Hver eru áhrif vatnsaflsvirkjana á umhverfið?

Kárahnjúkavirkjun virkjar rennsli Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og þriggja þveráa hennar. Virkjunin er sú stærsta á landinu.
Kárahnjúkavirkjun virkjar rennsli Jökulsár á Dal, Jökulsár í Fljótsdal, Kelduár og þriggja þveráa hennar. Virkjunin er sú stærsta á landinu.
Vatnsaflsvirkjanir eru aðal uppspretta raforku á Íslandi. En hvaða áhrif hafa vatnsaflsvirkjanir á lífríkið og umhverfið?

„Enn er margt á huldu um áhrif vatnsaflsvirkjana á vistkerfi lands og sjávar. Ljóst er að virkjanir í framburðarríkum jökulvötnum eru ekki sjálfbærar. Þær hafa varanlegan skaða í för með sér því þær ganga á gæði landsins. Slíkar virkjanir eru háðar stórum miðlunarlónum til að jafna gríðarlegar árstíðabundnar sveiflur sem, ásamt því að drekkja gróðurlendum og búsvæðum fugla, auka fok sets úr lónstæðum. Framburður, botnruðningur, sandur og svifaur safnast fyrir í lónum og virkjanirnar hafa því endanlegan líftíma.

Í drögum að hvítbók um náttúruvernd [1, bls. 68] segir að breytingar í vatnabúskap í kjölfar virkjana rjúfi vistfræðilega og vatnafarslega samfellu vatnasviða og breyti ekki aðeins eðli og gerð vatna- og þurrlendisvistkerfa sem standa þeim næst heldur einnig sjávarvistkerfum sem vötnin tengjast [1, bls 68].

Mikilvægt er að tryggja verndun heilla vatnasviða

Ennfremur segir í hvítbókinni að það sé mikilvægt að tryggja verndun heilla vatnasviða. Á það við um vatnasvið jökuláa, frá leysingasvæðum til áraura og ósasvæða, dragáa, frá upptökum á þéttum hálendissvæðum, tjörnum og mosaþembum, og ekki hvað síst vatnasvið lindáa á virka gosbeltinu, þar sem hraun hafa runnið á nútíma.[1, bls.69].

Stíflugerð stöðvar sand- og aurburð

Stíflugerð stöðvar botnskrið, sand- og aurburð sem er nauðsynlegur í viðhald og uppbygginu strandlengjunnar.

Framburður jökuláa viðheldur jafnvægi á ströndinni en ef hann stöðvast er hætt við að ströndin færist til baka og landrof verði, líkt og þekkt er við Héraðsflóa [2] og víða um heim [3].

Svifaur er undirstaða fæðu fyrir lífríkið í sjónum

Svifaurinn sem jökulár bera til sjávar nærir ýmsa þörunga og skapar þannig undirstöðu fæðu fyrir lífríkið í sjónum. Þá hlýnar gruggugt auravatnið fyrr á vorin og því fer þörungablómi fyrr af stað í þessu næringarríka vatni [4].

Framburður jökulfljóta skapar ákjósanlegar aðstæður fyrir hrygningu þorsks

Fyrir framan ósa allra jökulfljóta landsins myndast ákjósanlegar aðstæður fyrir hrygningu þorsks. Allar breytingar á rennsli jökuláa með stíflum og virkjunum valda raski á framburði og þeirri næringu sem fljótin bera með sér allt til sjávar og verulega getur dregið úr næringarefnaflæði og hitastig að vori lækkar með auknu gegnsæi árvatnsins á ósasvæðinu.

Sjórinn verður næringarsnauðari

Þannig dregur úr varmaleiðni og sjórinn á ósasvæðinu verður bæði kaldari og næringarsnauðari með tilheyrandi afleiðingum fyrir þörungablóma að vori. Slíkt hefur svo aftur áhrif á svifdýr og krabbaflær sem hefur áhrif á lífsafkomu fugla og nytjafiska.

Vatnsaflsvirkjanir hafa áhrif á lífríkið

Vatnsaflsvirkjanir geta haft neikvæð áhrif á nytjafiska í ám með því að eyðileggja hrygningar- og uppeldisstöðvar þeirra [5] og hindra sjógöngur [6]. Stíflur geta haft mjög alvarleg áhrif á lífríki alls láglendis [7] vegna minnkandi aurburðar þangað og leitt til þess m.a. að mikilvæg fuglabúsvæði sökkvi. Hafa vísindamenn áhyggjur af þessari þróun við öll jökulvötn landsins, þar sem stíflur stöðva aurburð og raska því jafnvægi sem hefur verið við sandstrendur landsins [3]. Einnig er talið að minnkandi aurburður jökulvatna til sjávar hafi umtalsverð áhrif á kolefnisbúskap jarðar [7]. Þá er eyðilegging gróðurs í lónstæðum og aukin losun gróðurhúsalofttegunda (koltvísýrings og metans) vegna rotnandi gróðurleifa og jarðvegs einnig meðal neikvæðra áhrifa vatnsaflsvirkjana. Rannsóknir benda til að um 7% af þeim gróðurhúsaáhrifum sem rekja má til umsvifa mannsins á Jörðinni eigi uppruna sinn við slíkar aðstæður [7, 8].“

 

Heimildir:

Vatnsaflsvirkjanir og áhrif á umhverfi, Kafli í Umsögn 13 náttúruverndarsamtaka um Rammaátætlun 2011. 

  1. Nefnd um endurskoðun náttúruverndarlaga, (2011). Náttúruvernd – Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands. A.V. Óskarsdóttir Reykjavík: Umhverfisráðuneytið.
  2. Ólöf Rós Káradóttir og Hrafnhildur Brynjólfsdóttir, (2008). Héraðsflói – Vöktun strandar. Grunnástand, Landsvirkjun.
  3. Mathias Kondolf, (1997). Hungry Water: Effects of Dams and Gravel Mining on River Channels. Environmental Management 21(4): p. 533-551.
  4. Jón Ólafsson, Sólveig R. Ólafsdóttir, og Jóhannes Briem, (2008). Vatnsföll og vistkerfi strandsjávar. Náttúrufræðingurinn 76(3-4): p. 95-108.
  5. Bjarni Jónsson og Eik Elfarsdóttir, (2002). Botnmat fyrir bleikju i Norðurá i Skagafirði ásamt Valagilsá, Kotá og Egilsá, VMST-N/0218, Hólum.
  6. P. Budy, G. P. Thiede, N. Bouwes, C. E. Petrosky, og H. Schaller, (2002). Evidence linking delayed mortality of snake river salmon to their earlier hydrosystem experience. North American Journal of Fisheries Management, 22(1): p. 35-51.
  7. Sigurður R. Gíslason, Eric H. Oelkers, og Árni Snorrason, (2006). Role of river-suspendes material in the global carbon cycle. Geology, 34 (1): p. 49-52.
  8. L. St Louis, C. A. Kelly, E. Duchemin, J. W. M. Rudd, og D. M. Rosenberg, (2000). Reservoir surfaces as sources of greenhouse gases to the atmosphere: A global estimate. Bioscience, 50(9): p. 766-775.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd