Landsnet og umhverfismál

Stóriðjulínur á hálendinu? nei takk, landvernd.is
Landvernd hefur á undanförnum árum veitt Landsneti hf. öflugt aðhald í umhverfismálum. Það hefur einkum beinst að áætlanagerð Landsnets (kerfisáætlun) og umdeildum framkvæmdum, þar á meðal Sprengisandslínu. Mörg mál bíða úrlausnar dómstóla og annarra yfirvalda, þar sem reynir á stöðu umhverfismála.

Landvernd hefur á undanförnum árum veitt Landsneti hf. öflugt aðhald í umhverfismálum. Það hefur einkum beinst að áætlanagerð Landsnets (kerfisáætlun) og umdeildum framkvæmdum, þar á meðal Sprengisandslínu. Mörg mál bíða úrlausnar dómstóla og annarra yfirvalda, þar sem reynir á stöðu umhverfismála.

Dómsmál vegna kerfisáætlunar

Í janúar 2015, stefndi Landvernd Landsneti fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur til ógildingar á kerfisáætlun 2014–2023. Landvernd telur fyrirtækið hafa brotið lög með því að taka ekki afstöðu til innsendra athugasemda almennings í umhverfismati áætlunarinnar. Aðild Landverndar að málinu var viðurkennd en samtökin töpuðu málinu efnislega í héraði og áfrýjuðu til Hæstaréttar. Málið bíður nú málflutnings þar.

Reynir á gjafsóknarákvæði

Landvernd sótti um gjafsókn í dómsmálinu gegn Landsneti. Innanríkisráðuneytið hafnaði því, að undangenginni neikvæðri umsögn gjafsóknarnefndar. Landvernd kærði málið til Umboðsmanns Alþingis, sem krafði innanríkisráðherra skýringa. Ráðuneytið svaraði með því að senda málið aftur til gjafsóknarnefndar, sem aftur gaf neikvæða umsögn. Landvernd hefur borið málið á nýjan leik undir Umboðsmann.

Innanríkisráðherra hefur nú lagt fram á Alþingi lagafrumvarp sem útiloka myndi alfarið gjafsókn til umhverfisverndarsamtaka. Slíkt verður að teljast í andstöðu við Árósasamninginn, alþjóðasamning sem á m.a. að tryggja aðgang umhverfisverndarsamtaka að réttlátri málsmeðferð.

Raflína frá Kröflu að Bakka – um Leirhnjúkshraun

Í mars 2015 óskaði Landvernd eftir því við Skipulagsstofnun að nýtt umhverfismat yrði gert fyrir þær raflínur sem nú eru í bígerð frá Kröflu að Bakka. Álver á Bakka er ekki lengur á döfinni og raforkuþörf kísilversins og annarra mögulegra verkefna er margfalt minni en álvers. Því koma aðrar lausnir og umhverfisvænni eðlilega til skoðunar. Ný framkvæmd kallar á nýtt umhverfismat. Skipulagsstofnun hafnaði aðild Landverndar að kröfu um nýtt umhverfismat. Þá ákvörðun kærði Landvernd og bíður það mál nú úrskurðar. Engin afstaða hefur enn verið tekin til samsvarandi kröfu nokkurra landeigenda á svæðinu.

Landsnet neitar að afhenda gögn

Landvernd fór fyrir einu ári fram á að Landsnet afhenti samtökunum afrit af skýrslu sem fyrirtækið lét gera um fýsileika þess að leggja jarðstrengi í stað loftlína. Aðeins var birt íslensk samantekt skýrslunnar sem er á ensku. Landsnet vísaði mjög í þessa skýrslu í rökstuðningi fyrir því að ekki væri unnt að leggja jarðstreng lengri en 50 km um Sprengisand. Fyrirtækið neitar að afhenda frumskýrsluna. Þetta mál er prófsteinn á ákvæði laga um rétt til upplýsinga um umhverfismál, sem sáralítið hefur reynt á þrátt fyrir að þau hafi gilt í áratug. Landvernd bíður enn niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál varðandi aðgang að jarðstrengjaskýrslunni og að samningi sem Landsnet gerði við fyrirtækið PCC.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd