Ingvi Þ. Þorsteinsson náttúrufræðingur, einn af stofnendum Landverndar, er fallinn frá á 95. aldursári. Hann fæddist í Reykjavík 28. febrúar 1930 og lést á skírdag 2024.
Ingvi var einn af máttarstólpum Landverndar og sat lengi í stjórn samtakanna. Á 70 ára afmæli Ingva heiðruðu félagar í Landvernd hann með því að gróðursetja afmælislund i Alviðru, náttúru- og fræðslusetri Landverndar í Ölfusi. Lundinn nefndu þeir Ingvalund.
Ingvi lagði gjörva hönd á plóg á sviði gróðurverndar og uppgræðslu lands. Hann starfaði sem sérfræðingur í gróðurfræði og deildarstjóri frá 1957 á Atvinnudeild Háskóla Íslands, síðar Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti (RALA) þar sem hann stjórnaði m.a. gróðurkortagerð og öðrum gróðurrannsóknum með það að markmiði að mæla og kanna flatarmál og eðli gróðurs landsins. Auk starfa við RALA sinnti Ingvi starfi fulltrúa Landgræðslu ríkisins árin 1965-70.
Hann var einnig meðal stofnenda og formaður samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs, árin 1997-2001. Ingvi ritaði fjölda greina í blöð og tímarit um gróðurvernd, landnýtingu og önnur umhverfismál. Hann hlaut landgræðsluverðlaunin árið 1997.
Landvernd minnist Ingva, þakkar honum mikilvæg störf í þágu náttúruverndar og sendir fjölskyldu hans hjartans samúðarkveðjur.
Þorgerður M. Þorbjarnardóttir
formaður Landverndar, f.h. stjórnar og starfsfólks