Lög Landverndar
I. NAFN, AÐSETUR OG MARKMIÐ
1. gr.
Nafn samtakanna er „Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands“.
2. gr.
Aðsetur Landverndar og varnarþing er í Reykjavík.
3. gr.
Markmið Landverndar eru:
a. Verndun náttúru og umhverfis Íslands á landi, í legi og í lofti svo þeim verði sem minnst spillt, okkur og komandi kynslóðum til handa.
b. Endurreisn spilltrar náttúru, náttúrugæða og umhverfis með þeim hætti er hæfir sem best náttúrulegum aðstæðum og búsetu í landinu.
c. Sjálfbær umgengni þjóðarinnar heima við og á hnattræna vísu, sem byggir á öflugri umhverfisvitund, þekkingu og verndarvilja.
d. Virk þátttaka Íslendinga í alþjóðasamstarfi um umhverfismál, þar sem þekkingu og reynslu er miðlað og leitað leiða til úrbóta.
4. gr.
Markmiðum sínum vill Landvernd ná með:
a. Fræðslustarfi svo sem útgáfu á fræðsluefni, námskeiðum, fyrirlestrum, ráðstefnuhaldi og samvinnu við fjölmiðla.
b. Virkri þátttöku í umræðum um stefnumótun í umhverfismálum bæði hér á landi og með alþjóðlegum samskiptum og með samstarfi við stjórnvöld um þau mál.
c. Að virkja félagasamtök, fyrirtæki og einstaklinga til starfa og samstarfs um fræðslu og aðgerðir í umhverfismálum.
d. Umsögnum og aðgerðum er tengjast mati á umhverfisáhrifum og ákvörðunum um landnýtingu, og með umsögnum um þingmál.
II. FJÁRHAGSMÁL
5. gr.
Reikningsárið er frá 1. janúar til 31. desember.
6. gr.
Fjárhagsgrunnur Landverndar er einkum byggður á félagsgjöldum skráðra félaga í Landvernd og almennri fjáröflun samtakanna. Styrkir og fjárframlög einstaklinga, fyrirtækja í atvinnurekstri, stofnana og sveitarfélaga til Landverndar fara eftir nánara samkomulagi við stjórn ef um háar fjárhæðir er að ræða.
Landvernd starfar óháð styrktaraðilum.
7. gr.
Formaður, framkvæmdastjóri og gjaldkeri fara með fjárreiður Landverndar.
III. AÐILD
8. gr.
Aðild að Landvernd geta átt:
a. Einstaklingar.
b. Félög og samtök félaga.
c. Fyrirtæki í atvinnurekstri, stofnanir og sveitarfélög.
Stjórn Landverndar tekur afstöðu til aðildarumsóknar.
9. gr.
Félagar sem skráðir eru í Landvernd skulu greiða félagsgjöld eftir því sem hér segir:
a. Einstaklingar skulu greiða félagsgjald samkvæmt ákvörðun aðalfundar. Þó skulu einstaklingar, 25 ára og yngri, undanþegnir félagsgjöldum.
b. Félög og samtök félaga skulu greiða árleg félagsgjöld eftir nánara samkomulagi við stjórn Landverndar.
c. Fyrirtæki í atvinnurekstri, stofnanir og sveitarfélög skulu greiða árleg félagsgjöld eftir nánara samkomulagi við stjórn Landverndar.
Félagsgjöld undanfarins starfsárs skulu vera greidd í síðasta lagi fyrir aðalfund.
Stjórn Landverndar skal tryggja að haldin sé sérstök skrá yfir félaga í Landvernd sem skal uppfærð jafnóðum og breytingar verða á skráðum félögum.
10. gr.
Úrsögn úr Landvernd skal tilkynna skriflega. Skuldi félagi sem skráður er í Landvernd félagsgjöld til fjögurra ára er heimilt að strika viðkomandi af félagsskrá samtakanna.
IV. AÐALFUNDUR OG ALMENNUR FÉLAGSFUNDUR
11. gr.
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum Landverndar.
12. gr.
Rétt til setu á aðalfundi eiga:
a. Einstaklingar sem eru skráðir félagar í Landvernd.
b. Fulltrúar tilnefndir af félögum og samtökum félaga skv. b-lið 8. gr., einn einstaklingur fyrir hvert byrjað þúsund skráðra félagsmanna, þó ekki fleiri en þrír frá hverjum aðila.
c. Fulltrúar fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga skv. c-lið 8. gr., einn einstaklingur frá hverjum aðila.
13. gr.
Allir þátttakendur á aðalfundi hafa málfrelsi og tillögurétt.
Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa:
a. Einstaklingar sem greitt hafa félagsgjöld undanfarins starfsárs a.m.k. viku fyrir aðalfund. Til þess að nýjir félagar geti haft atkvæðisrétt á aðalfundi þurfa þeir því að hafa skráð sig einni viku fyrir fundinn og greitt félagsgjald ársins á undan
b. Fulltrúar samkvæmt b-lið 12. gr. sem greitt hafa félagsgjöld undanfarins starfsárs a.m.k. einni viku fyrir aðalfund.
Einfaldur meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi nema að lög þessi kveði á um annað. Ef atkvæði falla jöfn skal hlutkesti ráða.
Heimilt er að veita öðrum skráðum félaga umboð sitt á aðalfundi. Hver einstaklingur getur þó aldrei farið með fleiri en tvö atkvæði.
Fulltrúar samkvæmt b-lið 12. gr. skulu leggja fram skriflegt umboð sinna samtaka og geta farið með öll atkvæði þeirra hafi þeir umboð til þess.
Fulltrúar samkvæmt c-lið 12. gr. hafa ekki atkvæðisrétt á fundinum.
14. gr.
Aðalfundur skal haldinn í apríl eða maí ár hvert. Stjórn skal boða til aðalfundar á heimasíðu og með tölvupósti til skráðra félaga með a.m.k. sex vikna fyrirvara. Skriflegt fundarboð (síðara fundarboð) með dagskrá og með tillögum til lagabreytinga sem leggja á fyrir aðalfund skal senda skráðum félögum með tölvupósti eða öðrum hætti með eigi minna 10 daga fyrirvara. Skal í fundarboð upplýst um reglur sem gilda um kosningu stjórnar og ályktanir sem og þau framboð sem borist hafa til stjórnar. Aðalfundur er lögmætur sé rétt til hans boðað.
Verkefni aðalfundar skulu m.a. vera að:
- Kjósa fundarstjóra og ritara
- Kjósa í nefndir fundarins, þ. á m. kjörbréfanefnd og allsherjarnefnd.
- Kynna skýrslu stjórnar og ársreikninga félagsins.
- Afgreiða reikninga.
- Afgreiða lagabreytingar.
- Marka stefnu Landverndar.
- Kjósa stjórn og skoðunarmenn reikninga.
- Ákvarða félagsgjald.
15. gr.
Kjörgengir í stjórn eru einstaklingar sem eru skráðir félagar í Landvernd og fulltrúar félaga og samtaka félaga skv. b-lið 8. gr. Skulu þeir vera skuldlausir við samtökin. Kosning til stjórnar fer fram með leynilegri rafrænni atkvæðagreiðslu.
16. gr.
Aðalfundur getur kjörið heiðursfélaga samkvæmt tillögu frá stjórn Landverndar. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á aðalfundi og telst hún samþykkt ef 2/3 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði.
17. gr.
Almennan félagsfund skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að ósk 1/10 hluta skráðra félaga. Skal fundur boðaður þá innan fjórtán daga með tilkynningu á heimasíðu samtakanna og með tölvupósti til skráðra félaga. Fundarboðinu skal fylgja dagskrá fundarins. Almennur félagsfundur er lögmætur sé rétt til hans boðað.
18. gr.
