Hádegisfyrirlestur í Norrænahúsinu í Reykjavík miðvikudaginn 25. júní um spurninguna hvað sé ósnortin náttúra.
Bandarískur umhverfissagnfræðingur, Harriet Ritvo mun halda hádegisfyrirlestur í Norrænahúsinu í Reykjavík miðvikudaginn 25. júní. Harriet Ritvo starfar sem prófessor við hinn virta háskóla Massachusetts Institute for Technology (MIT) og fjallar í núverandi í rannsóknum sínum um grundvöll náttúruverndar.
Í fyrirlestri sínum mun Ritvo fjalla um hvað sé ósnortin náttúra og hvort mannvirki og athafnir mannsins séu raunveruleg náttúruspjöll eða einfaldlega breytingu á náttúru sem óháð aðgerðum og mannvirkjum manna tekur sífelldum breytingum. Fyrirlesturinn verður sagnfræðilegur þar sem lagt verður út af umræðu á síðari hluta nítjándu aldar í Bretlandi þegar ráðamenn Manchester fóru að gera áætlanir um að stífla stöðuvatn í Vatnahverfinu (Lake District) fyrir vatnsból borgarinnar. Mótmælin gegn þessari stíflu eru stundum nefnd upphaf umhverfishreyfinga. Málið snérist aðallega um ósnortna náttúru og náttúrufegurð svo og eignarrétt og þjóðarrétt. Þetta var ekki spurning um að vernda dýr eða gróður. Að mati Ritvo var umhverfishreyfingin tengd síðrómantík nítjándu aldar. Þótt Harriet sé sjálf mjög vilhöll náttúruverndarfólki þá vekur þessi fyrirlestur hennar erfiðar spurningar fyrir þá sem leggja mikla áherslu á náttúruvernd.
Það eru Landvernd og Hið íslenska náttúrufræðifélaga sem standa að þessum fyrirlestri. Fyrirlesturinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.