Leyfum Trump ekki að færa línuna

Loftslagsbreytingar

Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifar

Trump vinnur markvisst gegn mannréttindum hinsegin fólks, konum, innflytjendum og öðrum jaðarsettum hópum en aðgangur að heilnæmu umhverfi er ekki síður mannréttindi.

Mannkynið hefur farið yfir mörk jarðar á marga mismunandi vegu. Og svarið við því hvernig best er að halda sig innan marka loftslags, líffræðilegrar fjölbreytni, hreins vatns og allra hinna mikilvægu markanna hefur ekki verið svarað en við höfum verið að leitast við að snúa frá þeirri þróun að hraða auðlindanotkun sífellt, með sorglega litlum árangri.

En það hefur tekið áraraðir, mikla vinnu og uppbyggingu trausts að stofna til ýmissa alþjóðlegra sáttmála sem eiga að snúa við þeirri þróun, og hafa án alls efa haldið í einhverja hesta og skapað mikilvæg samtöl, þótt árangurinn mætti vera meiri.

En málið með traust og samvinnu er að það tekur mikla orku og tíma að byggja það upp en það getur tekið enga stund að slá því um koll.

Trump hefur dregið Bandaríkin út úr Parísarsáttmálanum, Bandaríkin voru aldrei partur af samningnum um líffræðilega fjölbreytni en hann hefur samt sem áður dregið úr öllu sem heitir náttúruvernd þar í landi. Hann hefur rekið fólk í eftirlitsstofnunum, landverði og náttúrufræðinga við vöktun. Og hann hefur dregið úr öllum stuðningi ríkisins við frjáls félagasamtök.

Þá kemur í ljós hversu burðugum fótum málaflokkarnir standa án stuðnings ríkisins. Því það er óneitanlega högg fyrir frjáls félagasamtök þegar stjórnvöld sjálf sýna slíka vanvirðingu við sess þeirra og hlutverk í lýðræðissamfélagi.

Á síðustu stjórnartíð Trumps voru það helst frjáls félagasamtök og einstaka ríkisstjórar sem gættu hagsmuna náttúru og mannréttinda. Með því að styðja sig við gildandi lög og stjórnarskrárvarin réttindi. Það var gert með ýmsum hætti en ein mjög áhrifamikil leið voru lögsóknir, þannig var komið í veg fyrir fjöldann allan af náttúruspjöllum.

Þau hafa lýst því yfir að þau eru reiðubúin til að endurtaka leikinn. Bloomberg greiðir hluta Bandaríkjanna til loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna svo samningurinn geti haldið sínu striki án Bandaríkjanna. En Trump hefur einnig gefið í og sýnt það strax að hann virðir stjórnarskrá og alþjóðalög engu. Það er svo undir alþjóðasamfélaginu komið hversu langt hann nær að ganga.

Því hann er að færa línuna. Það er orðið róttækt að krefjast grundvallar mannréttinda í Bandaríkjunum, og þú átt jafnvel von á því að missa vinnuna fyrir það að tala fyrir mannréttindum. Leyfum ekki Trump að færa línuna um allan heim. Það verður að streitast á móti.

Það lítur ekki vel út verð ég að viðurkenna. Alþjóðasamfélagið hefur ekki getað komið í veg fyrir stríðsglæpi víða, á Gaza, í Úkraínu og Súdan. Því hefur ekki tekist að snúa við hnignun líffræðilegrar fjölbreytni, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, stöðva eyðimerkurmyndun. Einhverra hluta vegna fer aðdáendum Trump fjölgandi í heiminum. Það þarf augljóslega að setja alveg nýjan kraft í alþjóðasamstarf, í mannréttindum, í náttúruvernd, í loftslagsmálum. Oft var þörf og jafnvel nauðsyn en nú hefur sú nauðsyn náð alveg nýjum hæðum. Við verðum að gera allt sem við getum til að stöðva aðförina að fólkinu og náttúrunni.

Ræða þessi var flutt á mótmælum fyrir utan Bandaríska sendiráðið 23. febrúar 2025

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd