Yfirlýsing stjórnar Landverndar
Stjórn Landverndar fagnar friðlýsingu Dimmuborga og Hverfjalls í Mývatnssveit. Friðlýsingin er mikilvægur áfangi í náttúruvernd hér á landi, en um er að ræða fjölsóttar náttúruperlur sem hafa ekki notið verndar eftir lagabreytingar árið 2004. Með friðlýsingunni gefst mikilvægt tækifæri til að skipuleggja notkun svæðanna, stýra umferð um þau og vernda náttúrufar. Þannig verða svæðin efld enn frekar sem áfangastaðir ferðamanna. Báðir staðirnir hafa gríðarlegt vísinda-, fræðslu- og útivistargildi. Stjórn Landverndar lýsir ánægju sinni með þá samstöðu sem náðist um friðlýsingarnar meðal stjórnvalda og heimamanna og hvetur um leið til þess að fleiri skref verði tekin í þessa átt svo fleiri náttúruperlur Mývatnssveitar fái notið nauðsynlegrar verndar. Þá fagnar stjórn Landverndar því að ríkisstjórnin hafi ákveðið að veita fimm milljónum króna til að tryggja framkvæmd friðlýsingarinnar, uppbyggingu á svæðunum og landvörslu.