Landvernd og Listasafn Íslands hafa skrifað undir vilja yfirlýsingu um samstarf sín á milli. Samstarfið felur í sér að efla tengsl myndlistar við umhverfismenntun. Áhersla er lögð á sýnileika verka eftir börn og ungt fólk í tengslum við miðlun umhverfismála.
Sýning á barnamenningarhátíð
Fyrsta afurð samstarfsins verður sýning Umhverfisfréttafólks á Barnamenningarhátíð sem hefst þriðjudaginn 5. apríl næstkomandi. Þar munu nemendur frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla sýna ljósmyndir sínar og markmið þeirra. Ljósmyndirnar voru unnar með Jeannette Castioni í samvinnu við Landvernd. Sýningin verður haldin í Safnahúsinu.
Uppskeruhátíð Umhverfisfréttafólks
Þá verður uppskeruhátíð Umhverfisfréttafólks haldin í Safnahúsinu þann 6. maí næstkomandi. Þar verður tilkynnt hver hlýtur verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í verkefninu og varpað ljósi á verk ungs umhverfisfréttafólks. Fjölmargir skólar víðsvegar um landið taka þátt í verkefninu og verður viðburðurinn bæði haldinn á staðnum og í streymi. Þannig tryggjum við aðgengi skóla um landið að uppskeruhátíðinni.
Ungt umhverfisfréttafólk skapar ungmennum vettvang til þess að takast á við umhverfismálin, fjalla um þau, finna lausnir og miðla upplýsingum til annarra. Landvernd rekur verkefnið á Íslandi og gefst nemendum á unglingastigi í grunnskóla og framhaldsskóla kostur á því að taka þátt.
Safnahúsið námsvettvangur grænfánaskóla
Safnahúsið verður að auki nýtt sem námsvettvangur í tengslum við ýmis menntaverkefni Landverndar.
„Von okkar er sú að samstarfið muni auka sýnileika á verkum ungs fólks, en þau eru mörg hver að gera frábæra hluti í umhverfismálum og verkin þeirra eru mjög áhrifarík. Þá er kostur við samstarfið að við getum aukið meðvitund ungs fólks á skemmtilegum og fróðlegum sýningum í Listasafni Íslands“ – segir Vigdís Fríða, verkefnastjóri Ungs umhverfisfréttafólks um samstarfið.