Landvernd hefur kært þá ákvörðun Orkustofnunar að samþykkja kerfisáætlun Landsnets hf. 2015-2024. Landvernd fer fram á ógildinu ákvörðunarinnar í kæru sinni til úrskurðarnefndar raforkumála. Helstu rök Landverndar fara hér á eftir:
Í fyrsta lagi taldi Orkustofnun sér óskylt að líta til markmiða um umhverfisvernd við ákvörðun sína. Sniðgengur stofnunin umhverfismál algerlega í ákvörðun sinni. Sú túlkun Orkustofnunar stenst hinsvegar hvorki raforkulög né EES-löggjöf, en tillit til umhverfissjónarmiða er eitt af markmiðum raforkulöggjafarinnar.
Í öðru lagi notar Landsnet hf. rammaáætlun um virkjanir sem spá um raforkunotkun næstu 10 ára og gerir ráð fyrir að allt að 100% orkunýtingarflokks verði virkjaður á því árabili. Landvernd bendir hinsvegar á að lögum samkvæmt er rammaáætlun hvorki spá um virkjanir né spá um raforkunotkun. Ekki er samasemmerki milli þess að Alþingi setji virkjunarhugmynd í orkunýtingarflokk og þess að hún verði nýtt til orkuframleiðslu, hvað þá á næsta áratug, eins og margoft hefur verið bent á.
Í þriðja lagi leit Orkustofnun algerlega framhjá þeirri staðreynd að Landsnet hf. hefur ekki metið umhverfisáhrif jarðstrengja fyrir einstakar framkvæmdir. Hæstiréttur, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun hafa öll kveðið upp úr um að Landsnet hf. verði að gera umhverfismat á jarðstrengjum við framkvæmdir sínar. Það hefur Landsnet hf. hunsað. Að mati Landverndar getur Orkustofnun ekki samþykkt kerfisáætlun með þessum annmörkum.
Í fjórða lagi telur Landvernd að Landsneti hf. beri að umhverfismeta jarðstreng (jafnstraumsstreng) alla fyrirhugaða Sprengisandsleið, en ekki bara hluta hennar. Orkustofnun gerði engar athugasemdir við þetta atriði.
Í fimmta lagi samþykkti Orkustofnun framkvæmdahluta kerfisáætlunar þrátt fyrir að þar sé að finna framkvæmdir sem hafa ekki verið umhverfismetnar (Kröflulína 3 og Blöndulína 3 að hluta). Það telur Landvernd vera í ósamræmi við umhverfismatslöggjöf, þar sem í samþykkinu felst leyfisveiting skv. raforkulögum.
Í sjötta lagi ber ákvörðun Orkustofnunar engin merki þess að hún hafi kynnt sér athugasemdir almennings við kerfisáætlun í umhverfismati og tekið afstöðu til þeirra, en 59 aðilar gerðu athugasemdir við áætlunina. Eftir breytingar á raforkulögum vorið 2015 felur samþykkt Orkustofnunar í sér leyfisveitingu stofnunarinnar til lagningar og reksturs mannvirkja í þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets. Því ber Orkustofnun að kynna sér og taka rökstudda afstöðu til athugasemda frá almenningi og öðrum aðilum við kerfisáætlun og umhverfisskýrslu hennar. Það er andstætt grundvallarreglum um réttláta og eðlilega málsmeðferð að taka ekki afstöðu til framkominna athugasemda. Orkustofnun brást því rannsóknaskyldu sinni skv. stjórnsýslulögum, að mati Landverndar.
Í sjöunda lagi telur Landvernd að Orkustofnun hafi borið að kanna hvort kerfisáætlun sé í samræmi við markmið raforkulaga um þjóðhagslega hagkvæmt raforkukerfi. Í nýlegum dómum Hæstaréttar vegna eignarnáms á Suðurnesjum var sérstaklega bent á að Landsneti bæri að skoða kostnað eftir atvikum m.t.t. þjóðhagslegrar hagkvæmni í samræmi við raforkulög.
Í áttunda lagi leiðir fyrirvari Orkustofnunar um að hún hafi ekki samþykkt framkvæmdir Landsnets á langtímaáætluninni (tíu ára áætlun) til þess að áætlunin uppfyllir ekki skilyrði raforkulaga að mati Landverndar. Sveitarfélögum ber að samræma skipulagsáætlanir sínar að verkefnum langtímaáætlunar, en þar sem að Orkustofnun hefur ekki samþykkt hana, geta sveitarfélög ekki sinnt þessari lagaskyldu sinni. Langtímaáætlun Landsnets hf. getur því ekki haft þau réttaráhrif sem henni eru ætlað gagnvart sveitarfélögum.
Í níunda lagi fylgir langtímaáætlun ekki tímaáætlun eins og raforkulög mæla fyrir um.