Til eru margar skilgreiningar á sjálfbærni en í grunninn snýst sjálfbærni um að allir jarðarbúar, óháð því hvar og hvenær þeir eru fæddir, geti mætt sínum þörfum (t.d. hreint vatn, matur, húsaskjól, menntun og heilbrigðisþjónusta) án þess að ganga svo nærri auðlindum og lífríki jarðar að komandi kynslóðir geti ekki mætt þörfum sínum.
Auðlindir jarðar eru takmarkaðar og mannfólkið er margt. Í árþúsundir lifði mannfólkið þannig að athafnir þess rúmuðust innan þolmarka jarðarinnar. Það var í raun ekki fyrr en við lok nítjándu aldar sem lifnaðarhættirnir tóku að breytast, og þá breyttust þeir hratt. Breytingarnar höfðu í för með sér mikinn fórnarkostnað fyrir jörðina og hefur ástand hennar síðan þá farið versnandi. Á sama tíma hafa lífsgæði ákveðinna hópa batnað en lífsgæði annarra staðið í stað eða versnað.
Gefum okkur að allir jarðarbúar vilja borða hollan og góðan mat á hverjum degi og búa í húsi með rafmagni og rennandi vatni. Þeir vilja einnig hafa eitthvað um það að segja í hvernig samfélagi þeir lifa og hafa rétt til menntunar, heilbrigðiskerfis og annarrar grunnþjónustu.
Jörðin býr yfir auðlindum sem jarðarbúar þurfa á að halda til að lifa, svo sem hreinu vatni, fersku lofti og fæðu. Jörðin býr einnig yfir auðlindum sem eru nýttar sem hráefni í iðnaði og framleiðslu.
Til að þetta sé í jafnvægi þurfum við að gæta að vistspori okkar og gæta að þolmörkum jarðar.
Við þurfum langtímaplan
Í raun er sjálfbært samfélag langtímaplan þar sem gert er ráð fyrir jafnvægi á milli samfélags, efnahags og náttúru. Ágangur manna á auðlindir jarðar er mikill og dregur hann úr tækifærum sem börnin á jörðinni og komandi kynslóðir geta nýtt sér í framtíðinni.
Við þurfum að vinna heima með heiminn í huga og auka meðvitund fólks um að lífsstíll og neysluhegðun okkar hefur áhrif á kjör og aðstæður fólks annarsstaðar í heiminum.
Mikilvægt er að draga úr neyslu og stefna að sjálfbærri nýtingu auðlinda með framtíð mannkyns og lífs á jörðu að leiðarljósi.