Í janúar, á þriggja ára fresti, skulu allir skráðir félagar boðaðir til almenns félagsfundar þar sem stefna Landverndar til næstu ára verður mörkuð. Á fundinum skal mynda sérstakan vinnuhóp, skipaðan 5-7 fundarmönnum, til að annast úrvinnslu á stefnumótunarvinnu fundarins og fullbúa lokatillögur að stefnu Landverndar til að leggja fyrir á næsta aðalfundi. Vinnuhópurinn skal starfa í samráði við stjórn Landverndar.
V. STJÓRN, FAGRÁÐ OG LANDSHLUTAFULLTRÚAR
19. gr.
Stjórnin er skipuð 10 einstaklingum. Formaður er kosinn í sérstakri kosningu á aðalfundi. Formaður og fjórir stjórnarmenn eru kosnir annað árið, en fimm stjórnarmenn hitt árið. Kosning skal vera skrifleg. Stjórnin skiptir með sér verkum.
Við stjórnarkjör skal eitt sæti í stjórn frátekið fyrir félaga í Landvernd sem er 30 ára eða yngri. Ná einstaklingur á þeim aldri ekki kjöri á aðalfundi skal leita til félagsins Ungir umhverfissinnar um tilnefningu.
Framboð til stjórnar skulu berast eigi síðar en 14 dögum fyrir aðalfund til skrifstofu Landverndar. Ef fleiri framboð berast en þau sæti sem eru laus, skal boðað til rafrænna kosninga. Stjórn setur nánari reglur um fyrirkomulag kosninga og kynningu á frambjóðendum.
20. gr.
Stjórnin stýrir málefnum samtakanna á milli lögmætra félagsfunda. Hún sér um að framfylgja samþykktum aðalfundar og lögum samtakanna, auk þess að bera ábyrgð á fjárreiðum þeirra. Á stjórnarfundum ræður afl atkvæða úrslitum. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Stjórnarfundur er lögmætur ef 6 stjórnarmenn eru mættir.
21. gr.
Stjórn hefur heimild til að skipa í fagráð sem starfar á vegum Landverndar.
Fagráðið hefur það hlutverk að styrkja faglegan grundvöll í starfi samtakanna.
22. gr.
Stjórn hefur heimild til að skipa landshlutafulltrúa sem starfar á vegum Landverndar. Hlutverk landshlutafulltrúa á hverju svæði er að huga að náttúruverndarmálum viðkomandi svæðis, hvetja til og efla starfsemi náttúrurverndarsamtaka á svæðinu og vera virkur tengiliður milli svæðisins og Landverndar.
VI. DEILDIR OG MÁLEFNAHÓPAR
23. gr.
Stjórn Landverndar getur heimilað stofnun landfræðilega eða málefnalega skilgreindra deilda og málefnahópa innan samtakanna.
24. gr.
Hlutverk deilda er að vinna að markmiðum Landverndar með áherslu á viðfangsefni innan tilgreinds svæðis eða málefnis sem fellur undir markmið Landverndar. Deildir geta valið sér sérstakt nafn og merki, en skulu gæta að skírskotun til Landverndar. Félagsmenn eru bæði skráðir í Landvernd og viðkomandi deild og greiða árgjald til Landverndar.
Deildum ber að halda aðalfund einu sinni á ári þar sem stjórn skal valin og skýrsla um starfið tekin saman.
Deild getur sótt um heimild til stjórnar Landverndar til að gerast sjálfstæður lögaðili með sjálfstæðan fjárhag. Ef deild hefur sjálfstæðan fjárhag skal árlega gengið frá ársreikning sem leggja skal fyrir aðalfund deildar með hefðbundum hætti. Eftir aðalfund skulu samþykktir reikningar sendir framkvæmdastjóra Landverndar og lagðir fram á aðalfundi Landverndar. Verði þessu ekki fylgt getur stjórn Landverndar afturkallað heimildina.
