Umhverfisverndarsamtök hafa stefnt umhverfisráðherra f.h. íslenska ríkisins vegna vanefnda á að friðlýsa ákveðin svæði í Skútustaðahreppi. Ljúka átti friðlýsingunum fyrir tæpum níu árum síðan samkvæmt ákvæðum laga um verndun Mývatns og Laxár, s.k. Mývatnslögum. Þrátt fyrir þessa lagaskyldu hafa fæst svæðanna enn verið friðlýst.
Meðal þeirra svæða sem ekki hafa verið friðlýst eru svæði þar sem ógn stafar af ágangi ferðamanna, eins og við Hverarönd og Leirhnjúk, og svæði sem deilur um lagningu háspennulína hafa staðið um, þ.e. Leirhnjúkshraun. Umhverfisráðherra ber ábyrgð á framfylgd laganna. Dómsmálið er höfðað til að knýja á um friðlýsingu þessara svæða eins og lög mæla fyrir um. Umhverfisverndarsamtökin Fjöregg í Mývatnssveit og Landvernd standa saman að dómsmálinu.
Árið 2004 setti Alþingi ný lög um verndun Mývatns og Laxár. Lögin eru sérlög um náttúruvernd sem taka til vatnsins og árinnar, en skylda umhverfisráðherra jafnframt til að friðlýsa önnur nánar tiltekin verndarsvæði í Skútustaðahreppi. Nokkur þessara svæða hafa verið friðlýst, svo sem Dimmuborgir og Hverfjall/Hverfell auk þess sem hluti hálendis sveitarinnar er nú innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Mun fleiri svæði hafa þó enn ekki verið friðlýst, þrátt fyrir útfærðar tillögur sem lágu til grundvallar við gildistöku Mývatnslaga fyrir 12 árum síðan. Frestur laganna til þess að ljúka þeim friðlýsingum formlega rann út í árslok 2007, fyrir um níu árum.
Umhverfisverndarsamtökin hafa ítrekað bent ráðherra á að það standi uppá framkvæmdarvaldið að framkvæma umrædd lög sett af Alþingi. Hafa þau talað fyrir daufum eyrum. Á meðan þessi staða er uppi njóta þessi svæði ekki fullrar verndar. Sumum þessara svæða stafar ógn af auknu álagi ferðamanna og að öðrum er hart sótt með framkvæmdir, enda þótt Alþingi hafi við setningu Mývatnslaga tekið skýra afstöðu til þess að framkvæmdir yrðu ekki leyfðar á svæðum sem ætti að friðlýsa. Á þetta við um raflínulagnir Landsnets um Leirhnjúkshraun.
Friðlýsingarlistinn sem lá fyrir við gildistöku laganna hefur að geyma 11 svæði, en ekkert hefur saxast á listann undanfarin fjögur ár. Við þessar vanefndir verður ekki unað lengur, að áliti samtakanna sem stefnt hafa umhverfisráðherra.
Íslendingum verður sífellt ljósara mikilvægi þess að hlúa að náttúruverðmætum sínum. Fjöregg og Landvernd hafa að leiðarljósi að standa vörð um þá almannahagsmuni sem tengdir eru náttúruvernd í Mývatnssveit. Í því felst meðal annars að lög um verndun svæða séu virt. Náttúruverndarlög byggja á þeirri grunnhugmynd að ákvörðun um friðlýsingu þurfi að taka á forsendum náttúrunnar sjálfrar, ekki landeigenda. Við það bætist að Alþingi hefur með sérlögum um verndun svæða í Mývatnssveit tekið afstöðu til þess að friðlýsa skuli þar lífríki, jarðmyndanir og landslag sem nýtur sérstöðu. Málshöfðunin er liður í varðstöðu samtakanna um náttúru Íslands.
Lesa stefnu Fjöreggs og Landverndar gegn Skútustaðahreppi 2016