Landvernd fagnar áformum um að stækka friðlandið í Þjórsárverum, einnig til suðurs. Fyrirliggjandi athuganir á Þjórsárverum sýna að svæðið er afar verðmætt vegna gróðurfars og dýralífs, einnig sem víðerni og hluti af stærri landslagsheild. Þetta hefur m.a. komið fram í vinnu við rammaáætlun.
Umfjöllun um verndun Þjórsárvera hefur staðið í nær 50 ár. Nái áform um stækkun fram að ganga er von til þess að niðurstaða fáist loks í þessu máli. Það yrði þá niðurstaða þar sem náttúran fær að njóta vafans og þar sem skammtíma virkjunarhagsmunir víkja fyrir langtíma verndunarsjónarmiðum.
Landvernd telur að fyrirliggjandi hugmyndir um Norðlingaölduveitu séu ekki ásættanlegar þar sem sýna má fram á að framkvæmdir af því tagi myndu spilla verndargildi Þjórsárvera. Umrædd framkvæmd hefði óhjákvæmilega áhrif inn fyrir núgildandi friðlandsmörk Þjórsárvera og gæti valdið óafturkræfum spjöllum á svæðinu. Þessi áform eru að mati Landverndar ekki heldur í samræmi við markmið svæðiskipulags miðhálendisins þess efnis að almennt beri að halda hverskonar mannvirkjagerð á miðhálendi Íslands í lágmarki.
Landvernd vill benda á að Umhverfisstofnun og erlendir sérfræðingar hafa staðfest að friðlandsmörkin eru algjörlega ófullnægjandi. Þá hefur Samvinnunefnd um miðhálendi Íslands staðfest í bókun að landslagsheild Þjórsárvera nái langt út fyrir núverandi mörk friðlandsins og að Norðlingaölduveita myndi valda miklu umhverfisraski á stóru svæði. Komi til virkjunarframkvæmda verður ekki mögulegt að stækka friðlandið þannig að það nái til allra þeirra náttúruverðmæta sem svæðið býr yfir.
Að mati Landverndar hníga öll rök að því að stækka verndarsvæðið þannig að það falli að náttúrulegum mörkum Þjórsárvera. Samtökin fagna því tillögum sem umhverfisráðherra, í samvinnu við iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra, hefur kynnt um stækkun verndarsvæðisins. Jafnframt er mikilvægt að líta til hugmynda um verndun þeirra fjalla og jökla sem móta stórbrotna umgjörð svæðisins. þ.e. Kerlingafjalla í vestri og Hofsjökuls í norðri.
Landvernd hafði fyrir nokkrum árum forgöngu um að tveir viðurkenndir erlendir sérfræðingar gerðu úttekt á verndargildi Þjórsárvera. Niðurstaða þeirra var að góðar líkur væru á því að svæðið sé svo einstakt að það gæti átt heima, ásamt stærri landslagsheild, á heimsminjaskrá UNESCO.
Landvernd lítur svo á að almenn pólitísk sátt hafi náðst um stækkun friðlands Þjórsárvera. Stjórn Landverndar hvetur alla þingmenn til að standa vörð um þá sáttagjörð. Þjórsárver eru gróðurvin með árþúsunda samfellda sögu þróttmikils lífríkis. Þau mynda vel afmarkað og einstakt vistkerfi á miðhálendi Íslands og eru mikilvæg heimkynni margra fuglategunda. Þjórsárver eru þjóðargersemi.