Landvernd harmar aðdróttanir í bréfi Kolviðar til Borgarbyggðar

Reynitré og birki í Teigskógi
Reynitré og birki í Teigsskógi

Bréf til Náttúrufræðistofnunar

Frá Landvernd

30.09.2025

 

Kolviður er sjóður sem var stofnaður af Skógræktarfélagi Íslands og Landvernd árið 2006. Markmið sjóðsins er aukin binding kolefnis í gróðri og jarðvegi í þeim tilgangi að draga úr styrk koltvíoxíðs (CO2) í andrúmslofti.

Kolviður sótti um framkvæmdaleyfi fyrir skógræktarverkefni á Iðunnarstöðum og Náttúrufræðistofnun gerði athugasemdir við áformin þann 22. júní 2025. Þann 8. júlí 2025 sendi Kolviður bréf til Borgarbyggðar með svörum við bréfi Náttúrufræðistofnunar.

Fulltrúar í stjórn Landverndar áttu engan þátt í framangreindu bréfi frá 8. júlí sl. sem sent var án samráðs við stjórn Kolviðar. Stjórn Landverndar er samhljóða um að í bréfinu hafi ekki verið sýnd eðlileg háttvísi í samskiptum, sérstaklega þar sem vegið er að Náttúrufræðistofnun með ummælum um að stofnunina skorti heilindi og stundi ‘markvissa dreifingu upplýsingaóreiðu’. Þegar fulltrúar Landverndar áttuðu sig á efni og orðalagi bréfsins óskuðu þeir strax eftir því að málið yrði tekið til umfjöllunar stjórnar Kolviðar og að slík ummæli yrðu dregin til baka. Þetta hefur enn ekki verið gert þrátt fyrir ítrekaðar tillögur þeirra á stjórnarfundum í ágúst og september.

Þrátt fyrir ákvörðun stjórnarfundar 5. ágúst sl. um að senda sameiginlega yfirlýsingu til Náttúrufræðistofnunar, hefur engin samstaða náðst um orðalag. Fulltrúar Landverndar í stjórn gáfustjórninni frest til 25. september til að senda leiðréttingu. Þegar það var ekki gert, sendu þeir eigin yfirlýsingu þar sem þeir lýsa yfir fullu trausti til Náttúrufræðistofnunar. Stjórn Landverndar telur óviðunandi að stjórn Kolviðar skuli ekki hafa getað staðið sameinuð að því að draga til baka ummæli sem veikja trúverðugleika lykilstofnunar í íslenskum náttúrurannsóknum. Í ljósi þess hversu alvarlegt málið er hefur annar fulltrúi Landverndar þegar sagt sig úr stjórn Kolviðar.

Rétt er að taka fram að fulltrúar Landverndar í stjórn áttu frumkvæði að því að tekið hefur verið tillit til margra þeirra þátta sem Náttúrufræðistofnun setur fram í athugasemdum sínum.

Landvernd leggur áherslu á að málefnaleg og fagleg samskipti séu höfð í heiðri þegar ólík sjónarmið um náttúruvernd og skógrækt takast á. Félagið mun beita sér fyrir því að sjóðnum verði stýrt með þeim hætti sem samræmist gildum Landverndar um náttúruvernd, líffræðilega fjölbreytni og virðingu fyrir vísindalegri þekkingu og faglegum vinnubrögðum stofnana á borð við Náttúrufræðistofnun.

 

Með vinsemd og virðingu,

Þorgerður M Þorbjarnardóttir

Formaður stjórnar

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd