Þökk sé langvinnri baráttu náttúruverndarsamtaka og náttúruunnenda hafa áform um virkjun í Hverfisfljóti við Hnútu verið stöðvuð – á svæði sem nýtur verndar náttúruverndarlaga. Engu að síður hafði sveitarstjórn Skaftárhrepps gefið út framkvæmdaleyfi fyrir virkjuninni.
Endahnúturinn var hnýttur í janúar 2023 þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála úrskurðaði að Skaftárhreppur hefði brotið lög þegar gefið var út framkvæmdaleyfi fyrir Hnútuvirkjun. Framkvæmdaleyfið varð þar með ógilt. Það var sannkallaður happadagur fyrir náttúruvernd á Íslandi.
Af hverju er þetta svæði svo verðmætt?
Hverfisfljót fer um Skaftáreldahraun sem sögulega og jarðfræðilega er ein af merkilegustu jarðmyndunum á Íslandi. Farvegur Hverfisfljóts ber vitni um einstaka landmótun sem hófst við lok Skaftárelda fyrir 238 árum.
Hnútuvirkjun hefði spillt Eldhrauni og Núpahrauni, gert fossaröð Lambhagafossa og Faxa vatnslausa stóran hluta ársins og spillt víðernum hálendisins. Á svæðinu er einstakt samspil jökulvatns og ungs hrauns í jaðri hálendisins og Vatnajökulsþjóðgarðs.
Ekki bara eitt heldur ýmislegt var athugavert við Hnútuvirkjun
Framkvæmdaleyfi Skaftárhrepps var gefið út þótt ekki lægi fyrir virkjanaleyfi frá Orkustofnun. Þetta taldi nefndin annmarka á leyfisveitingunni.
Skv. náttúruverndarlögum má eingöngu raska náttúru sem nýtur verndar ef brýnir almannahagsmunir krefjast þess. Nefndin taldi að sveitarfélagið hefði ekki getað fært rök fyrir slíkum brýnum almannahagsmunum.
Með þessu er skýrt að ákvarðanir sveitarfélaga sem veita leyfi og bera skipulagsábyrgð verða að vera í samræmi við öll lög landsins, einnig náttúruverndarlög. Má segja að náttúruverndarlög hafa með þessu fengið uppreisn æru og var það löngu tímabært.
Sveitafélagið freistaði þess að réttlæta brot á náttúruverndarlögum með því að vísa til þess að Hnútuvirkjun væri framlag til orkuskipta landsins og orkuöryggis í sveitarfélaginu. Úrskurðarnefndin taldi þess rök ekki haldbær og að þau gætu ekki réttlætt rask á náttúru sem vernduð er skv. náttúruverndarlögum. Þetta eru verulega góð tíðindi fyrir unnendur íslenskrar náttúru.
Löng saga og lýjandi
Árið 2007 kærði Landvernd ákvörðun Skipulagsstofnunar til ráðherra um að 2,5 MW virkjun í Hverfisfljóti skyldi ekki fara í umhverfismat vegna umfangsmikilla fyrirséðra umhverfisáhrifa af henni.
Umhverfisráðherra féllst á málsrök Landverndar og því þurfti virkjunin að fara í umhverfismat. Þá ákvað landeigandi, líklega vegna aukins kostnaðar við undirbúning, að stækka virkjunina upp i 15 MW . Það hefði þýtt að leggja þyrfti mat á virkjunina eftir reglum rammáaætlunar, skv. lögum frá 2011 um vernd og orkunýtingu landssvæða.
Í kjölfarið ákvað landeigandi, sem jafnframt er virkjunaraðili, að miða virkjunina við 9,3 MW til að komast hjá faglegu mati rammaáætlunar. 9,9 MW reglan er augljós galli á lagaumgjörð í virkjanamálum á Íslandi enda mælist röskun á náttúruverðmætum ekki í MW.
Frummatsskýrsla fyrir 9,3 MW virkjun í Hverfisfljóti var kynnt árið 2017. Gríðarmargar umsagnir bárust frá einstaklingum, samtökum og stofnunum.
Álit Skipulagsstofnunar var gefið út árið 2020 þar sem stofnunin taldi að áhrif virkjunarinnar á fossa og nútímahraun sem njóta verndar náttúruverndarlaga yrðu mjög neikvæð sem og að ekki hefði verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að raska þessum verðmætum. Fjallað var um málið í fjölmiðlum, m.a. hjá RÚV.
Vorið 2022 gaf sveitarstjórn Skaftárhrepps út framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina þrátt fyrir neikvætt álit Skipulagsstofnunar. Hópur landeigenda í nágrenni virkjunarinnar og fimm náttúruverndarsamtök kærðu leyfisveitinguna til úrskurðanefndar umhverfis- og auðlindamála og féll úrskurður nefndarinnar í janúar 2023 þar sem framkvæmdaleyfið var fellt úr gildi.
Og nú vitum við að þessi langa barátta var fyrirhafnarinnar virði. Einstakri náttúruperlu verður þyrmt. Til hamingju!