Verkefnið í hnotskurn
Landvernd fagnar því að verkefnið Líffræðileg fjölbreytni Norðurlanda á vegum BIODICE hafi fengið veglegan styrk.
Verkefnið snýst um að rannsaka stöðu og aðferðir Íslands, Danmerkur og Finnlands við innleiðingu Kunming-Montreal samningsins um líffræðilega fjölbreytni og styðja við það ferli. Með því að bera saman rannsóknir og stefnur þvert á Norðurlöndin þá geta þjóðirnar lært hver af annarri sem gagnast í þessari vinnu. Niðurstöður verkefnisins munu nýtast stjórnvöldum við innleiðingu á samningnum.
Kunming-Montréal markmiðin
Tap á líffræðilegri fjölbreytni, eða einfaldlega lífbreytileika, er eitt alvarlegasta vandamál okkar tíma. Árið 2022 skrifuðu 196 þjóðir, þar á meðal öll Norðurlöndin, undir á COP15 ráðstefnu samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Sýn markmiðanna, sem eru mjög metnaðarfull, er heimur þar sem fólk lifir í sátt og samlyndi með og í náttúrunni. Meginmarkmið til ársins 2050 eru vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni, sjálfbær nýting náttúruauðlinda, viðhald og efling vistkerfa og þeirri þjónustu sem þau veita, á sanngjarnan hátt fyrir alla. Einnig eru sértækari markmið sem ætlunin er að ná fyrir árið 2030.
Aðkoma Landverndar
Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur og sérfræðingur hjá Landvernd hefur verið ráðin í 70% stöðu við verkefnið en mun áfram sinna 30% stöðu hjá Landvernd. Landvernd mun taka þátt í verkefninu af fullum krafti enda mikið í húfi fyrir náttúru Íslands.