Lýðræðið og öræfin fótum troðin

Hinn mikilúðlegi Gljúfrabúi - táknmynd baráttunnar gegn Kárahnjúkavirkjun. Hann endaði á botni Hálslóns. Ljósmynd: Friðþjófur Helgason
Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar var lýðræðið fótum troðið og þeim jafnvel hótað atvinnumissi sem ekki studdu framkvæmdirnar. Ákvarðanir um virkjanir ætti að sjálfsögðu að taka á faglegum og lýðræðislegum forsendum þar sem hagsmunir náttúru og komandi kynslóða verða hafðir í heiðri.

Töfrar öræfanna eru mikilfenglegir, gefandi og nærandi. Þar gefst okkur tækifæri til að komast í snertingu við ómanngerða náttúru, óbyggð víðerni og við okkur sjálf, að finna í sál og líkama að við erum lifandi verur sem eru hluti af stórri heild. 

Upplifun á fegurð og nærandi kyrrð öræfanna er ómetanleg gjöf og vel lýst með orðum Helga Valtýssonar í bókinni Á Hreindýraslóðum: „Öræfin eru faðmvíð og fjallablá. Kyrrð þeirra gerir þig hljóðan og hlustandi … Hugfanginn hlustarðu á andardrátt þinnar eigin sálar, sem þú hafðir gleymt árum saman. Hér skynjarðu fyrst ómælis-víðáttu anda þíns, og þú stendur kyrr og undrandi í djúpri þögn og óumræðilegri lotningu fyrir guðdómi sálar þinnar…“ Þvílík gæfa að enn sé að finna óbyggð víðerni á Íslandi, fjársjóð sem flest lönd í Evrópu hafa glatað.  

Kárahnjúkaslysið 

Yngri dóttir mín var skírð upp úr heitri laug í Lindum, náttúruparadís sem liggur núna undir Hálslóni. Átökin í kringum Kárahnjúkavirkjun upplifði ég beint enda bjó ég þá, og bý enn, á Austurlandi. Fyrir mig og marga aðra skerti sú virkjun lífsgæðin sem voru m.a. fólgin í því að eiga greiðan aðgang að öræfum í bakgarðinum og upplifa ævintýri á fáförnum slóðum óbyggða beint upp úr Fljótsdalnum. Með Kárahnjúkavirkjun var eyðilögð dásamleg náttúra, mikilvæg vistkerfi og stórfengleg víðerni. Til umhugsunar langar mig að rifja upp nokkur atriði af mörgum. 

Lýðræði fótum troðið 

Náttúruvernd annars vegar og búsetu- og atvinnumöguleikum hins vegar er oft stillt upp sem andstæðum pólum. Það var einmitt gert á öflugan hátt í umræðunni um Kárahnjúkavirkjun. Skoðanakúgun var mikil, sérstaklega á Austurlandi. Haft var hátt um það að við sem vorum á móti Kárahnjúkavirkjun værum á móti uppbyggingu, góðu atvinnulífi og framförum á Austurlandi, á móti því að skapa börnunum framtíð á Austurlandi og að við vildum fara aftur í torfkofana. Rökræðurnar voru á svona lágu og svart-hvítu plani. Okkur var einnig sagt mjög skýrt að við þyrftum að passa okkur hvað við segðum upphátt því það gæti haft afleiðingar. Sumir áttu jafnvel á hættu að missa vinnu sína vegna andstöðu við virkjunina. Lítið var gert úr tilfinningum okkar til náttúrunnar og til þessa stórfenglega svæðis sem var verið að eyðileggja. Lögreglan fylgdist með ferðum og lífi fólks sem hafði ekkert gert af sér nema að hafa opinberað að vera andsnúið þessari virkjun og tekið þátt í friðsælum mótmælum. Þannig var lýðræðið fótum troðið. En stjórnvöld brugðust lýðræðinu einnig á ýmsan hátt: Ákvörðun um að virkja var ekki tekin á vísindalegum forsendum, umræðan var ekki opin – hvorki hvað varðar aðra valkosti né að allir gætu óhindrað lagt sitt til málanna. Ekki lá heldur fyrir hver væru raunveruleg verðmæti þeirrar ósnortnu náttúru sem yrði óhjákvæmilega fórnað.

Sandur, leir og landbrot 

Erfitt er að sjá fyrir langtímaafleiðingar hins gríðarlega inngrips í náttúru svæðisins og flókinn vef vistkerfa sem framkvæmdir vegna Kárahnjúkavirkjunar eru. Engin svör eru m.a. til um það hvað verður um eyðimörkina sem lónið verður í framtíðinni vegna uppsöfnunar á aur og sandi. Að kalla þessa framkvæmd sjálfbæra er misnotkun á því orði.   

Fyrri part sumars ár hvert, þegar lítið vatn er í lóninu, liggur svakalegur massi af sandi og leir laus allan hringinn í kringum lónið. Ýmsar mótvægisaðgerðir hafa gert eitthvert gagn í því að minnka líkurnar á miklu tjóni vegna áfoks. En það er ljóst hverjum þeim sem hefur séð sandinn og leirinn að hann getur valdið miklu tjóni á skömmum tíma þegar þannig viðrar. Stundum á sumrin liggur mikill sandmökkur yfir Héraðið. Þó að hluti hans eigi upptök sín m.a. á Dyngjusandi þá er vitað að sandfok kemur líka reglulega úr bökkum Hálslóns og töluvert áfok er á gróðurinn í kring. Eins er alveg óljóst hvernig á að stoppa landbrotið sem ógnar m.a. hluta Kringilsárrana og hefur étið sig inn fyrir hin nýju mörk friðlandsins. Að hugsa sér að með einu pennastriki hafi verið hægt að minnka friðlandið fyrir þessar framkvæmdir og að síðan standist ekki einu sinni útreikningar um hvar nýju mörkin geti legið!  

Hér er einungis vikið að örfáum atriðum af þeim fjölmörgu umhverfisáhrifum sem Kárahnjúkavirkjun hafði, hefur og mun hafa.  

Ég geri mér grein fyrir mismunandi áhrifum, bæði jákvæðum og neikvæðum, sem álverið Alcoa Fjarðaál á Reyðarfirði, knúið með rafmagni frá Kárahnjúkavirkjun, hafði og hefur enn á samfélagið hér fyrir austan. En greinin snýst ekki um það og ekkert getur afsakað skoðanakúgunina sem átti sér stað auk þess sem ég er þeirrar skoðunar að fórnarkostnaðurinn, s.s. eyðilegging vistkerfa, sé allt of mikill.

Að beygja reglurnar

Ljóst er að áhrifin á náttúruna voru, eru og verða gífurlega mikil. Myndir af svæðinu fyrir og eftir virkjun tala sínu máli. Og ljóst er að mannkynið verður að hætta að skemma vistkerfin og einbeita sér að endurheimt þeirra, vilji það lifa af. Einnig er ljóst að til að ná í gegn ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var sparkað var í lýðræðið á ýmsan hátt. Hátt hljóma orð þeirrar Friðriks Sophussonar þáverandi forstjóri Landsvirkjunar og Valgerðar Sverrisdóttur þáverandi iðnaðarráðherra við sendiherra Bandaríkjanna í tilefni af fyrstu skóflustungu að álveri Alcoa á Reyðarfirði. Nefnilega þau að til þess að hægt væri að ráðast í virkjunina hefði þurft að beygja reglurnar, „Bending all the rules just for this project“. Þetta er sorgleg staðreynd sem ætti ekki að geta gerst í lýðræðisríki. Nú er það í okkar höndum að sjá til þess að næstu ákvarðanir um virkjanir verði ekki teknar á grunni græðgi, peningaafla, óska erlendra stórfyrirtækja, frama einstakra stjórnmálamanna, villandi eða rangra forsendna eða skoðanakúgunar og ófriðar í samfélögum.  

Höfum við ekkert lært? 

En hvað býr að baki ýmsum virkjanaáformum sem eru á teikniborðinu í dag? Gróðavon virðist m.a. knýja þau áfram, annars mundu einkaaðilar og peningaröfl ekki sækja svo ákveðið í slík verkefni. Mikil upplýsingaróreiða og orkuáróður á sér stað. Ekki er alltaf byggt á staðreyndum, heldur villt fyrir hinum almenna borgara. Forsendur virðast stundum byggja meira á óskum erlendra orkufyrirtækja en á heildstæðri framtíðarsýn Íslands í orkumálum. Sú hætta að virkjanaáform kljúfi lítil samfélög í tvennt er aftur að verða áþreifanleg sums staðar og minnir mjög á tíma Kárahnjúkadeilunnar. Nýlegt tilvik í Múlaþingi sýnir einnig að aftur virðist reynt að troða á lýðræðinu: Lagt var fram minnisblað frá lögmanni um mögulegt vanhæfi sveitarstjórnafulltrúa á grunni þess að viðkomandi er einnig formaður Náttúruverndarsamtaka Austurlands. Sveitarstjórnarfulltrúinn hefur engra persónulegra eða fjárhagslegra hagsmuna að gæta, en aftur á móti starfar lögmaðurinn sem skrifaði minnisblaðið einnig fyrir Arctic Hydro sem áformar virkjanir í Múlaþingi. Erum við í alvöru aftur komin á sama stað og í Kárahnjúkadeilunni, að reynt verði að kæfa raddir borgaranna með ólýðræðislegum hætti? Höfum við ekkert lært? Ég hvet ykkur að lesa þessa grein um lýðræðislegar ákvarðanir.  

Við verðum að byggja næstu ákvarðanir um virkjanamál á faglegum og lýðræðislegum forsendum þar sem hagsmunir náttúru og komandi kynslóða verða hafðir í heiðri. 

Greinin birtist fyrst á heimildin.is 11. mars 2024

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd