Þann 4. desember síðastliðinn hélt loftslagshópurinn táknrænan gjörning á Granda. Gjörningurinn var fólginn í því að fara fram til ársins 2035 og kveðja jarðefnaeldsneyti í eitt skipti fyrir öll. Með gjörningnum vildi hópurinn vekja athygli á því að Íslendingar hafa ekki sett sér nein markmið um það hvenær hætt verður að nota jarðefnaeldsneyti hér á landi.
Af jörðu ertu komin, að jörðu skaltu aftur verða. Í jörðu skaltu að eilífu óáreitt hvíla.
Hópurinn kom með ýmsar kröfur sem fólu t.d. í sér að Ísland yrði olíulaust árið 2035 og að innflutningi á bensín og dísel bifreiðum verði hætt árið 2023. Auk þess yrðu almenningssamgöngur alveg án olíu fyrir 2025. Davíð Þór stýrði jarðarförinni og fór með minningarorð. Kórmeðlimir úr ýmsum áttum sungu tvo sálma og að athöfn lokinni var haldið til erfisdrykkju á Slippbarnum.
Loftslagshópurinn er grasrótarhópur innan Landverndar. Þar koma saman félagsmenn úr Landvernd sem vilja hafa áhrif og grípa til aðgerða í loftslagsmálum. Hópurinn skipuleggur ýmsa viðburði og gjörninga í þágu umhverfisins. Í tilkynningu frá grasrótinni kemur fram að gjörningurinn hafi verið er ein af mörgum aðgerðum hópsins til að krefjast þegar í stað aðgerða í loftslagsmálum, sem nauðsynlegar eru eigi að vernda komandi kynslóðir og náttúruna.
„Á Íslandi er auðvelt að útfasa jarðefnaeldsneyti en stjórnvöld þurfa að stiga fram af miklu meiri krafti. Nauðsynlegt er að flýta t.d. orkuskiptum í vegasamgöngum, sem er bæði vel framkvæmanlegt og nauðsynlegt miðað við nýjustu tölur um losun koltvísýrings í vegasamgöngum á Íslandi, sem fer hækkandi þrátt fyrir spár“ að sögn aðila úr loftslagshópnum.
Þórhildur Fjóla, varaformaður Landverndar segir mikilvægt að Íslendingar taki skrefið sem fyrst. „Það þarf kjark og útsjónarsemi til þess að vera fyrirmynd; til að taka erfiðar, en til lengri tíma litið skynsamlegar ákvarðanir. Það er augljóst að Ísland getur verið sjálfbært um orku og því ætti það að vera sjálfsagt mál að setja okkur slíkt markmið“.
Hér má sjá allar kröfur hópsins um #olíulaustÍsland2030
2020 Auka fjármagn í nýsköpun og þróun fyrir notkun hreinna orkugjafa í flugsamgöngum í samstarfi við grannþjóðir
2023 Banna innflutning á bensín og díselbílum
2025 Banna innflutning vinnuvélum og tækjum sem ekki ganga fyrir hreinum orkugjöfum
2025 Öll opinber framkvæmdasvæði noti eingöngu tæki sem ganga fyrir hreynum orkugjöfum
2025 Jarðefnaeldsneytislausar almenningssamgöngur á landi
2030 Markmið um fyrsta raffarþegaflug innanlands
2030 Jarðefnaeldsneytislausar landssamgöngur
2030 Jarðefnaeldsneytislausar sjósamgöngur
2035 Jarðefnaeldsneytislaus fiskiskipafloti
2035 Markmið um rafvæðingu millilandaflugs