Ísland – rafmagnslaust eða hugsunarlaust?

Ljós á jörðu. Það er ekki rafmagnslaust á Íslandi. landvernd.is
Tryggvi Felixson bendir á að engin þjóð í heiminum framleiði jafn mikið rafmagn á íbúa og Íslendingar. Langbesti virkjunarkosturinn sem standi til boða sé að bæta nýtni orkunnar og styrkja flutningsnetið.

Tryggvi Felixson formaður Landverndar skrifar

Þeir sem ein­ungis hafa lesið fyr­ir­sagnir í fjöl­miðlum og stutt skila­boð á sam­fé­laga­miðlum gætu haldið að Ísland væri u.þ.b að verða raf­magns­laust.

Sem betur fer er ástandið annað og betra. Engin þjóð í heim­inum fram­leiðir jafn mikið raf­magn á íbúa og Íslend­ing­ar. Það er raunar svo mikið að við getum ráð­stafað 80% orkunnar til fáeinna orku­frekra fyr­ir­tækja.

Þessi fyr­ir­tæki hafa einmitt komið sér fyrir á Íslandi vegna þess að orku­verðið er mjög hag­stætt miðað við það sem þeim býðst ann­ars­stað­ar.

Því er engin ástæða til að hafa áhyggjur af að ekki sé eða verði til nægj­an­legt raf­magn til að lýsa upp heim­ili lands­manna eða að lífs­kjörum verði ógnað með raf­magns­leysi.

Er þá ekk­ert að?

Jú! Það er til­fallandi vanda­mál fyrir loðnu­bræðslur og álver að sum­arið 2021 rigndi lítið á hálend­inu suð­vestan Vatna­jök­uls.

Séstaklega fyrir þau sem hafa með­vitað samið um að nýta svo­kall­aða skerð­an­lega orku (mætti kannski kalla „um­fram afl“) á góðum kjörum.

Slíkt ger­ist reglu­lega og er því ekki stór­frétt.

Það dró svo enn frekar úr afl­getu kerf­is­ins að bilun varð í einni vatns­afls­virkjun og reglu­legt við­hald er í gangi í einni jarð­varma­virkj­un.

Við þetta tíma­bundna ástand þarf að sýna fyr­ir­hyggju beita ákvæðum um að stöðva sölu á skerð­an­legri orku – sem orku­fyr­ir­tækin gera þegar verður að tryggja föstum kaup­endum þá raf­orku sem þeir hafa samið um.

Þarf meira raf­magn fyrir orku­skipt­in?

Orku­skiptin taka tíma og ger­ast í áföng­um. Við erum í fyrsta áfanga, orku­skipti í mann­flutn­ingum á landi. Þau ganga nokkuð vel, en þeim þarf að hraða til að ná 55% mark­mið­inu um sam­drátt 2030 og jarð­efna­elds­neyt­is­laust Ísland 2040, sem ný rík­is­stjórn hefur sett á dag­skrá.

Raf­orkunn­ar, sem þarf til fyrsta áfanga í orku­skipt­un­um, má afla með því að bæta nýtni orkunnar og styrkja flutn­ings­netið (skv. upp­lýs­ingum frá Orku­veitu Reykja­vík­ur). Þetta tvennt er lang­besti virkj­un­ar­kost­ur­inn sem stendur til boða!

En hvað með orku­skipti á sjó og í inn­an­lands­flugi?

Nokkrum hugs­an­legum tækni­legum lausnum hefur verið lýst með almennum hætti; hver þeirra verður fyrir val­inu ræður miklu um hversu mikla raf­orku þarf fyrir þann þátt orku­skipt­anna. Segja má að fyrstu skref orku­skipta á sjó séu hafin með Herj­ólfi sem siglir á milli lands og Eyja knú­inn raf­magni. Nú bendir ýmis­legt til þess að fyrir lengri skipa­ferðir verði raf­elds­neyti nauð­syn­legt, en það kann að breyt­ast með örum tækni­fram­för­um. Ef raf­mót­orar verða megin úrræðið fyrir orku­skipti í skipum eða inn­an­lands­flugi verður orku­þörfin mun minni en ef fram­leiða þarf raf­elds­neyti, til að mynda vetni, ammón­íak eða met­anól.

Í nýlegri skýrslu sem birt­ist á heima­síðu Sam­orku segir að til að fram­leiða það raf­elds­neyti sem þarf til að klára orku­skipti í haf­tengdri starf­semi er áætlað að árlega þurfi um 3.5 TWh af raf­orku, eða tæp­lega 20% þeirrar raf­orku sem fram­leidd er í dag. En ef tekst að nýta raf­magnið með beinum hætti verður orku­þörfin umtals­vert minni. Afskrift­ar­tími skipa er allt að 40 ára og margar nýjar og hag­kvæmar lausnir eiga eflaust eftir að koma fram á þeim tíma. Hugs­an­lega verðu ein­hver stór­iðja á Íslendi afskrifuð á þessum tíma þannig bundin raf­orka losnar til ann­ara brýnna þarfa.

Ódýra orkan er hreint ekki svo ódýr

En hvað með alla hina sem vilja kaupa meiri orku til að skapa atvinnu og verð­mæti fyrir þjóð­ar­bú­ið? Lands­virkjun seg­ist ekki geta svarað eft­ir­spurn – að áhuga­samir kaup­endur séu handan við horn­ið. Þá er gott að hafa í huga að lík­lega er eft­ir­spurn eftir „ódýrri orku“ óend­an­leg og því ómögu­legt að mæta henni. Ef raf­magns­verð end­ur­spegl­aði þann óbeina kostnað sem felst í eyði­legg­ingu íslenskrar nátt­úru er afar lík­legt að eft­ir­spurn eftir orku væri minni í dag en raun er.

Meng­un­ar­bóta­reglan var inn­leidd í íslensk lög 2012. Skv. henni skal sá er mengar bera kostn­að­inn af því umhverfistjóni er af athæf­inu hlýst. Því miður hefur regl­unni ekki verið beitt við verð­lagn­ingu á raf­magni hér­lend­is, þrátt fyrir ráð­legg­ingar OECD þar um.

For­gangs­röðun í þágu mann­lífs og nátt­úru

Það er engin ástæða til að ótt­ast að vel­sæld á Íslandi fram­tíðar verði ógnað þó vöxtur í orku­fram­leiðslu verði tak­mark­aður næstu ára­tugi. Við sem þjóð höfum val. Ann­ars vegar um leið mik­illar orku­vinnslu sem mun spilla nátt­úru lands­ins enn frek­ar. Hins vegar leið betri nýtni og for­gangs­röð­unar þar sem gætt er að vernd nátt­úru, víð­erna og lands­lags og hlúð er að atvinnu­líf­inu almennt. Er ekki tími þekk­ing­ar­sam­fé­lags­ins runn­inn upp á Ísland­i?

En nátt­úru­vernd og lofts­lags­vernd verða að hald­ast í hend­ur.

Almenn sam­staða ríkir um það mark­mið að nýta orku­lindir Íslands til nauð­syn­legra umskipta í orku­bú­skapnum og mæta brýnum þörfum fram­tíð­ar­inn­ar. En nátt­úru­vernd og lofts­lags­vernd verða að hald­ast í hend­ur. Þar ætti því að vera for­gangs­verk­efni að bæta nýt­ingu á fyr­ir­liggj­andi mann­virkj­um, lag­færa flutn­ings­kerfið og for­gangs­raða í hvað orkan fer, til að skapa svig­rúm til að leysa af hólmi jarð­efna­elds­neyti í sam­göngum á landi.

Við­fangs­efnið er leys­an­legt án þess að verð­mætri nátt­úru og lands­lagi verði fórnað undir stór­kalla­leg orku­mann­virki. Ef þörf er fyrir frek­ari orku­öflun en nú er, þarf að meta vand­lega hvar og með hvaða hætti það verður best gert. Ramma­á­ætlun og vandað mat á umhverf­is­á­hrifum sem mark er tekið á, mun leiða að far­sælli nið­ur­stöðu. Óða­got í virkj­un­ar­á­formum vegna meints orku­skorts leiðir okkur í ógöngur og til sund­ur­lynd­is.

Höf­undur er for­maður Land­vernd­ar.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 14. desember 2021

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd