Stjórn Landverndar fagnar þeirri ákvörðun umhverfisráðherra og Skaftárhrepps að fella Langasjó og hluta af Eldgjá undir Vatnajökulsþjóðgarð sem er stærsti þjóðgarður Evrópu. Langisjór, bæði vatnið og aðliggjandi svæði, býr yfir miklum náttúrutöfrum og landslag stórbrotið.
Landvernd hefur um árabil lagt að stjórnvöldum að stækka Vatnajökulsþjóðgarð og friða Langasjó sem liggur við upptök Skaftár og Tungnaár í túnfæti þjóðgarðsins. Í þeim tilgangi að vekja athygli á einstöku náttúruverndargildi svæðisins hafa samtökin bæði skipulagt vettvangsferðir og málþing.
Landslagið sem hér um ræðir hefur mikið verndargildi og er svæðið kjörlendi útivistarfólks og aðkoma að svæðinu nokkuð greið. Með stækkun þjóðgarðsins er stigið enn eitt skref í þeirri viðleitni að styrkja stöðu náttúruverndar og ímynd Íslands sem einstakrar náttúruperlu. Ákvörðunin mun einnig vekja athygli á Skaftárhreppi sem ákjósanlegum áfangastað náttúruunnenda.
Á heimasíðu Landverndar segir um Langasjó: „Langisjór er langstærsta tæra fjallavatn landsins. Þessari náttúruperlu á hálendi Íslands er oft lýst sem einum fegursta stað á landinu. Langisjór er í miðju ósnortnu víðerni, þar sem gífurleg eldvirkni hefur mótað stórbrotna náttúru með mörgum jarðmyndunum, sem hver fyrir sig er einstæð á Jörðinni. Frá Torfajökli til Vatnajökuls liggja margir beinir móbergshryggir frá suðvestri til norðausturs, sem eru talin einhver bestu dæmi um móbergshryggi og úthafshrygg sem finnast á þurru landi.„
Um Eldgjá er það að segja að hún á upphaf sitt í stórgosi sem varð árið 934 nyrst í Skaftártungu. Í gosinu rifnaði upp 40 km löng sprunga sem liggur frá norðanverðum Mýrdalsjökuli að Gjátindi, svokölluð Eldgjá. Mikið öskufall fylgdi eldsumbrotunum sem olli miklum búsifjum hér á landi og hafði áhrif á veðurfar víða um heim. Frá gosstöðvunum lagði mikið hraun sem í er mikið af fallega löguðum gervigígum. Þetta er svokallað Álftavershraun sem farið er um á Mýrdalssandi.
Landvernd vann á sínum tíma ötullega að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og hafa samtökin alla tíð hvatt til þess að svæðið verði hluti af þjóðgarðinum. Á ráðstefnu Landverndar um tillöguna að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem haldin var á Kirkjubæjarklaustri í september 2002 sagði Jón Helgason frá Seglbúðum, þáverandi formaður samtakanna eftirfarandi: „Fáir munu draga í efa að einstæð, fjölbreytt og hrikaleg náttúra Vatnajökuls og næsta nágrennis hans færir sterk rök fyrir stofnun þjóðgarðs. Undir hinum mikla jökulskyldi kraumar eilífur eldur kominn beint úr iðrum jarðar. óræk merki þess er alltaf hægt að sjá í norðurjaðrinum í undirheimum Kverkfjalla, en öðru hvoru brjótast eldgosin með firnakrafti upp úr jökulbreiðunni miðri. Við austurjaðarinn sjáum við elsta hluta Íslands en að sunnan og vestan er því þveröfugt farið.“
Upplýsingar um ferðir Landverndar og umfjöllun um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að finna á heimasíðu samtakanna, www.landvernd.is