Félagadeildir skulu kjósa sér 3 til 5 manna stjórn sem skiptir með sér verkum. Upplýsa ber framkvæmdastjóra Landverndar um verkaskiptinguna. Stjórnin hefur það hlutverk að fylgjast með framvindu mála á verksviði deildarinnar og koma á framfæri ábendingum og umsögnum til viðkomandi aðila. Stjórnin skal halda fundargerðabók um samþykktir og umsagnir.
Deildir geta óskað eftir sérfræðiaðstoð og/eða fjárframlögum frá Landvernd til að leysa sérstök verkefni. Framkvæmdastjóri Landverndar tekur ákvörðun um hvort og hvernig sú aðstoð er veitt að höfðu samráði við stjórn Landverndar. Deildir geta ekki talað í nafni Landverndar nema að höfðu samráði við framkvæmdastjóra Landverndar.
Kalla skal til félagsfundar í deild óski 25% af félögum eftir því. Aðalfundur Landverndar hefur heimild til að afnema umboð deildarstjórnar ef starfsemi henni er talin vinna gegn markmiðum Landverndar Formenn deilda skulu árlega boðaðir til samráðsfunda með stjórn Landverndar.
25. gr.
Félagar í Landvernd með sérstök starfs- og áhugasvið eða áhuga fyrir afmörkuðum landsvæðum, geta stofnað málefnahóp að höfðu samráði við og með samþykki stjórnar Landverndar. Málefnahópum Landverndar ber í starfi sínu að standa vörð um almenn markmiðum Landverndar.
Málefnahópar geta óskað eftir sérfræðiaðstoð og/eða fjárhagsstuðningi frá Landvernd. Framkvæmdastjóri Landverndar tekur ákvörðun um hvort og hvernig sú aðstoð er veitt að höfðu samráði við stjórn.
Málefnahópar geta ekki talað í nafni Landverndar nema að höfðu samráði við framkvæmdastjóra samtakanna og skulu gæta þess í öllum yfirlýsingum og samskiptum við fjölmiðla.
VII. FRAMKVÆMDASTJÓRI OG STARFSFÓLK
26. gr.
Stjórn ræður framkvæmdastjóra Landverndar. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á og stýrir daglegum rekstri og fjármálum Landverndar. Hann ræður aðra starfsmenn í samráði við stjórn. Hann annast fjáröflun samtakanna ásamt gerð fjárhagsáætlana og fjárhagsskýrslna. Þá kemur hann fram fyrir hönd Landverndar í opinberri umræðu, gagnvart þriðja aðila og dómsstólum.
Framkvæmdastjóri getur ekki setið í stjórn Landverndar. Stjórnarmenn geta verið starfsmenn Landverndar en aðeins í hlutastörfum.
Framkvæmdastjóri skal sitja fundi stjórnar með tillögurétt og málfrelsi. Hann skal gera grein fyrir rekstri Landverndar og stöðu á stjórnarfundum, aðalfundi og hvenær sem stjórn æskir þess.
27. gr.
Ávallt skal vera til staðar skýr og skrifleg starfslýsing allra starfsmanna Landverndar.
VIII. LAGABREYTINGAR
28. gr.
Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi.
29. gr.
Tillögur til lagabreytinga skulu komnar í hendur stjórnar a.m.k. þremur vikum fyrir aðalfund. Til að lagabreytingar nái fram að ganga þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi.
30. gr.
Komi til slita á samtökunum þarf 2/3 hluta atkvæða á aðalfundi. Eignir samtakanna renni til umhverfisverndar á Íslandi, enda sé þeim varið í anda 3. lagagreinar Landverndar. Ákvæðum 3. og 26. gr. þessara laga má ekki breyta nema að höfðu samráði við ríkisskattstjóra.
Lög Landverndar voru fyrst samþykkt 30. október 1999. Lögunum var breytt á aðalfundi 29. apríl 2006 og 12. maí 2012.
Lög Landverndar voru endurskoðuð í heild og samþykkt á aðalfundi 6. júní 2020 og breytt á aðalfundi 12. júní 2021, 20. maí 2022 og 23. maí 2024.