Landvernd hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna uppreksturs fjár á Almenninga í Rangárþingi eysta:
Landvernd harmar þá ákvörðun nokkurra bænda í Rangárvallasýslu að reka fé sitt á Almenninga í Rangárþingi eysta, en afrétturinn hefur verið metinn óbeitarhæfur af vísindamönnum Landbúnaðarháskóla Íslands. Með ákvörðun sinni ganga bændurnir þvert gegn stefnu íslenskra stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu auðlinda og skaða ímynd íslensks landbúnaðar. Ákvörðunin hlýtur að vekja neytendur til umhugsunar um afstöðu sína til neyslu lambakjöts sem alið er upp á óbeitarhæfum auðnum landsins. Landvernd telur mikilvægt að ná sátt í þessu máli.
Athugasemdir Landverndar fara hér á eftir:
1. Meirihluti ítölunefndar hvað upp úrskurð sinn þann 18. mars sl. og leyfði beit 50 tvílemba frá 39 bæjum á afréttarlandinu Almenningum í Rangárþingi eystra. Þessi ákvörðun var mjög umdeild og fjölmargir aðilar kærðu hana til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, þ.m.t. Landvernd (sjá viðhengt skjal). Ráðherra skipaði í kjölfarið yfirítölunefnd sem ætlað er að kveða upp úrskurð sinn í haust. Í ljósi þess að niðurstaða yfirítölunefndar liggur ekki fyrir, er ákvörðun þeirra bænda sem beitarrétt eiga á Almenningum og nú hafa rekið fé sitt þangað í sumar ekki til þess fallin að skapa sátt um þetta mál, sem segja má að sé prófmál um stefnu Íslendinga varðandi beit á auðnum landsins.
2. Landvernd gerði alvarlegar athugasemdir við rökstuðning meirahluta ítölunefndar frá 18. mars sl. Samtökin bentu m.a. á að ítölugerð hefði ekki byggt á beitarþolsrannsóknum eins og lög gera ráð fyrir, og að fyrirliggjandi mat Landbúnaðarháskóla Íslands um að svæðið sé óbeitarhæft hafi að engu verið haft án þess að rökstudd hafi verið hvers vegna gengið var framhjá umræddu mati háskólans. Þá voru innlendar og erlendar rannsóknaniðurstöður sem sýna jákvæð áhrif beitar á framvindu gróðurs, framleiðni og tegundafjölbreytni yfirfærðar á afréttarlandið í Almenningum og notaðar sem rök fyrir að leyfa beit. Þetta var gert þrátt fyrir að aðstæður í Almenningum séu gjörólíkar þeim svæðum sem fyrrgreindar rannsóknaniðurstöður byggja á, en einungis um 13% afréttarins teljast grónir, þar af er stór hluti mosaþemba.
3. Landvernd hvetur bændur á svæðinu til að umgangast þá dýrmætu auðlind sem þeim er falin umsjón með á sjálfbæran hátt og þannig að náttúran fái að njóta vafans. Einnig er erfitt er að sjá hvernig upprekstur á 40 ám geti skipt miklu máli fyrir búrekstur bændanna.
4. Ákvörðun umræddra bænda að reka 40 lambær á Almenninga nú í júlí gengur þvert gegn stefnu stjórnvalda um sjálfbæra nýtingu landsins til landbúnaðarframleiðslu. Hið opinbera getur ekki varið ríkisstuðningi til framleiðslu landbúnaðarafurða þar sem hún er stunduð á ósjálfbæran hátt.
5. Ákvörðunin hlýtur að vekja neytendur til umhugsunar um hvort þeir hyggist sætta sig við neyslu lambakjöts sem alið er á óbeitarhæfum auðnum landsins.
6. Landvernd telur jafnframt afar mikilvægt að sátt náist í þessu máli sem tryggi að afrétturinn á Almenningum sé ekki beittur þvert á mat vísindamanna og jafnframt að tryggður verði réttur bænda til beitar á svæðinu þegar vísindaleg rök liggja fyrir því að svæðið sé beitarhæft.