Landvernd vill að frumvarp um kílómetragjald verði dregið til baka

Minni umferðarhraði dregur úr loftmengun í þéttbýli og bætir þannig lýðheilsu.

Landvernd hefur skilað inn umsögn í umsagnagátt alþingis vegna frumvarps til laga um kílómetragjald.

Ísland dregst aftur úr

Í frumvarpinu kemur fram að öll veganotkun verði skattlögð miðað við notkun í stað þess að vera skattlögð miðað við eyðslu.

Landvernd minnir á að árangur í samdrætti kolefnislosunar vegna tækniþróunar hefur einmitt verið vegna hreinorkubifreiða. Landvernd telur því að skapa verði hvata til að halda þeirri þróun áfram en Ísland hefur dregist aftur úr viðmiðunarþjóðum. Þegar fremur hátt kílómetragjald var sett á rafbíla í fyrsta skipti, má segja að algjört hrun hafi orðið í innflutningi á rafbílum. Ísland hefur hrapað úr 2. sæti í innleiðingu hreinorkubíla niður í 18. sæti á aðeins tveimur árum. Ef standa á við markmið um stöðvun innflutnings á jarðefnaeldsneytisbílum frá og með 2030 eða fyrr hlýtur að þurfa að innleiða það smátt og smátt, einmitt með hvötum og lötum. Ef heldur sem horfir mun áframhaldandi innflutningur á bifreiðum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti ekki dragast saman eins og brýn þörf er á.

Ofsetnir vegir af þungaflutningsbílum

Í annan stað þurfa stjórnvöld að beina meira af landflutningum á sjó og þá aðra vöru en svokallaða dagvöru. Slíkt fyrirkomulag væri án vafa langstærsta einstaka aðgerðin við að minnka slit og gríðarlegan viðhaldskostnað á þjóðvegum landsins, fækka slysum sem og ekki síst minnka útblástursmengun og aðra mengun sem stafar af þungaflutningabílum. Vegir landsins eru þegar ofsetnir af þungaflutningabílum.

Hætta á að eldneytisnotkun aukist

Hætt er við því að eldsneytisnotkun aukist verði frumvarpið að veruleika. Margar rannsóknir sýna fram á að þegar verslað er með kreditkorti eyðir neytandi hærri fjárhæðum. Að sama skapi gæti það hæglega aukið eldsneytisnotkun og þar með kolefnisútblástur þegar gjöld vegna notkunar bíla greiðast seinna og verð á dælu lækkar.

Mat á samlegðaráhrifum skortir

Landvernd tekur jafnframt undir ný birt álit Loftslagsráðs þar sem segir að frekari greiningar vanti, á fleiri þáttum:

„Að mati Loftslagsráðs skortir enn á heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun hvað varðar samdrátt í losun frá vegasamgöngum sem og mat á samlegðaráhrifum aðgerða. Nýlegt dæmi um skort á fyrirsjáanleika og heildstæðu mati voru breytingar á hagrænum stjórntækjum bæði hvað varðar kaup og rekstur ökutækja.“ 

Ekki virðist hafa farið fram mat á samlegðaráhrifum frumvarpsins við viðeigandi þætti líkt og losun gróðurhúsalofttegunda. Landvernd leggur til að frumvarpið verði dregið til baka og lagt fram að nýju þegar slíkt mat hefur farið fram.

Umsögn Landverndar má lesa hér í heildsinni.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd