Jarðstrengir raunhæfur valkostur til flutnings raforku

Ný úttekt Metsco Energy Solutions Inc. í Kanada sýnir að jarðstrengir á háum spennustigum eru orðnir valkostur við loftlínur í byggingu raflína.

Ný óháð úttekt á kostnaði við jarðstrengi og loftlínur sýnir að kostnaðarmunur er fjarri því að vera margfaldur, líkt og haldið hefur verið fram hérlendis til þessa.

Niðurstaðan er ótvíræð: báðir valkostir eru raunhæfir og ekki verður hjá því komist að taka bæði jarðstrengi og loftlínur til skoðunar þegar ákvarðanir eru teknar um einstök verkefni í flutningskerfinu. Skýrslan sýnir að jarðstrengur er aðeins um 20% dýrari sé miðað við 220 kílóvolta (kV) raflínu með 400 megavoltampera (MVA) flutningsgetu. Enginn munur er á 132kV spennu. Í úttektinni er gerður almennur samanburður á jarðstrengjum og loftlínum, en rík áhersla er lögð á að skoða þurfi hvert verkefni fyrir sig. Skýrslunni er ekki síst ætlað að nýtast við umræðu á Íslandi vegna áætlana um uppbyggingu í flutningskerfi raforku. Metsco Energy Solutions Inc. í Kanada vann skýrsluna að beiðni Landverndar og hana má finna í viðhengi.

Ólíkir kostir jarðstrengja og loftlína

Í skýrslu Metsco eru dregnir saman helstu kostir jarðstrengja og loftlína. Það sem helst mælir með notkun jarðstrengja er fagurfræðilegt og umhverfislegt gildi, minni orkutöp, lægri rekstrarkostnaður og engin áhrif veðurs, seltu og ísingar. Hinsvegar eru loftlínur ódýrari í byggingu, auðveldari að gera við og veita meira svigrúm til aukningar á flutningsgetu, þó að á móti komi að óveður, selta og ísing geta í verstu tilfellum leitt til ótímabærrar endurbyggingar stórra loftlínukafla.
Hröð tækniþróun og lækkandi verð á jarðstrengjum
Í skýrslu Metsco segir að enda þótt loftlínur séu enn ríkjandi í flutningskerfum í heiminum, hafi tækninýjungar og lækkandi verðlag jarðstrengja á síðustu áratugum gert notkun þeirra sífellt vænlegri kost. Þetta gildir einnig um Ísland. Þó nákvæmar tölur liggi ekki fyrir hefur reynsla af jarðstrengjum almennt verið góð með tilliti til reksturs og áreiðanleika.

Líta verður til líftímakostnaðar við samanburð

Í skýrslunni er lögð áhersla á að einungis sé hægt að gera raunverulegan samanburð á kostnaði jarðstrengja og loftlína með því að taka tillit til bæði stofn- og rekstrarkostnaðar eða svokallaðs líftímakostnaðar (e. life-cycle costs). Þannig má almennt búast við að heildarkostnaður fyrir dæmigerða 120 km línulengd í dreifbýli sé eins og hér segir (sjá nánar í viðhengi). Tölur eru í milljónum evra og samanburður sýnir að einungis 4% munur er á kostnaði á 132kV spennu og 20% á 220kV, loftlínum í vil, eða umtalsvert minni munur en áður hefur verið talinn hérlendis. Þá kostar umtalsvert minna að leggja 132 kV jarðstreng en að reisa 220 kV loftlínu.

Gert er ráð fyrir að nútíma jarðstrengir endist í að minnsta kosti 60 ár, líkt og loftlínur, en ekkert bendir til annars ef þess er gætt að reka þá innan hitaþolsmarka sem þeir eru hannaðir fyrir.

Nýjar loftlínur á umdeildum svæðum fara fyrr í jörð en ráðgert er

Í skýrslunni er vikið að því að hafa beri í huga að séu loftlínur byggðar á umdeildum svæðum, svo sem þar sem náttúruverndarsjónarmið eiga við, sé ekki ólíklegt að þær línur verði rifnar og settar í jörð áður en 60 ára líftíma þeirra yrði náð, sem aftur leiðir til þess að slík fjárfesting væri óhagkvæm.
Þá segir í skýrslunni að við ákvörðun um hvort leggja skuli jarðstreng eða loftlínu þurfi að skoða heildarmyndina. Vega þurfi og meta margvíslega hagsmuni og áhrifin á náttúru og umhverfi, fyrirtækin í landinu og þjóðarbúið í heild. Segir í skýrslunni að sjónræn áhrif loftlína geti skaðað verulega þau verðmæti sem felast í lítt snortinni náttúru og fallegu landslagi, ekki síst þar sem að á Íslandi sé að finna ein síðustu stóru víðerni Evrópu. Huga þurfi meðal annars að því hvaða áhrif nýjar loftlínur hefðu á ferðaþjónustu, sem sé vaxandi atvinnugrein á Íslandi.
Niðurstaðan er mikilvæg fyrir umhverfis- og náttúruvernd
Landvernd hefur lengi lagt ríka áherslu á að umhverfisáhrif jarðstrengja og loftlína séu skoðuð til jafns þegar einstakar línuleiðir eru skoðaðar, en Landsnet hefur hingað til hafnað því á grundvelli meints kostnaðarmunar á jarðstrengjum og loftlínum á háu spennustigi. Þá telur Landvernd að ekki verði lengur skorast undan því að skoða gaumgæfilega mismunandi kosti við framtíðarhönnun meginflutningskerfisins, líkt og á næstunni verður sett fram hugmynd að í svokallaðri kerfisáætlun Landsnets til ársins 2023. Með samanburði umhverfisáhrifa þessara tveggja kosta má lágmarka neikvæð áhrif raforkuflutningskerfisins á umhverfi og samfélag og taka upplýstari ákvarðanir um svo mikilvægt samfélagsmál sem hér um ræðir. Niðurstöður Metsco sýna svo ekki verður um villst að jarðstrengslausnum á hærri spennustigum verður ekki lengur ýtt út af borðinu á grundvelli kostnaðarmunar við loftlínur. Hugmyndir um byggingu slíkra loftlína eru m.a. í Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjasýslum, á Reykjanesskaga og Sprengisandi.

Ný nálgun nauðsynleg

Landvernd telur að leggja þurfi stóraukna áherslu á samráð á fyrri stigum þegar breytingar eða uppbygging í raforkukerfinu er fyrirhuguð. Slíkt er í takti við auknar áherslur um þátttöku almennings í ákvarðanatöku í samfélaginu. Í því felst að skoða þarf uppá nýtt hugmyndir um hvernig uppbyggingin á að eiga sér stað og meðal annars hvort sú stefna Landsnets að leggja fáar línur og öflugar er heppileg þegar allir þættir hafa verið metnir. Í upphafi þarf framkvæmdaraðili að gera grein fyrir þörfinni á uppbyggingu flutningskerfisins í heild og lagningu raflínu frá A til B hvað varðar einstakar framkvæmdir og útskýra hvað þar býr að baki. Í kjölfarið er ákveðið hversu öflugt flutningskerfið og einstakir hlutar þess þurfa að vera og loks þarf að skoða mismunandi leiðir, jarðstrengi eða loftlínur. Allt þetta þarf að ræða á opnum vettvangi við mismunandi hagsmunaaðila, þar með talið landeigendur, sveitarfélög og náttúruverndar- og útivistarfélög. Aðeins þannig næst víðtæk sátt um lagningu raflína. Eftirlit með Landsneti er í höndum Orkustofnunar og Skipulagsstofnun hefur yfirumsjón með umhverfismati. Þessum stofnunum þarf almenningur að veita aðhald. Landvernd er staðráðið í því að gæta hagsmuna náttúru, umhverfis og almennings í landinu í þessu máli og mun veita Landsneti og eftirlitsstofnunum það aðhald sem samtökunum er framast unnt.

Litið verði sérstaklega til viðkvæmra svæða

Þá ályktun má draga af skýrslu Metsco að með tilliti til kostnaðar má auðveldlega setja raflínur í jörð án óhóflegs viðbótarkostnaðar, og ætti þar skilyrðislaust að líta til viðkvæmra svæða, t.d. náttúruverndarsvæða, svæða þar sem loftlínur gætu truflað flugumferð eða þar sem veðurfar ógnar öryggi loftlína og afhendingaröryggi rafmagns. Í ölllum tilvikum er þó mikilvægt að bera saman umhverfisáhrif þessara tveggja kosta svo ávallt megi lágmarka neikvæð áhrif raflína á umhverfi og samfélag.

 

Metsco skýrsla. Comparison of underground and overhead transmission options in Iceland 2013 landvernd.is
Smelltu á myndina til að lesa skýrslu Metsco

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd