Hvalveiðar leyfðar – yfirlýsing Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands

Matvælaráðherra hefur gefið út leyfi til veiða á 128 langreyðum. Enn gildir að útilokað er að drepa langreyðar með mannúðlegum hætti.
Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna harðlega þá ákvörðun matvælaráðherra að veita leyfi til veiða á 99 langreyðum í sumar. Slíkt hvaladráp þjónar engum tilgangi enda er markaður fyrir hvalkjöt mjög takmarkaður.

Reykjavík 11. júní 2024

Landvernd og Náttúruverndarsamtök Íslands gagnrýna harðlega þá ákvörðun matvælaráðherra að veita leyfi til veiða á 99 langreyðum í sumar. Slíkt hvaladráp þjónar engum tilgangi enda er markaður fyrir hvalkjöt mjög takmarkaður.

Á hinn bóginn hefur ráðherra ákveðið að takmarka veiðarnar við 99 dýr[1] sem er 62 dýum færri en heimilt hefur verið að veiða undanfarin ár. Samtökin vilja þó benda á að starfshópur er enn starfandi á vegum ráðuneytisins um lagaumgjörð hvalveiða sem skila mun skýrslu sem ætlað er að skapa grunn um stefnumótun til framtíðar í lok árs.

Þegar litið er til framtíðar er nauðsynlegt að miða afstöðu þingsins við afstöðu þjóðarinnar sem er í meirihluta andvígur hvalveiðum. Þá ber að breyta lögum um hvalveiðar þar sem um úrelt lög er að ræða og láta þau samrýmast frekar nýrri lögum svo sem lögum um dýravelferð. Ljóst er að núverandi veiðar eru í bága við gildandi lög um dýravelferð og er það óviðunandi.

Ekki er ljóst hvað ráðherra á við með að ákvörðun taki mið af „… varfærnum vistkerfisstuðlum Alþjóðahvalveiðiráðsins.” en Hafrannsóknarstofnun hefur miðað við að stofninn minnki ekki meira en sem nemur 60% af upphaflegri stærð. Alþjóðahvalveiðráðið vill miða við að stærð langreyðarstofnsins fari ekki niður fyrir 72% af upphaflegri stærð sem gefur umtalsvert minni kvóta en 161 dýr, líkt og verið hefur sl. 12 ár.

Samtökunum þykir mikilvægt að ráðherra hunsi ekki álit Alþjóðahvalveiðiráðsins.

Ennfremur, leyfið gildir aðeins til eins árs en ekki næstu 5 – 10 líkt og Hvalur hf. fór fram á. Því ber að fagna og full ástæða til að nota tímann til þess að endurskoða lög um hvalveiðar. 

Enn gildir að útilokað er að drepa langreyðar með mannúðlegum hætti.

—————————————————

[1] Leyfi til veiða á 29 langreyðum á svæðinu á milli Íslands og Færeyja hefur engan tilgang þar eð landa verður veiddum dýrum innan við 24 klukkustundum eftir að þau eru drepin. Ella byrja þau að rotna. Fjarlægðin er einfaldlega of löng og framsetning ráðherra því villandi.

Ofangreind yfirlýsing var send fjölmiðlum 11. júní 2024. 

Smelltu á myndina til að lesa.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd