Miðhálendi Íslands er einn mesti fjársjóður landsins
Það þekur um 40.000 ferkílómetra og er eitt stærsta óbyggða svæði Evrópu. Á miðhálendinu má finna eldfjöll, jökla, vatnsmiklar ár og fossa, litrík háhitasvæði, víðfeðm hraun og svartar sandauðnir sem kallast á við viðkvæmar gróðurvinjar.
Þjóðgarður skapar tækifæri til náttúrufræðslu, útivistar og atvinnusköpunar
Þjóðgarður á miðhálendi Íslands myndi tryggja vernd þessa svæðis og um leið gæti hann skapað mörg tækifæri til náttúrufræðslu, útivistar og atvinnusköpunar í landinu.
Þannig gæti þjóðgarður þannig stuðlað að auknum atvinnutækifærum í hinum dreifðu byggðum landsins.
Þjóðgarður þýðir náttúruvernd
En hvað felst í þjóðgarði?
Þjóðgarður þýðir náttúruvernd, en hann getur líka skapað samfélagsleg og efnahagsleg tækifæri.
Svæðum innan þjóðgarðs má nefnilega skipta í mismunandi verndarflokka. Það
þýðir að landsvæði í þjóðgörðum geta notið mismikillar verndar. Tilgangur
þessara flokka er þá að endurspegla markmið landnýtingar og verndar á
svæðinu og koma þannig til móts við þarfir þeirra sem vilja njóta náttúrunnar.
Þjóðgarður getur tryggt aðgengi að náttúruperlum
Og hvað þýðir þetta þá í raun og veru?
Þetta þýðir að stofnun þjóðgarðs getur tryggt náttúruvernd, en jafnframt
yfirsýn, heildstætt skipulag og ekki síst aðgengi.
Á einstökum eða óvenju viðkvæmum svæðum gæti þó þurft að takmarka aðgengi til að eyðileggja ekki náttúrulegt ástand þeirra, en í þjóðgörðum er líka lagður metnaður í að skapa umgjörð fyrir fræðslu, ferðalög og útilegu.
Það á jafnt við um gönguferðir, jeppaferðir og ferðamennsku á öðrum ökutækjum.
Í þjóðgörðum er lögð áhersla á sjálfbæra nýtingu
Allt er þetta stór partur af því að njóta náttúrunnar í þjóðgörðum um allan heim. Í þjóðgörðum getur einnig verið lögð áhersla á að hefðbundnar sjálfbærar veiðar séu stundaðar.
Þannig geta ábyrgar veiðar aukið áhuga á því að vernda svæði og þær dýrategundir sem þar er að finna. Ekki má gleyma að hefðbundin landnýting á sér tilverurétt í þjóðgörðum en rík áhersla er lögð á að sú nýting sé sjálfbær og einungis á svæðum sem þola beit.
Þjóðgarðar skila margföldum tekjum til baka til samfélagsins
Svo er mikilvægt að muna að eitt af markmiðum með stofnun þjóðgarða er að það skili sér í
efnahagslegum ávinningi með því að styðja við ferðaþjónustu í samfélaginu.
Enda sýna dæmi frá ýmsum stöðum í heiminum að fjárfesting í þjóðgörðum
skilar margföldum tekjum tilbaka til samfélagsins.
Styðjum stofnun þjóðgarð á miðhálendi Íslands
Svona er hægt að sjá fyrir sér þjóðgarð á miðhálendi Íslands. Saman getum við skapað þjóðgarð þar sem allir geta notið miðhálendisins á forsendum náttúruverndar og sjálfbærrar þróunar.