Hreinsum Ísland: Strandhreinsunarátak Landverndar

Hreinsum Ísland. Notum minna plast, kaupum minna plast og endurvinnum. Skipuleggjum okkar eigin strandhreinsun.

Hreinsumisland.is
Margir halda því fram að Ísland sé hreinasta land í heimi. Vissulega er loftið hreint og vatnið gott en þrátt fyrir það notar hver Íslendingur að meðaltali 40 kíló af plastumbúðum á ári. Aðeins lítill hluti skilar sér til endurvinnslu eða endurnýtingar og er meiri hluti þess annað hvort grafinn í jörðu og urðaður eða endar í hafinu.

Árlega eru 300 milljón tonn af plasti framleidd í heimum (300 milljón fílar!). Plast eyðist ekki, heldur brotnar niður í örplast á mörg hundruð árum. Það þýðir, að meiri hluti þess plast sem hefur verið búinn til frá miðri síðustu öld, er ennþá til.

Plastið hefur skaðleg áhrif á lífríkið í sjónum og éta sumar lífverur plastagnir og plastpoka sem þau telja að séu fæða. Plastagnirnar magnast svo upp fæðukeðjuna og enda svo á disknum hjá okkur!

Hér áður fyrr var oft sagt „lengi tekur sjórinn við“ en nú er jafnvel talið að það verði meira af plasti en fiski í sjónum árið 2050! Tökum höndum saman og berjumst gegn þessari þróun.

Á degi umhverfisins hleypti Landvernd af stokkunum nýju strandhreinsunarátaki; Hreinsum Ísland. Vekjum við athygli á þeim hættum sem fylgja plastmengun í hafi og vonumst til þess að sem flestir leggi hönd á plóg og taki þátt í að minnka plastmengun. Við hvetjum fólk til að nota minna plast, kaupa minna og endurvinna. Hægt er að skipuleggja sína eigin strandhreinsun og veitir Landvernd góð ráð á síðunni hreinsumisland.is

Átakið með plastgjörningi nemenda í Sjálandsskóla, þar sem nemendur drógu plastskrímsli að landi á kayökum. Nemendur skólans hafa vakið athygli á plastmengun þ.m.t. plastmengun í sjó og hreinsa reglulega strandlengjur í nágrenni skólans. Flutt voru tónlistaratriði tengd hafinu og héldu nemendur og fulltrúi Landverndar, Rannveig Magnúsdóttir stuttar ræður.

Ímyndaðu þér að þú sért á lítilli eyju. Himininn er heiður og sólin speglast í tæru hafinu. Þú finnur hvernig vindurinn leikur við hárið og sólin hitar hörund þitt. Undir fótum þér eru hrjúfir steinar. Einn þeirra er á milli tánna þinna. Þú lítur niður til að taka hann í burtu en sérð engan stein. Við þér blasir hinsvegar við heldur furðuleg sjón. Þarna á milli tánna hvílir lítill blár plasttappi. Tappinn er þó ekki einn síns liðs. Þarna á eyjunni liggja ýmsir plasthlutir. Hvítur sjampóbrúsi, stór jógúrtdós, upplitaður eos varasalvi og fleira. Þú áttar þig á því að þetta er ekki venjuleg eyja. Þetta er plasteyja.

Gabríella Snót SchramNemandi í Sjálandsskóla

Við viljum stöðva plastið áður en það fer út á haf eða endar á ströndinni okkar. Við viljum hvetja fólk til að hugsa hvernig það getur minnkað plastnotkunina, flokkað það plast sem fellur til á heimilinu og skilað til endurvinnslu. Það finnst flestum sjálfsagt að skila plastflöskum, kannski af því að við fáum pening fyrir það, en sami peningur eða reyndar aðeins meiri peningur sparast við það að nota fjölnota innkaupapoka. Einnota innkaupapokar eru að meðaltali notaðir í 20 mínútur áður en þeim er annað hvort hent eða þeir notaðir undir heimilissorp. Það er nefnilega þannig að helmingurinn af plastinu sem við notum er aðeins notað einu sinni.

Emil Grettir ÓlafssonNemandi í Sjálandsskóla

#hreinsumisland #landvernd #hreinthaf.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd