Landvernd hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli meta umhverfisáhrif vegagerðar um Kjöl. Landvernd telur að Skipulagsstofnun hafi við meðferð málsins brotið gegn löggjöf um umhverfismat framkvæmda, umhverfismat áætlana og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Landvernd æskir álits EFTA-dómsstólsins við úrlausn málsins og krefst stöðvunar framkvæmdarinnar haldi Vegagerðin því til streitu að halda henni áfram án undanfarandi umhverfismats. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála mun fjalla um kæruna.
Frá árinu 1995 hefur Vegagerðin unnið að breytingum á rúmlega 40 km kafla Kjalvegar, allt frá Gullfossi að Árbúðum, norðan Hvítár, í misstórum áföngum. Um er að ræða uppbyggðan veg sem víða er utan eldra vegstæðis. Vegagerðin hefur ekki látið fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Að undangengnum ábendingum Landverndar og fleiri óskaði Vegagerðin í sumar eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort umhverfismeta skyldi þá 3 km sem eftir eru af vegarlagningunni að Árbúðum.
Með því að búta vegaframkvæmdirnar upp í áfanga gerist Vegagerðin sek um að beita alþekktri aðferð, s.k. „salami slicing“ eða „pylsuskurði“, til þess að skjóta sér undan mati á umhverfisáhrifum, þar sem hver framkvæmdakafli er ekki lengri en svo að ekki er skylt að umhverfismeta hann. Landvernd mótmælir þessum vinnubrögðum harðlega og bendir á í kæru sinni að „pylsuskurður“ Vegagerðarinnar standist ekki löggjöfina um umhverfismat. Um það vitni Evrópudómstólinn en hann hefur margdæmt það óheimilt að fara í kringum markmið umhverfismatslaga með því að skipta framkvæmd upp með þessum hætti.
Landvernd gagnrýnir ákvörðun Skipulagsstofnunar og aðhaldsleysi í málinu harðlega og telur óhjákvæmilegt að ákvörðunin verði ógilt. Stofnuninni beri að líta til dómaframkvæmdar Evrópudómstólsins og láta heildarframkvæmdina lúta mati á umhverfisáhrifum. Skipulagsstofnun hafi ekkert hugað að heildaráhrifum umræddra vegbreytinga, t.d. ekkert að því, hver heildaráhrifin yrðu af breyttum, uppbyggðum vegi á hálendisumferð, ásókn inn á hálendið og upplifun útivistarfólks og annarra ferðamanna, áhrif á víðerni og á þolmörk náttúrunnar. Þá gáði stofnunin ekkert að því, hver samlegðaráhrif kynnu að verða af breyttum vegi og uppbyggingaráformum í gistingu í hálendismiðstöðinni í Kerlingarfjöllum sem stofnunin þó hafði til meðferðar á sama tíma. Landvernd lítur sérstaklega til þess að um er að ræða framkvæmdir á hálendi Íslands sem er ein viðkvæmasta og verðmætasta náttúruperla landsins.