Leiðarvísir fyrir valdhafa að betri framtíð

Tryggja þarf að kolefnisbinding í jarðvegi, gróðri, hafi og grjóti verði ekki misnotuð sem friðþæging og valkostur í staðinn fyrir að draga úr losun.
Kæru valdhafar, þið verðið að muna að það er núna sem við verðum að gera breytingar, ekki einhvern tíma í framtíðinni. Verið framsýn, heiðarleg, jákvæð og hugrökk. Komandi kynslóðir munu þakka ykkur fyrir.

Guðrún Schmidt
sérfræðingur hjá Landvernd skrifar

Kæru valdhafar landsins.

Iðulega berast fregnir af því að þið viljið auka sjálfbærni og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Eru þetta innantóm orð? Því enn höldum við áfram að ganga á náttúruna, auka losun gróðurhúsalofttegunda, auka óréttlæti og misskiptingu fjármagns og eigna, auka neyslubrjálæðið og þar með stuðla áfram að ósjálfbærri þróun. Nú er mál að linni, allt tal um að við stöndum okkur vel og séum á réttri leið er grænþvottur og blekking.  

Alvöruaðgerðir

Ef raunverulegur vilji er til þess að standa sig í loftslagsmálum og stuðla að sjálfbærri þróun, þá eru hér leiðir: 

  1. Sjálfbær þróun með heimsmarkmiðin sem vegvísi er framtíðarsýn alþjóðasamfélags sem verður að vera ykkar leiðarljós. Til þess þurfið þið að skilja vel hvað sjálfbær þróun þýðir, nefnilega ekki að bæta aðeins ýmislegt innan okkar ósjálfbæra kerfis heldur að breyta kerfinu.

  1. Gildi eins og græðgi, einstaklingshyggja og neysluhyggja verða að heyra fortíðinni til. Í staðinn þarf að efla gildi sjálfbærrar þróunar: m.a. nægjusemi, réttlæti, kærleika, virðingu, þakklæti, samkennd, umhyggju, samfélagshyggju, samvinnu og hjálpsemi. 

  2. Við verðum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 og að öllu leyti fyrir árið 2050 auk þess að endurheimta og vernda vistkerfin. Við getum ekki samið við náttúruna um málamiðlanir eða þolinmæði. Það verður að fara eftir Parísarsáttmála og öðrum alþjóðlegum samningum með ábyrgð og siðferði að leiðarljósi. M.a. þarf að grípa til eftirfarandi aðgerða: 

  • Setja fast þak á losun strax í dag
  • Þeir sem menga og losa gróðurhúsalofttegundir þurfa að borga réttmætt verð fyrir það án þess að slíkt bitni á fátæku og efnaminna fólki.

  • Setja lög og reglur sem tryggja umhverfisvæna framleiðsluhætti, dýravelferð og mannréttindi í fyrirtækjum og landbúnaði.

  • Búa til gott, notendavænt og ódýrt almenningssamgöngukerfi.

  • Minnka orkunotkun og hætta orkusóun – allar auðlindir eru takmarkaðar.

  • Aðgerðir í orkuskiptum þar sem loftslags- og náttúruvernd haldast í hendur.

  • Aðgerðir til að auka innlenda grænmetisframleiðslu og lífræna ræktun.

  • Aðgerðir til að endurheimta og vernda vistkerfi og tryggja að vistmorð verði meðhöndlað sem glæpur.

  • Tryggja að kolefnisbinding í jarðvegi, gróðri, hafi og grjóti verði ekki misnotuð sem friðþæging og valkost í staðinn fyrir að draga úr losun. 

  • Takmarka markaðsframboð kolefnisfrekra vara. 

  • Skapa aðstæður þar sem umhverfisvænasti kosturinn er bestur, auðveldur í notkun og ódýrastur.

  • Skattleggja ósjálfbæra hegðun.

  • Fjárfesta í nýsköpun sem stuðlar að sjálfbærri þróun.

  • Minnka markvisst neysludrifna kolefnislosun og vinna að loftslagsréttlæti.

  • Setja lög og reglur um innflutning þannig að hægt verði að treysta að vörur  á boðstólum hérlendis hafi ekki skaðað annað fólk, dýr eða náttúruna.

  • Setja lög og reglur um sjálfbæra nýtingu auðlinda og til verndar vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni.

  • Setja lög og reglur sem stórminnka framleiðslu og notkun á umbúðum og plasti og varðandi skolphreinsun og meðhöndlun úrgangs (líka varðandi útflutning úrgangs og þau vandamál sem geta fylgt fyrir fólk og náttúru í þeim löndum sem taka við úrganginum). 

  1. Mikilvægar breytingar á stjórnarskránni, eins og þau sem þjóðin samþykkti fyrir rúmlega 10 árum, munu stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og að meiri jöfnuði og réttlæti meðal íbúa landsins. Landsmenn eru búnir að fá sig fullsadda af sístækkandi misskiptingu eigna og tekna og þeim áhrifum sem hagsmunaaðilar og fjármagnseigendur virðast geta haft á ákvarðanir og aðgerðir í landinu.

  2. Þið verðið að stuðla að meira réttlæti, jöfnuði og mannréttindum á fjölbreyttan og áhrifamikinn hátt. Munið ályktun Sameinuðu þjóðanna um að rétturinn til heilnæms, hreins og sjálfbærs umhverfis teljist til mannréttinda.

  3. Opnið augun og hættið að þjóna þeirri glórulausu hugmyndafræði um endalausan hagvöxt sem eyðileggur náttúru og ýtir stöðugt undir aukna losun gróðurhúsalofttegunda. Búið  til velferðarhagkerfi sem:

  • virðir þá staðreynd að náttúrulegar auðlindir eru takmarkaðar og beri að nýta á sjálfbæran hátt

  • notar aðra mælikvarða en hagvöxt til að meta velgengni þjóðar

  • gætir réttlætis í nýtingu og dreifingu auðlinda

  • setur réttan verðmiða á allt þegar umhverfisskaði, losun gróðurhúsalofttegunda, réttmæt vinnulaun og mengun vegna úrgangs eru reiknuð með

  • notar mengunarbótareglu og varúðarreglu

  • er hringrásar- og deilihagkerfi 

  • byggir á samvinnu

  • ýtir ekki undir neysluhyggju, heldur framleiðir eftir grunnþörfum og dreifir á sanngjarnan hátt

  • stuðlar að góðu lífi fyrir alla, m.a. með réttmætu skattakerfi og velferðarþjónustu

  • stuðlar að auknum jöfnuði innanlands og í heiminum

  • úthýsir hvorki ofnýtingu auðlinda né mengun til annarra landa 

  1. Leggið á auðlegðarskatt.

  2. Lokið skattaskjólum, skattleggið þá peninga og notið skattinn í loftslagsaðgerðir.

  3. Borgið sanngjarnar upphæðir í sjóð fyrir mótvægisaðgerðir gegn loftslagshamförum í fátækum löndum.

  4. Tryggið menntun til sjálfbærni í skólakerfi og í fullorðinsfræðslu. 

Verið framsýn, heiðarleg, jákvæð og hugrökk

Þið hafið verk að vinna og við öll verðum að taka þátt. Umbreyting kerfa og samfélags verður ekki einföld en er nauðsynleg leið til að afstýra verstu afleiðingum loftslagshamfara og stuðla um leið að betri framtíð. 

Hættið að tala stöðugt eins og að það sé enginn annar lífsstíll eftirsóknarverður en okkar núverandi lífsstíll neyslu og sóunar. Verið framsýn og talið um þau tækifæri sem lífsstíls- og samfélagsbreytingar geta fært okkur, eins og áherslur á tíma með okkar nánustu, í upplifanir, vera skapandi og í að stuðla að velferð samfélags og náttúru. Hjálpið samfélaginu að skilgreina hvað velmegun þýðir annað en efnislegt ríkidæmi. Þið eruð leiðandi aðilar í samfélaginu, þá þurfið þið líka að leiða okkur áfram inn í nýja tíma, inn í nýtt þroskaskeið mannkyns og burt frá lifnaðarháttum sem stuðla að stjórnlausum loftslagshamförum.   

Kæru valdhafar, þið verðið einnig að muna að það er núna sem við verðum að gera þessar  breytingar, ekki einhvern tíma í framtíðinni. Aðgerðir okkar eða aðgerðaleysi á þessum áratug munu skera úr um hversu lífvænlegt verður á Jörðinni í náinni framtíð. Þið berið mikla ábyrgð og vald og verðið að gera ykkur grein fyrir að framtíð mannkyns er háð réttum ákvörðunum ykkar núna. Verið framsýn, heiðarleg, jákvæð og hugrökk, komandi kynslóðir munu þakka ykkur fyrir. Hættið að tala og farið að gera. Við megum engan tíma missa.

Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd.

Greinin birtist fyrst í Heimildinni 15. maí 2023.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd