Hreinsum Ísland hleypt af stokkunum

Hreinsum Ísland, endurhugsum neysluna og hættum að nota einnota plast, landvernd.is
Landsátaki Landverndar og Bláa hersins var hleypt af stokkunum í annað sinn á Degi umhverfisins þann 25. apríl 2018

Landsátakinu Hreinsum Ísland var hleypt af stokkunum í Grindavík í dag 25. apríl 2018! Nemendur í 6. bekk Grunnskóla Grindavíkur sögðu frá umhverfisverkefni sem þeir unnu, nemendur leikskólans Lautar og Heilsuleikskólans Króks sungu fyrir okkur lag og svo tóku allir viðstaddir þátt í núvitundaræfingu sem kallast krossfiskurinn! Að lokum var farið í táknrænan leik þar sem stórfiskar fönguðu plastpoka! Við hvetjum ykkur til að skrá ykkur til leiks og skipuleggja ykkar eigin hreinsun á http://hreinsumisland.is

Landvernd og Blái herinn standa nú fyrir landsátakinu Hreinsum Ísland í annað sinn og vilja með því vekja athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi. Plastmengun í hafi er ein stærsta áskorun nútímans í umhverfismálum. Árlega eru 350 milljón tonn af plasti framleidd í heimum en af þeim enda um 8 milljón tonn af plasti í hafinu. Samkvæmt tölum frá Umhverfisstofunun Sameinuðu þjóðanna koma 80% þess plasts af landi og 20% frá starfsemi á sjó.

Plastmengun er stærsta áskorun nútímans

Plastið eyðist ekki heldur brotnar niður í örplast sem sogar að sér eiturefni í sjónum. Plast getur vafist utan um dýr, heft hreyfingar þeirra og kyrkt en einnig geta eiturefni í plastinu, eða sem berast með plastinu skaðað dýrin. Plast getur þar að auki fyllt meltingafærin svo að dýrin telji sig vera södd en enda á því að hljóta innvortis sár eða svelta til bana.

Ógrinni plastagna renna með skólpi og rigningavatni út í sjó og og má meðal annars rekja uppruna þeirra til dekkja, fatnaðar úr gerfiefnum, málningar og snyrtivara.

Heilbrigt haf mönnum lífsnauðsynlegt

Landið okkar er umkringt hafi og tengir það okkur við önnur lönd. Það mótar landið okkar og hefur gríðarlega mikil áhrif á loftslag og veður. Hafið gerir jörðina lífvænlega og er tilvera okkar manna háð heilbrigði hafsins. Mikilvægt er fyrir smáa þjóð sem byggir afkomu sína að hluta til á sjávarútvegi að bera skynbragð á víðtæk áhrif hafsins á líf okkar.

Landsmenn eru hvattir til að skipuleggja sínar eigin strandhreinsanir og má skrá sig til leiks á hreinsumisland.is en þar má finna góðar leiðbeiningar um hvernig skipuleggja megi hreinsun á árangursríkan hátt, í sátt við menn og náttúru.

Vonumst við til þess að sem flestir leggi hönd á plóg og taki þátt í að minnka plastmengun. Hvetjum við fólk til að nota minna plast, kaupa minna og auka endurvinnslu.

Allir sem skrá sína hreinsun geta fengið hana birta á Íslandskort átaksins!

#hreinsumisland #landvernd #hreinthaf

Grindavíkurbær mun ásamt öðrum sveitafélögum á Reykjanesi taka þátt í Norrænni strandhreinsun þann 5. maí næstkomandi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd