Dr. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna, um landeyðingu og loftslagsbreytingar.
Þessa dagana koma þjóðir heims saman á 23. aðildaríkjaþingi loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna í Bonn í Þýskalandi. Á ráðstefnunni er leitað leiða til að ná þeim markmiðum sem samið var um á loftslagsráðstefnunni í París fyrir 2 árum. Þó ráðstefnan sé nú haldin í Bonn þá eru það Fiji-eyjar sem sitja í forsæti ráðstefnunnar þetta árið. Fiji-eyjar urðu til í eldgosum eins og Ísland. Þær eru um 300 talsins og eyjaskeggjar telja um eina milljón manns. Þrátt fyrir að vera ein þeirra þjóða sem losa minnst af gróðurhúsalofttegundum þá er talið að eyjarnar muni verða fyrir einna mestum áhrifum loftslagsbreytinga á heimsvísu.
En það eru ekki aðeins íbúar Fiji-eyja sem verða fyrir barðinu á loftslagsbreytingum. Loftslagsbreytingar ógna allri jörðinni og því magnaða lífríki sem hún hýsir.
Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að í starfi mínu fyrir Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hef ég ferðast á nokkra fjarlæga staði á jörðinni. Ég hef fengið að kynnast fólki sem hefur lífsviðurværi sitt beint af landinu. En því miður hef ég líka komist að því að loftlagsbreytingar og landeyðing ógna nú tilveru þessa fólks.
Fyrir ári síðan heimsótti ég hirðingja í Gobi eyðimörkinni í Mongólíu. Eins og sönnum Mongólum sæmir voru þau afar gestrisin, buðu mér inn í hirðingjatjaldið sitt þar sem þau reiddu fram dýrindis kameldýramjólk. En þó það sé hlýtt inni í tjaldinu og að kameldýramjólkin sé sæt og góð á bragðið þá breytir það ekki þeirri staðreynd að lífsbaráttan er hörð í Gobi eyðimörkinni. Veturnir eru nú harðari en áður, búpeningur deyr og gestrisnu hirðingjarnir kvíða vetrinum.
Í annarri heimsálfu er Níger – stórt land í Vestur Afríku, 12x stærra en Ísland. Í Níger býr afar fallegt og gott fólk en þar er líka sár fátækt og fæðuöryggi lítið. Loftslagsbreytingar eru mikil ógn í landi eins og Níger þar sem 3/4 hlutar þess eru eyðimörk og meirihluti landsmanna treysta á landbúnað til að tryggja sér lífsviðurværi. Í Níger hafa miklir þurrkar herjað á landið síðustu ár, fæðuóöryggi og fátækt hefur aukist. Einnig hefur landið ekki farið varhluta af ófriði sem herjað hefur í þessum heimshluta.
Það skiptir ekki máli hvort við búum í Mongólíu, Níger eða Íslandi – við reiðum okkur öll á þá þjónustu sem vistkerfi landsins veita okkur og við verðum öll fyrir áhrifum af loftslagsbreytingum.
Það má þó gera ráð fyrir því að fólk í fátækari löndum heims sé varnarlausara fyrir áhrifum loftslagsbreytinga á landið og lífsviðurværi sitt. En það gerir okkur ekki stikkfrí. Við berum öll ábyrgð á því hvernig við umgöngumst móður jörð og okkar gjörðir hér í Norðurhöfum hafa ekki bara áhrif á okkur heldur einnig á systur okkar og bræður í öðrum löndum og heimsálfum.
En hvert er ástand lands á heimsvísu? Það er talið að landeyðing herji á um 10-20% lands í heiminum og meira en helmingur lands sem nýtt er undir landbúnað er í slæmu ástandi vegna jarðvegseyðingar. Ný samantekt sýnir að á síðustu 20 árum hefur 16% meira land verið nýtt til ræktunar, landbúnaðarframleiðsla hefur þrefaldast og 24 milljarðar tonna af jarðvegi hafa tapast vegna jarðvegsrofs. Á sama tíma er milljarður manna vannærður og 700 milljónir manna gætu lent á vergangi fyrir árið 2030 vegna vatnsskorts af völdum loftslagsbreytinga og landeyðingar.
Það má orða það svo að loftslagsbreytingar og landeyðing séu banvæn blanda og í baráttunni við loftslagsbreytingar er afar mikilvægt að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu og endurheimta röskuð vistkerfi.
Það er áætlað að um 25% af heildarlosun gróðurhúsalofttegunda í heiminum sé vegna landnotkunar. En landið getur bæði verið hluti af vandamálinu og lausninni þegar kemur að loftslagsbreytingum. Annars vegar veldur ósjálfbær landnýting og hrein landeyðing því að kolefni losnar út í andrúmsloftið og eykur enn á hlýnun jarðar. Hins vegar getur landið (bæði gróður og jarðvegur) bundið töluvert magn kolefnis þegar vistkerfi eru endurheimt.
Það hefur verið gróflega áætlað að á Íslandi hafi ígildi 440 – 1800 milljón tonna CO2 losnað vegna jarðvegs-og gróðureyðingar frá landnámi. Þessar tölur gætu verið hærri.
Og enn er ástandið hérlendis slæmt. Skipting losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi eftir uppruna eins og hún birtist í skilum til loftlagssamningins er sláandi. Árið 2015 má til að mynda rekja um 70% af losun gróðurhúsalofttegunda til landnýtingar, breytinga á landnotkun og skógræktar. Vissulega þurfum við að huga að mörgu til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, og eitt útilokar ekki annað. Það verður þó ekki fram hjá því litið að tækifæri til metnaðarfullra markmiða liggja ekki síst í endurheimt vistkerfa, s.s. með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.
Landgræðsla bindur kolefni í jarðvegi og gróðri. Bindingin er nú um 2,2 tonn CO2 á hektara á ári og eftir að gróðri hefur verið komið til á áður ógrónu landi, þá heldur kolefnið áfram að safnast fyrir.
Það er mikilvægt að auka verulega landgræðslu, stöðva hnignun og rof á grónu landi og styrkja gróður þar sem hann nær ekki að viðhalda kolefnisforða jarðvegsins. Kolefnisbinding í jarðvegi er varanleg aðgerð og því mjög eftirsóknarverð. Hún bætir vatnsmiðlun jarðvegsins og gerir vistkerfin bæði frjósamari og heilbrigðari.
Skógar gegna einnig mikilvægu hlutverki í baráttunni gegn loftslagsbreytingum þar sem verulegt magn kolefnis binst í skógi. Það er talið að við landnám hafi birkiskógar þakið verulegan hluta láglendis landsins. Skógarhögg, ofbeit og kolagerð áttu stærstan þátt í því að flatarmál skóglendis er nú aðeins brot af upprunalegri þekju skóga hér á landi og til að mynda þekja birkiskógar og kjarr nú aðeins um 1,5%.
Á Íslandi er mesta losun gróðurhúsalofttegunda frá landi frá framræstu votlendi. Þegar votlendi er ræst fram nær súrefni niður í jarðveginn og plöntuleifar byrja að rotna. Við það losna gróðurhúsalofttegundir sem berast út í andrúmsloftið. Gróðurhúsalofttegundirnar halda svo áfram að losna á meðan lífrænt efni er til staðar og framræsla virk sem getur varað í áratugi.
Um 4.200 km2 votlendis hafa verið ræstir frá á Íslandi sem er rúmlega helmingurinn af stærð Vatnajökuls. Þó eru aðeins innan við 15% (um 570 km2) þess lands nýtt til jarðræktar og um 1% (36 km2) eru ræktaðir nytjaskógar eða birkiskógar. Um 86% af framræstu landi stendur utan túna og skóga. Það er því augljóst að miklir möguleikar eru að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með endurheimt votlendis – án þess að skerða land sem nýtt er til jarðræktar eða undir skóg. Að endurheimta votlendi skilar samkvæmt samantekt loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna á rannsóknum á mýrum á Norðurslóðum samdrætti í losun gróðurhúsaloftttegunda upp á 20 tonn CO2 ígilda á hektara á ári. Íslenskar rannsóknir styðja þetta mat Sameinuðu þjóðanna.
Það er því ekki eftir neinu að bíða. Leggjum fé í rannsóknir og aðgerðir til að endurheimta röskuð vistkerfi. Við höfum ekki efni á að sleppa því.
Pistillinn birtist fyrst hér í Samfélaginu á Rás 1, fjallar Dr. Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu Þjóðanna, um landeyðingu og loftslagsbreytingar. Hún tekur dæmi frá Gobi eyðimörkinni í Mongólíu, Níger og Íslandi og sýnir að loftslagsbreytingar og landeyðing eru banvæn blanda og í baráttunni við loftslagsbreytingar er afar mikilvægt að stöðva jarðvegs- og gróðureyðingu og endurheimta röskuð vistkerfi.