Skipulagsmál snerta okkur öll
Spóinn hefur ekki kosningarétt eða aðferðir til áhrifa innan þess kerfis sem við höfum skapað. Samt eru hagsmunir hans og lífríkisins óumdeildir þegar kemur að náttúrunni og framkvæmdum sem raska henni.
Hvað eru skipulagsmál?
Skipulag felst í að móta og taka ákvarðanir um ráðstöfun lands til mismunandi uppbyggingar, nýtingar og verndar. Í skipulagi þarf að horfa til langs tíma og samþætta ólík sjónarmið, með almannahagsmuni og sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Skipulag á að móta í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila. Leyfi til mannvirkjagerðar og innviðauppbyggingar skulu byggja á og vera í samræmi við skipulag.
Þú mátt taka þátt
Skipulagslögum er meðal annars ætlað að tryggja samráð við almenning og tækifæri til að hafa áhrif á skipulagsákvarðanir sveitarfélaga. Allir eiga að hafa kost á að kynna sér skipulagsáform og koma á framfæri upplýsingum/skoðun, áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar.
„Skipulag á að móta í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila“
Ábendingar og mótmæli íbúa og annarra hagsmunaaðila eiga að geta leitt til breytinga á skipulagsáformum og jafnvel að hætt sé við skipulagsáform. Sveitarstjórnum ber að taka allar umsagnir og athugasemdir sem berast við skipulagstillögur til efnislegrar skoðunar og bregðast við þeim. Þá geta sveitarstjórnir ákveðið að fela íbúum ákvörðunarvald í einstökum skipulagsmálum, með íbúakosningu.
Sex ráð til að hafa áhrif á skipulagsmál:
1. Fylgjumst vel með
Það er um að gera að vera í áskrift að tilteknum tegundum mála og/eða landsvæðum á Skipulagsgáttinni (skipulagsgatt.is), en þar eru birtar upplýsingar um allar skipulagstillögur og umhverfismat sem eru til kynningar hverju sinni. Einnig er hægt að vera í áskrift að fréttum á vef Skipulagsstofnunar, skipulag.is og fylgjast með vefsíðum sveitarfélaga.
2. Sýnum frumkvæði
Ræðum við kjörna fulltrúa í sveitarstjórn og skipulagsnefnd og skipulagsfulltrúa sveitarfélags að fyrra bragði og fylgja málum eftir.
3. Nýtum tækifærin
Nýtum almenn samráðstækifæri sem gefast, svo sem opna fundi sveitarstjórnar/sveitarstjóra, íbúaþing og þess háttar.
4. Veitum umsagnir á öllum stigum ferlisins
Nýtum þá formlegu glugga sem opnast í ferli einstakra skipulagsmála – um lýsingu skipulagsverkefnis, um skipulagstillögu í vinnslu og við formlega auglýsingu skipulagstillögu. Og sama í umhverfismatsferli framkvæmda – um matsáætlanir og umhverfismatssskýrslur framkvæmdaraðila.
5 Virkjum fleiri
Því fleiri sem láta sig mál varða því betra. Þá er lýðræðið virkt og athygli beint að sjónarmiðum náttúruverndar.
6. Umsagnir geta verið allskonar
Athugasemdir geta snert á öllu sem varða skipulagsáform – málsmeðferð, upplýsingar sem byggt er á, röksemdafærslu, sjálf skipulagsáformin, umhverfisáhrif, að leggja til annan valkost um nýtingu svæðis og fleira.
Það eru ekki eyðublöð, forskriftir eða reglur um það hvernig á að gera umsögn/athugasemdir um skipulagsáform. Aðalatriðið er að setja sínar ábendingar og/eða kröfur skýrt fram og rökstyðja mál sitt.
Það getur verið gagnlegt að skoða fordæmi – allar umsagnir og athugasemdir við skipulagsmál eru aðgengilegar í Skipulagsgáttinni.
Viltu vita meira?
Fyrir stuttu vorum við með námskeið um náttúruvernd og skipulagsmál hjá Landvernd og stefnum við á áframhaldandi fræðslu til almennings um þessi mál. Að auki er öllum frjálst að leita til skrifstofu Landverndar og fá ráðgjöf í málum sem varða hagsmuni náttúrunnar og lífríkisins. Endilega fylgist með starfi Landverndar á vefnum okkar og samfélagsmiðlum.
Greinin birtist fyrst í Heimildinni 21. apríl 2024.