætt að lögn frá orkuveri til Reykjavíkur skulu eiga að vera niðurgrafin. Æskilegt að allar lagnir á svæðinu austan Hellisskarðs frá borteigum að skarðinu orkuvers verði einnig niðurgrafnar. Sama gildir um önnur mannvirki á borteigum. (Það má vísa í borholun við Eldvörp sem dæmi um góðan frágang sem hafa mætti sem fyrirmynd). Í skýrslunni (bls. 51) segir að það verði talsvert dýrara að grafa niður leiðslur. Ekki kemur fram hversu mikil áhrif það hefði á heildarkostnað við verkefnið eða hvort það er óviðráðanlegur kostnaðarauki.

Skýr myndræn lýsing á mannvirkjum á þessu svæði er nauðsynleg, en hún er ekki fyrir hendi í framlögðum gögnum. Framlögð gögn gera hvorki mögulegt að meta hvaða sjónræn áhrif mannvirkin koma til með að hafa né að bera saman ólíka valkosti. Með myndrænni framsetningu mætti meta áhrif mismunandi hönnunar á safnæðum, litaval, yfirbyggingum á borholum og niðurgreftri á safnæða. Þetta svæði er í útjaðri vinsæls útvistarsvæðis og því er mikilvægt að finna lausnir sem gera mannvirkin eins lítið áberandi í landinu og kostur er og valda sem minnstum truflunum á umferð ferðamanna í gönguferðum, skíðaferðum, hjólaferðum reiðtúrum og á vélsleðum.

8. Ástæða til að bera lof á hugmyndir um hvernig má takmarka áhrif lagna og vega í votlendi. Skýringamyndir eru mjög upplýsandi. Þetta stingur mjög í stúf við frekar óglöggar myndir af aðalmannvirkjum við Kolviðarhól og á Hellisheiði.

9. Í skýrslunni er lýst þremur leiðum til að losa sig við skiljuvatn. Niðurdæling við Lambafell, svelg norðuraustur af stöðvarhúsi við Kolviðarhól (til taks ef annað bregst) og niðurdælingu í jarðhitageyminn (væntanlega á virkjunarsvæðinu eða í jaðri þess). Frá umhverfissjónarmiðum virðis niðurdæling í jarðhitageymi vera æskilegasti kosturinn. Bæði vegna þess að þá er minni hætt á að mengandi efni spilli umhverfi og eins má ætla að slík dæling geti aukið endingartíma virkjunarsvæðisins. Af gögnum er ekki fyllilega ljóst hvar og hvernig slíkri niðurdælingu væri best háttað. Það ætti að vera forgangsatriði að finna lausn á þessu máli. Niðurdæling á sjálfu svæðinu gerði skiljuvatnsleiðslu að Lambafelli óþarfa og í því fælist sparnaður og minna rask.

10. Í skýrslunni kemur fram að styrkur nokkurra efna í skiljuvatni er mikill. Svo mikill að það veldur óhjákvæmilega spjöllum á grunnvatni, ef því er dælt niður í grunnvatnsstrauma þá, sem falla út af svæðinu, þó að það fari ekki nema staðbundið upp fyrir leyfileg hámörk fyrir neysluvatn. óvissa er töluverð um líkleg efnaáhrif, þar eð ekki eru fullkomnar né öruggar forsendur til staðar fyrir hendi um þau. Verður því að hafa varann á. Gildir það ekki síst um svokallaðan Selvogsstraum, en hann er talinn vera einhver öflugasti og auðvinnanlegasti grunnvatnsstraumur, sem fellur til sjávar á Íslandi og þar með einhver mesta auðlind landsins. Því er full ástæða til að freista þess eftir föngum að dæla sem mestu af skiljuvatninu aftur ofan í jarðhitakerfið, enda viðheldur það betur endingu þess. Annars verður að leitast við að beina íblöndun skiljuvatnsins í þá hluta grunnvatnsstraumanna, þar sem minnstur skaði yrði af henni.

11. Í skýrslunni er áhugaverð umfjöllun um sjálfbærni og svo er að skilja að rekstraráætlanir miðist við 30 ára starfstíma á fullum afkostum og að jarðhitageymirinn geti náð sér að fullu á um 1.000 árum og því megi líta á framkvæmdina sem afturkræfa. Í skýrslunni er áhugaverð umfjöllun um ,,ágenga“ og ,,hógværa“ nýtingarstefnu. Framkvæmdaaðili hyggst stunda ,,ágenga“ vinnslu (bls. 67). Stjórn Landverndar telur að í kröfunni um sjálfbæra nýtingu jarðvarma eiga felast að góðar líkur séu á því að orkugjafinn geti þjónað mörgum kynslóðum samfellt og telur því hæpið að fullyrða að um sjálfbæra virkjun sé að ræða ef fylgt verður ,,ágengri“ nýtingarstefnu.

12. Fram kemur að Sveitarfélagið Ölfus hefur auglýst tillögu að aðalskipulagi fyrir þetta svæði. Fram að þessu hefur ekki verið fyrir hendi heildarstefna um landnýtingu á svæðinu sem markast af Nesjavöllum, Hengli, Innstadal, Ölkelduhálsi, Reykjadal og Grændal. Þetta er mikilvægt útvistarsvæði fyrir íbúa á öllu suðvesturhorni landsins. Það væri heppilegt að öll aðliggjandi sveitarfélög kæmu sér saman um skipulag fyrir svæðið með hliðsjón af náttúruverndar- og útvistarhagsmunum sem og möguleikum til orkuöflunar.

Í skipulagi þarf m.a. að ákveða hvernig umferð ökutækja að og í Innstadal, Miðdal og Fremstadal verði háttað. Talsverðar skemmdir hafa orðið á gróðri og jarðvegi í þessum dölum vegna utanvegaraksturs. Svæðið er vel aðgengilegt með bílvegum í dag, en loka þyrfti fyrir margar slóðir og banna þar umferð ökutækja. Við enda á vegum þarf að koma upp bílastæðum og merkingum sem sýna augljóslega að lengra megi ekki fara með ökutækjum. Skýrar reglur og merkingar, merkt bílastæði og leiðbeiningar geta komið í veg fyrir frekari óþarfa eyðileggingu á gróðri og jarðvegi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd