Í dag, föstudaginn 9. nóvember flaggaði Kvennaskólinn í Reykjavík sínum fyrsta Grænfána.
Daginn fyrir Grænfánaafhendinguna var Umhverfisdagur Kvennaskólans haldinn í fyrsta sinn. Aðalviðfangsefni dagsins var tyggigúmmí. Nemendur fengu það verkefni að safna tyggjóklessum í umhverfisvæna poka og kepptu bekkirnir um hver safnaði mestu. Einnig átti hver og einn bekkur að taka ljósmyndir tengdar verkefninu.
Við Grænfánaafhendinguna voru svo verðlaun veitt fyrir mestu tyggjósöfnunina, bestu ljósmyndina, metnaðarfyllstu ljósmyndina og ljósmynd sem sýndi mest listfengi. Verðlaunin voru Gjöf sem gefur frá Hjálparstofnun kirkjunnar, hreint vatn handa 140 manns. Myndir frá þessum skemmtilega viðburði má sjá á heimasíðu Kvennaskólans.
Grænfánaafhendingin fór fram í matsal skólans þar sem fulltrúi umhverfisnefndarinnar afhenti ljósmyndaverðlaunin. Því næst var hlustað á tónlistaratriði og eftir það afhenti Salome Hallfreðsdóttir á Landvernd Grænfánann formlega. Að lokum tók Ingibjörg Guðmundsdóttir, skólameistari Kvennaskólans, til máls og hvatti nemendur til dáða í umhverfismálum.
Fáninn var svo dreginn að húni fyrir utan skólann þar sem hann mun blakta og minna okkur á mikilvægi þess að huga vel að umhverfinu.
Sjá frétt á heimasíðu Kvennaskólans um Grænfánaafhendinguna.
„